"Ég starfaði 42 ár hjá VR og það urðu miklar breytingar þar á þessum tíma," segir Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur.
"Ég starfaði 42 ár hjá VR og það urðu miklar breytingar þar á þessum tíma," segir Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forkólfar verkalýðsfélaga eru áberandi fólk í íslensku þjóðlífi. Einn þeirra sem lengi hafa sett svip á samtíð sína er Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur. Hann segir hér Guðrúnu Guðlaugsdóttur eitt og annað um uppruna sinn, menntun, störf og skoðanir.

SUMT fólk er í þannig stöðu í samfélaginu að öllum finnst þeir þekkja það - án þess þó að þekkja það nokkurn skapaðan hlut. Þegar Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, opnaði fyrir mér dyrnar á heimili sínu fyrir skömmu kom mér andlit hans afar kunnuglega fyrir sjónir úr fjölmiðlum, en jafnframt vitraðist mér enn einu sinni hve nærvera manna er allt annað en útlit þeirra, hlýlegt fas skilar sér illa á ljósmynd - en maður skynjar það á samri stundu augliti til auglitis. Sömu sögu er að segja um rósemd í fari fólks, varkárni og einurð.

Magnús afsagði að ég færi úr skónum, sagði enga ástæðu til slíks og með það arkaði ég í ljósum sumartöflum inn á glæsilegt, rauðbrúnt parketið. Ég hafði engan grun um það þá að þessi maður, sem nú býr í glæsilegu einbýlishúsi í neðra-Breiðholti, einn forkólfa verkalýðsbaráttu á Íslandi, fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík í yfir tuttugu ár, þar af forseti borgarstjórnar í níu ár og skamman tíma þingmaður, hefði fæðst í gamalli baðstofu og stigið sín fyrstu spor í eldhúsi með moldargólfi.

Ég hæli húsinu - enda ástæða til - og Magnús verður glaður við, ekki að ástæðulausu, hann á stóran hlut í byggingu þess.

"Þau voru ekki svo há lánin á þeim tíma, maður varð að gera sem allra mest sjálfur," segir hann og við horfum saman á handarverk hans, fagurlega flísalagðan stofuvegg meðal annars.

"Það þarf nú handlagni til þess arna," segi ég.

"Ég var náttúrlega ýmsu vanur, sveitadrengur," segir hann - og viðtalið er hafið.

Magnús L. Sveinsson fæddist 1. maí 1931, fjórði sonur hjónanna Guðbjargar Jónsdóttur og Sveins Böðvarssonar á Uxahrygg á Rangárvöllum, sá fimmti fylgdi strax á eftir, Matthías, eineggja tvíburabróðir Magnúsar.

"Sniðugur afmælisdagur með tilliti til þess sem á eftir fór," segi ég.

"Persónulega afmælið varð nú stundum að víkja fyrir hátíðahöldunum á verkalýðsdaginn," svarar Magnús og hlær.

"Ég get sagt þér til gamans að ég útskrifaðist úr Samvinnuskólanum 1. maí 1951 og Jónas frá Hriflu, skólastjórinn, átti afmæli 1. maí einnig."

En nú er stokkið langt yfir sögu, ýmislegt gerðist nefnilega frá fæðingu tvíburana í baðstofunni á Uxahrygg til útskriftardagsins 1. maí 1951, þar í milli eru hvorki meira né minna en öll þroska- og mótunarárin í lífi Magnúsar L. Sveinssonar.

"Ég heyrði foreldra mína aldrei tala um að þau væru fátæk en það hlýtur að hafa verið stundum þröngt í búi, afurðirnar af búinu fór upp í greiðslur fyrir vöruúttektir og faðir minn varð að fara burt frá heimilinu á veturna á vertíð til Vestmannaeyja til þess að afla peninga," segir hann. "Þungt hlýtur föður mínum að hafa verið innanbrjósts þegar hann 1939 varð að selja besta hestinn sem hann eignaðist um ævina, Hnokka, fyrir 400 krónur, eins mikill hestamaður og hann var.

Hann var alinn upp við þröngan kost í stórum systkinahópi. Sem dæmi um kjör hans get ég sagt frá verðlaunum sem honum voru heitin ef hann lærði utan að 100 blaðsíður í kverinu fyrir sumardaginn áður en hann fermdist vorið 1909, - tækist það átti hann að fá eina flatköku í verðlaun. Hann vann til þeirra verðlauna, - lærði allt kverið í hlýjunni í fjósinu.

Mamma var líka af fátæku fólki komin.

Skilið á milli í "drottins nafni"

Ég ólst upp í baðstofu sem var 32 fermetrar að stærð og þar inni sváfum við öll og líka það vinnufólk sem kom til starfa á heimilinu.

