Audi A8 verður með aflmeiri V8-vélum.
Audi A8 verður með aflmeiri V8-vélum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRAMLEIDDIR hafa verið meira 100 þúsund Audi A8 og nú er von á nýrri gerð flaggskipsins frá verksmiðjunni í Ingolstadt. Bíllinn hefur verið því sem næst óbreyttur frá því hann kom fyrst á markað fyrir um átta árum.

FRAMLEIDDIR hafa verið meira 100 þúsund Audi A8 og nú er von á nýrri gerð flaggskipsins frá verksmiðjunni í Ingolstadt. Bíllinn hefur verið því sem næst óbreyttur frá því hann kom fyrst á markað fyrir um átta árum. Margir hefðu því kannski vænst þess að sjá nýtt lag á bílnum eftir allan þennan tíma en Audi velur að fara þá leið að hafa útlitsbreytingarnar hógværar og styrkja fremur þá ímynd sem bíllinn hefur sem lúxusfarkostur.

Engu að síður var í þróun nýja bílsins mest áhersla lögð á hönnun, sem ásamt aksturseiginleikunum, á fyrst og fremst að standa undir kjörorðinu léttleiki. Í lúxusbílaflokki þýðir þetta léttleiki í formhönnun og sjálfri þyngd bílsins, hröðun, aksturseiginleikum og ekki síst þjónustu við bílinn.

Flaggskip Audi hefur ávallt státað af vel skipulögðu og fallegu umhverfi ökumanns. Svo verður áfram, ekki síst vegna nýs búnaðar sem kallast MMI (Multi Media Interface) sem er stjórnrofi sem stýrir á einfaldan hátt þæginda- og samskiptatækjabúnaði bílsins.

Audi kynnir í nýja bílnum tvær V8 vélar sem nú eru orðnar mun aflmeiri en fyrri gerðir. 3,7 lítra vélin, sem skilaði áður 260 hestöflum er nú orðin 280 hestafla, og 4,2 lítra vélin, sem áður skilaði 310 hestöflum, er nú 335 hestöfl. Nýr A8 er því orðinn sannkallaður foringi á þýsku hraðbrautunum. Bíllinn fær líka nýjan sex þrepa TipTronic-gírkassa og ályfirbyggingin er sögð verða 60% stífari en í fyrri gerð. Auk þess verður Audi A8 fáanlegur í quattro-gerð, þ.e. með fjórhjóladrifi og með takkagírskiptingu í stýrinu ásamt rafstýrðri loftpúðafjöðrun.