[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjóbleikjuveiði hefur víða verið góð, en sums staðar hefur bleikjan annaðhvort verið sein fyrir eða hana beinlínis vantað. Þetta er afar breytilegt, ár fyrir vestan hafa t.d. verið mjög líflegar, t.d.

Sjóbleikjuveiði hefur víða verið góð, en sums staðar hefur bleikjan annaðhvort verið sein fyrir eða hana beinlínis vantað.

Þetta er afar breytilegt, ár fyrir vestan hafa t.d. verið mjög líflegar, t.d. Skálmardalsá þar sem sum hollin voru að fá 30 til 40 fiska og missa mikið, eftir miðjan júlí. Góð skot voru einnig í Gufudalsá og sunnar, í Dölunum, hefur sannarlega verið góð veiði í Hvolsá og Staðarhólsá þótt ekki séu tölur fyrirliggjandi.

Norðanlands er þó sums staðar daufara yfir vötnum. Gæðum heimsins er misskipt á silungasvæði Vatnsdalsár, en Ragnar bóndi á Bakka í Víðidal sagði bleikjuveiði í Víðidalsá hafa verið mun lakari en menn eiga að venjast á þeim bæ. Hann talaði um "skot" þegar einhverjir tveir á silungasvæði árinnar fengu 10 fiska einn daginn. Mikinn fisk var þó að sjá í Hópinu í júní og snemma í júlí og því kemur fiskleysið dálítið á óvart.

Mikið er um það talað meðal norðlenskra veiðimanna að Eyjafjarðará sé "hrunin", þar séu menn að fá mest 10 til 12 fiska á dag en ekki 30 til 50 þegar best hefur látið. Nú er kominn sá tími sumars að bleikjan á að vera byrjuð að ganga af miklum krafti og því er uggur í mönnum að göngur og veiði þetta árið verði með minnsta móti.

Á sama tíma hefur glæðst nokkuð í Hörgá, en besta hrotan sem frést hefur af úr þeirri á er 19 fiskar á einum degi, sem flestir veiddust í Bægisárhyl, sem mun vera einn besti veiðistaðurinn í ánni.