Gestirnir frá Bandaríkjunum voru heillaðir  af landslaginu og  fuglalífinu en ekki hvað síst af víðáttunni á Breiðafirði.
Gestirnir frá Bandaríkjunum voru heillaðir af landslaginu og fuglalífinu en ekki hvað síst af víðáttunni á Breiðafirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stuðlabergið, haförninn, eyjarnar og víðáttan eru stórkostleg, sögðu erlendu gestirnir við Guðbjörgu R. Guðmundsdóttur, en þeir voru að vísa í það sem fyrir augu bar á Breiðafirði.

ÞAÐ eru ótal staðir fyrir utan borgina sem hægt er að fara og heimsækja í dagsferð og einn þeirra er Stykkishólmur á Snæfellsnesi.

Nýlega gerði ég mér ferð þangað og í samfloti voru með mér gestir frá Bandaríkjunum, hjónin Evert Van der Sluis og Marylka Jakubczak ásamt börnunum Adam og Helen.

Þau voru að koma frá Ítalíu og Hollandi og gerðu stuttan stans hér á leið sinni til Bandaríkjanna. Veðrið var ekki sem ákjósanlegast, af og til rigning og dumbungur. Þeim fannst það ágætis tilbreyting frá hitanum og rakanum á Ítalíu og raunar heillandi að upplifa ekta íslenska veðráttu.

Eftir akstur frá Reykjavík til Stykkishólms var mátulegt að breiða út dúkinn og taka upp samlokurnar og kaffið. Strax og komið er inn í bæinn, við kirkjugarðinn, er frábær áningarstaður og þar er búið að koma fyrir borðum og stólum þannig að fólk geti borðað nestið sitt. Gestirnir voru hrifnir af því hversu mikið var lagt upp úr hreinlæti, tunnur fyrir sorp vel hirtar og ekkert rusl á víðavangi.

Haförninn tignarlegur

Við héldum næst í suðureyjasiglingu með Sæferðum. Ferðin tók á þriðju klukkustund og var frábær í alla staði. Á leiðinni var fólk frætt um það sem fyrir varð, eyjar, dýralíf, bergmyndanir og mannlíf á árum áður á eyjunum. Landslag eyjanna er fjölbreytilegt og það sama er hægt að segja um fuglalífið. Fuglarnir eru orðnir vanir bátunum og láta það ekki á sig fá þó þeir komi nærri. Það var sérstaklega gaman að fá tækifæri til að vera í návígi við haförninn í þessari ferð en talið er að aðeins séu um 200 slíkir fuglar við Ísland. Fuglinn er tignarlegur og þarna gafst fólki kostur á að heimsækja hafarnarpar sem átti hreiður á einni eyjunni. Evert sagði að í síðustu viku hefðu þau hjónin siglt út í eyjuna Capri á Ítalíu og nú um Breiðafjarðareyjar og andstæðurnar væru miklar. Hann sagði að vissulega væri Capri falleg en siglingin á Breiðafirði væri einstök. "Þessi sigling er ekki lík neinu sem við höfum upplifað. Stuðlabergið höfum við aldrei áður séð og það er frábært að sjá þetta fjölskrúðuga fuglalíf, lundamergðina, rituna, fýlinn og haförninn. Þar fyrir utan er það sérstaklega gaman fyrir fólk eins og okkur sem býr í miðju landi að fá að komast í návígi við sjóinn og víðáttuna.

Á miðri leið var plógi kastað út og þegar hann var dreginn inn var innihaldið skoðað og bragðað á því sem hægt var. Þarna voru krabbar, ígulker, skelfiskur og kuðungar. Evert og Marylka voru rög í fyrstu að bragða á þessum herlegheitum en létu sig hafa það þegar þau sáu að flestir voru til í að prófa.

Þegar komið var að landi voru sjómenn að koma heim úr róðrum og mikið líf á höfninni. Rétt við höfnina er veitingastaðurinn Narfeyrarstofa og þar uppi á efri hæðinni er Sjávarloftið en það var opnað í byrjun sumars. Á kvöldin getur fólk komið þangað og bragðað á því sem fjörðurinn hefur upp á að bjóða, ferskum fiski og fugli. Þennan dag sem ég var þarna á ferð var það nýr lundi í gráðostasósu sem beið gesta. Það er frábært að eigendur Sjávarloftsins skuli leggja metnað í að nota glænýtt hráefni af staðnum.

Vatnið í pottunum ríkt af söltum

Sundlaugin á Stykkishólmi er opin til klukkan tíu á kvöldin og því var ákveðið að enda dagsferðina þar. Í heitu pottunum í Stykkishólmi er vatnið sérstakt því það kemur beint úr borholunni við Hofsstaði fyrir ofan bæinn. Efnasamsetning borholuvatnsins í Stykkishólmi er svipuð og vatnsins í Baden-Baden í Þýskalandi sem er einn þekktasti heilsubaðstaður þar í landi. Vatnið er ríkt af söltum en þau eru talin hafa góð áhrif á húðina og sérstaklega á þá sem eru með psoriasis. Evert og Marylka voru hrifin af sundlauginni og aftur barst talið að hreinlæti. Þeim fannst aðdáunarvert að fólk færi í sturtu áður en það færi í laugina og að áhersla væri lögð á snyrtimennsku.

Það var margt annað sem við höfðum hug á að gera, skreppa í golf, fara á kajak og ganga á Helgafell. Það hefði líka verið gaman að heimsækja Hildibrand á Bjarnarhöfn og smakka hákarl, skoða sýninguna í Norska húsinu, heimsækja veitingahúsin og labba um bæinn. En dagur var kominn að kveldi og mál til komið að halda heim.

*Narfeyrarstofa-Sjávarloftið Aðalgata 3 Stykkishólmi Sími 4381119 Sundlaugin Íþróttamiðstöðinni Borgarbraut 4 Stykkishólmi Sími: 4381150 Sæferðir Sími 4381450 Vefslóð: www.saeferdir.is Gagnlegar vefslóðir: www.stykkisholmur.is www.vesturland.is www.west.is www.aknet.is/stpostur