Það kom á óvart hversu auðvelt var að finna ósnortna staði í Króatíu.
Það kom á óvart hversu auðvelt var að finna ósnortna staði í Króatíu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sumarleyfinu eyddi Eirný Valsdóttir að þessu sinni í Króatíu og ferðaðist um héraðið Istria.
Hvernig stóð á því að þú ákvaðst að eyða sumarfríinu í Króatíu?

"Vinkona mín, Guðný Sigurðardóttir, fékk í vetur vinnu hjá króatísku flugfélagi og ég fór að heimsækja hana."

Hvernig skipulagðir þú ferðina?

"Ég flaug með Terra Nova til München og þeir útveguðu síðan flug til Trieste á hagstæðu verði. Þaðan var aðeins um einnar og hálfrar klukkustundar akstur til Króatíu. Ég dvaldi í norðanverðu landinu, rétt hjá Rijeka, og síðan ferðuðumst við töluvert um héraðið Istria en í héraðinu er fjöldi strandbæja og stærri borga sem gaman er að heimsækja."

Eirný segir að landslagið sé fallegt á þessum slóðum, veðrið hafi verið gott og enginn raki.

"Í þessu héraði eru sögulegar minjar eins og hringleikahús frá dögum Rómverja, margar fornar byggingar og enn er mikið um steinlagðar þröngar götur."

Þá segist Eirný eitt kvöldið hafa farið að hlusta á óperu í kastalarústum á eyjunni Krk.

"Þetta var uppfærsla á Cavalleria Rusticana og liður í listahátíð. Það var orðið aldimmt úti. Áheyrendur sátu á pöllum í hálfhring og á aðra hönd var útsýni yfir sjóinn, sem tunglið merlaði á, en á hina var kirkja. Það var algert logn þetta kvöld, um 28 stiga hiti og hundgá og mannsraddir sem heyrðust í fjarska voru eins og náttúrulegur bakgrunnur því sviðsmynd óperunnar er á torgi. Þetta var ógleymanlegt."

Voru margir ferðamenn á þessum slóðum?

"Áður en stríðið skall á heimsóttu margir þessar slóðir og nú er verið að byggja upp á ný og laða að ferðamenn, ekki síst frá Norður-Evrópu. Á sumum stöðum eru margir túristar en það er líka auðvelt að finna staði þar sem ekki er krökkt af ferðamönnum. Þó að í sumum strandbæjum væru margir gestir fannst mér gott að vera laus við hávaðann sem oft skapast á slíkum stöðum. Það var meiri ró yfir lífinu þarna en víða annars staðar þar sem margir eru samankomnir. Á ýmsum stöðum voru bara heimamenn og það kom mér á óvart hversu auðvelt var að finna ósnortna staði."

Eirný segir að maturinn hafi verið frábær en í Króatíu er mikið borðað af pasta, alls kyns skinku, ólífum og ostum. Þá framleiða vínbændur í héraðinu gott vín og á þessum árstíma var mikið úrval af ferskum ávöxtum og grænmeti.

Er ódýrt að vera ferðamaður í Króatíu?

"Já miðað við íslenskt verðlag er hagstætt að kaupa í matinn, borða úti og gista á hótelum. Þetta er á hinn bóginn ekki rétti staðurinn til að fara í búðaráp og ætla til dæmis að fata sig upp."

Gætir þú hugsað þér að fara aftur í frí á sömu slóðir?

"Þetta er fyrsti sumarleyfisstaðurinn sem ég fer á sem mig virkilega langar að heimsækja á ný."

*Vefslóðir sem nýttust Eirnýju vel við skipulagningu ferðarinnar: www.croatien.at, www.vrijemo.hr/index-en.html og www.hr Ágætt hótel í Opatija Hótel Mozart www.hotel-mozart.hr.