Engin vinnukona var þó heima þegar við tvíburabræðurnir fæddumst. Tvíbýlt var á Uxahrygg og kona úr hinum bænum fór að sækja ljósmóður þegar von var á okkur bræðrum í heiminn, en ég var fljótari í förum en hún og áttræð kona úr hinum bænum var búin að skilja á milli "í drottins nafni", eins og hún sagði, þegar amma mín kom, en hún var ljósmóðirin. Það var sími á einum bæ í sveitinni á þessum tíma og þangað var farið daginn eftir til þessa að koma þeim boðum til föður míns, sem var á vertíð í Eyjum, að tveir drengir væru fæddir.

Þegar við fæddumst áttu foreldrar mínir fyrir þrjá drengi, Jón, Kristján og Hafstein, sá elsti var 6 ára. Við vorum aldir upp við kærleika og samheldni, við höfum því verið samrýndir bræður og höfum enn mikinn samgang. Mamma var stundum spurð hvort hún hefði ekki saknað þess að eignast ekki dóttur en hún sagði það ekki vera. Ég hugsa að hún hefði samt haft ánægju af að eiga telpu, hún var það sem kallað er "pjöttuð" kona og ævinlega mjög vel tilhöfð og fín þótt efnin væru ekki mikil.

Í gamla bænum okkar var timburgólf í baðstofunni og litlu herbergi, þau voru sandskúruð fyrir jólin en moldargólf var í eldhúsi og öðrum vistarverum og það þurfti að gæta þess að moldargólfin blotnuðu ekki svo ekki hlytist óþrifnaður af. Vatn þurfti að sækja í fötum út í læk allt árið um kring. Jólagjafir voru helst fataplögg eða skinnskór, ég gekk í slíkum skóm og þótti þeir sérstaklega góðir. Ég man enn að 1942 um jólin keypti pabbi fyrir fjölskylduna eitt epli á mann, ég hafði aldrei séð epli áður og ég man enn eftir ilminum af því.

Stundum á veturna stíflaðist áin Þverá fyrir ofan bæinn svo hann stóð einn upp úr og síðan fraus allt og þá gátum við strákarnir rennt okkur á skautum um alla sveit.

Mamma kenndi okkur að lesa

Mamma lét okkur bræðurna sitja á bekknum í eldhúsinu meðan hún vann sín verk og hlýddi okkur jafnframt yfir námsefni eftir að hafa kennt okkur að lesa. Einu sinni á ári kom svo séra Erlendur Þórðarson í Odda á hvern bæ í sveitinni til að fylgjast með undirbúningi barnanna undir skóla. Við Matthías vorum svo saman í heimavistarskóla á Strönd frá tíu ára aldri, fjóra mánuði fjóra vetur, þar var húsakostur svo lítill að við urðum að sofa saman í mjóu rúmi.

Við Matthías erum sem fyrr sagði eineggja tvíburar og mjög líkir, ég sá t.d. gamla mynd frá skólaárum okkar á Strönd og ég verð að viðurkenna að ég var ekki viss hvor var hvað.

Var í barnastúku

Ég var í barnastúku þegar ég var í skólanum á Strönd og á góðar minningar um starfið þar og þá ágætu menn sem við okkur krakkana töluðu. Mér var sýndur sá heiður að vera kjörinn ritari stúkunnar þegar ég var 13 ára gamall, ég tók þetta fyrsta embætti mitt mjög alvarlega. Vín smakkaði ég ekki fyrr en ég var 26 ára gamall.

Trúmál voru talsverður þáttur í minni barnæsku. Mamma fór jafnan með bænir á kvöldin áður en við bræðurnir fórum að sofa. Þetta veganesti hefur orðið mér drjúgt, ég skammast mín ekki fyrir að segja frá því að ég les mínar barnabænir enn á hverju kvöldi og bið fyrir mínu fólki og mér er það gleðiefni að dóttir mín hefur skrifað niður og rammað inn þær sömu bænir fyrir litlu dóttur sína. Ég tel mig geta fullyrt að trúin spillir manni ekki.

Pabbi las húslestra áður en hann fór á vertíðir í Eyjum.

Árið 1939 var gerð mikil bragarbót á gamla bænum, settir skápar í eldhúsið og timburgólf þar sem áður voru moldargólf. Árið 1940 kom svo vindmylla á bæinn og það var mikill munur að fá ljósarafmagn. En við þurftum að fara sparlega með það því það var ekki alltaf vindur og þá eyddist af geymunum. Við vorum aldir upp við nýtni og sparnað, t.d. var lögð mikil áhersla á að við fengjum okkur ekki meiri mat á diskana en við ætluðum okkur að borða. Ég finn til þess enn í dag að ég vil fara vel með hluti og nýta þá.

Fjölskyldan fluttist á Selfoss

Þegar ég var 17 ára fluttist fjölskyldan á Selfoss. Jón bróðir minn var þá orðinn járnsmiður og hann hvatti pabba til að bregða búi, jörðin var blaut og túnin lítil og nóg vinna á Selfossi. Pabbi fékk lóð og byggingarleyfi, þá þurfti að fá slíkt leyfi vegna innflutnings á byggingarefni. Og svo byggði hann sér einbýlishús. Við bræðurnir hjálpuðum honum eftir megni. Byggingin hófst um vor og fyrir jól vorum við flutt inn. Í húsinu voru þrjár íbúðir og í einni þeirra hóf ég sjálfur búskap þegar ég gifti mig.

