Helena Bonham Carter er miklum hæfileikum búin sem leikstjórar á borð við James Ivory haf nýtt sér með góðum árangri. Fyrst og fremst í búningamyndum en síðustu árin hefur hún fengið tækifæri á að sýna á sér aðra og kynþokkafyllri hlið, ekki síst í Novocai
Helena Bonham Carter er miklum hæfileikum búin sem leikstjórar á borð við James Ivory haf nýtt sér með góðum árangri. Fyrst og fremst í búningamyndum en síðustu árin hefur hún fengið tækifæri á að sýna á sér aðra og kynþokkafyllri hlið, ekki síst í Novocai
Hin glæsilega og hæfileikum búna breska leikkona Helena Bonham Carter hefur lengst af verið tengd frekar þunglamalegum, hádramatískum hlutverkum í fjölda virtra mynd í heimalandinu. Síðustu árin hefur orðið stefnubreyting, Carter hefur fengið tækifæri til að beita ómældum kynþokka sínum í myndum sem hún hefur mestmegnis gert í Vesturheimi.
HELENA Bonham Carter er fædd í Lundúnum fyrir 36 árum, þannig að ekki er seinna vænna ef hún ætlar sér að breyta um stefnu, konur eru skammarlega fljótar að úreldast í kvikmyndaheiminum; undir fertugt geta þær kvatt draumana um eftirsóttustu hlutverk hvíta tjaldsins.

Carter býr yfir aristókratískri reisn, enda með blátt blóð í æðum. Langafi hennar var H.H. Asquith , lávarður og forsætisráðherra Bretlands 1908-1916. (Hún er því einnig frænka leikstjórans Anthonys Asquith (1902-1968).

Hin hliðin á Carter er seiðmögnuð fegurð með tæfulegum, varasömum undirtón, sem hæfir vel myrkari hlutverkum en leikkonan hefur almennt fengið að moða úr. Hún er semsé heillandi blanda breskra hefðarkvenna klassískra bókmennta E.M. Forsters og dulúðugs kvendjöfuls og örlagavalds, sprottnum úr rökkurveröld James M. Cain .

Þrátt fyrir ættgöfgina var æska Carter enginn dans á rósum. Faðir hennar var bankamaður sem lamaðist á besta aldri og móðir hennar beið andlegt skipbrot á táningsárum dóturinnar. Carter hefur greint frá því að það var áfall móður hennar sem ýtti undir ákvörðunina að gerast leikkona.

19 ára gömul fékk Carter fyrsta kvikmyndahlutverkið, í búningamyndinni Lady Jane ('85), en slík verk áttu eftir að verða áberandi á ferli hennar næsta áratuginn. Frammistaða hennar sem táningur á 17. öld, vakti athygli tvíeykisins kunna; leikstjórans James Ivory og framleiðandans Ismails Merchant , sem þá stóðu á hátindi frægðarinnar.

Tvímenningarnir buðu Carter hlutverk í A Room With a View ('86), frammistaða hennar gerði Carter að frægri og eftirsóttri, dramatískri leikkonu í einni svipan. Hún hætti námi í Cambridge og ákvað að snúa sér alfarið að leiklistinni.

Næstu árin hafði Carter mikið að gera og við góðan orðstír. Því miður festist hún í svipuðum hlutverkum ár eftir ár. Yfirleitt hádramatískum kvikmyndagerðum eftir klassískum verkum bókmenntanna. Carter varð virt en nokkuð óspennandi leikkona, minnti dálítið á rós sem skorti vökvun.

Myndalistinn er reisulegur. Carter lék Ófelíu í kvikmyndagerð Francos Zeffirelli á Hamlet ('90), hafði þá nýlokið við smáhlutverk í Maurice, eftir Ivory , með Rupert Graves og Hugh Grant . Tvö hlutverk í kvikmyndagerðum E.M. Forsters , tóku við: Where Angels Fear to Tread ('91), og Howard's End ('92). Öll af sama sauðahúsi, Carter sat föst í neti búningamyndanna.

Til hjálpar kom enginn annar en Woody Allen , einn snjallasti og þefvísasti kvikmyndagerðarmaður samtímans á ókunnar breiddir í fórum ólíklegustu leikara. Allen bauð Carter nútímahlutverk í gamanmyndinni Mighty Aphrodite ('95), og prinsessan losnaði úr álögunum. Bíógestir og gagnrýnendur sperrtu upp augun; konan var þá kynþokkafull og heillandi undir korselettinu!

Carter sýndi magnþrunginn leik sem eiginkona kolanámumanns í Margaret's Museum ('95), fáséðri mynd sem var hápunkturinn á ferli kanadíska leikstjórans Morts Ransen . 1997 hlaut hún Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir frammistöðu sína í Wings of the Dove og fékk einnig góða dóma fyrir A Merry War ('98).

Árið 1999 verður byltingin í lífi Carter , örlagavaldurinn er Fight Club, hin umtalaða og vanmetna ofbeldisorgía Davids Fincher . Hér fá kvikmyndahúsgestir nýja sýn á leikkonuna, hún er, sem fyrir töfra, skyndilega svæsið og stormandi femme fatale, slík umskipti eru fátíð í kvikmyndaheiminum.

Carter var óþekkjanleg en eitt af því skásta og óvæntasta í Burton -útgáfu Apaplánetunnar ('01) og hún er sannkölluð tæfa í Novocaine ('01). Vonandi heldur hún áfram að krydda hvíta tjaldið sem lengst og best.