Pabbi fékk vinnu í málningarvöruverslun hjá Ingþóri Sigurbjörnssyni. Pabbi var mikill sjálfstæðismaður og það varð ég einnig. Pólitíkin var talsvert harðvítug fyrir austan þegar ég var að alast upp, oft munaði mjóu á fylgi framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, það var því hart barist um hvert atkvæði. Það var meira að segja fylgst með hverjir dóu og spáð í flokkafylgi eftir því hvar hinn látni hafði staðið í pólitíkinni. Kjördæmaskipunin var þannig að t.d. árið 1932 höfðu framsóknarmenn þriðjung atkvæða en meirihluta á Alþingi. Staðan 1942 var þannig að tvö atkvæði voru á bak við hvern sjálfstæðismann á móti einu á bak við hvern framsóknarmann á þingi. Þetta þótti óréttlæti.

Ég varð snemma fylgjandi stefnu Sjálfstæðisflokksins, pabbi vildi að einstaklingurinn væri sem sjálfstæðastur og fengi umbun fyrir sitt starf, þannig fór ég að hugsa líka strax og ég komst á legg.

Ég var einn vetur við nám hjá séra Arngrími í Odda og tvo vetur í gagnfræðaskóla og lauk gagnfræðaprófi vorið 1950. Ég var í sumarvinnu hjá séra Arngrími eftir það og nefndi það þá við hann þegar hann fór suður til Reykjavíkur um sumarið að tala máli mínu við Jónas frá Hriflu, sem þá var skólastjóri Samvinnuskólans. Náminu þar hafði þá nýlega verið þjappað saman úr tveggja vetra námi í eins vetrar nám.

Séra Arngrímur hitti Jónas sem tók erindinu vel og bað mig að koma til viðtals. Ég fór og eftir að hafa rætt við Jónas á heimili hans í Hamragörðum sagði hann mér að mæta í skólann um haustið og sjá til hvernig mér reiddi af.

Í Samvinnuskólanum

Ég leigði mér um haustið risherbergi á Miklubraut 70, hjá fólki frá Selfossi sem ég fékk einnig fæði hjá. Peninga hafði ég af skornum skammti. Skólinn var þá í Sölvhólsgötu og ég gekk þangað á hverjum degi og heim aftur, ég hafði ekki aflögu peninga til að fara í strætisvagni, - þá kostaði farið eina krónu. Þegar ég fór heim í jólafrí lét pabbi mig fá töluvert mikið af krónupeningum sem hann hafði safnaði handa mér í strætisvagnafargjöld. Hann og Jón bróðir höfðu lánað mér það sem upp á vantaði til þess að ég gæti stundað námið í Samvinnuskólanum.

Af augljósum ástæðum sinnti ég ekki mikið skemmtanalífi í höfuðborginni, nema hvað ég sótti skólaböll og málfundi, þar lenti ég oft í stælum við félagana um málefni kaupfélaganna meðal annars, mér fannst þau hafa nokkra einokunaraðstöðu og beita henni nokkuð grimmt. Það fóru miklar sögur af ofurvaldi Sambandsins, en eftir að það leið undir lok hef ég stundum sagt: "Þeir eru margir SÍS-ararnir!"

Það kom ekki svo mjög að sök þótt ég ætti lítið fé til að stunda skemmtanir fyrir þegar ég var í Samvinnuskólanum, - ég átti fullt í fangi með að standa skil á námsefninu því það var töluvert yfirgripsmikið og erfitt.

Jónas Jónsson kenndi okkur félagsfræði og samvinnusögu og var mjög skemmtilegur kennari. Hann fór langt út fyrir námsefnið og ræddi mikið við okkur um mannlífið og tilveruna. Hann var þá kominn út úr pólitísku starfi og skoðaði stjórnmálalífið nokkuð hlutlausum augum. Mér þótti vænt um Jónas.

Fjölskyldumaður flytur til Reykjavíkur

Eftir útskriftina 1. maí 1951 fór ég austur á Selfoss til að vinna. Ég fékk vinnu við Kaupfélag Árnesinga þótt sjálfstæðismaður væri og var í fyrstu á ferðaskrifstofunni. Þá rak kaupfélagið rútur og mjólkurbíla og ég starfaði við skipulagningu á þeirri starfsemi. Nokkru síðar fluttist ég á aðalskrifstofu kaupfélagsins. Þeir voru með bílaviðgerða- og trésmíðaverkstæði fyrir sveitirnar og ég varð fulltrúi Guðmundar Böðvarssonar, yfirmanns verkstæða og bílaútgerðar kaupfélagsins. Ég var þarna þar til ársins 1958, þá réð ég mig til Skeljungs og flutti í framhaldi af því til Reykjavíkur.

Þá var ég orðinn fjölskyldumaður. Ég gifti mig 1957 Hönnu Sigríði Karlsdóttur frá Húsavík. Hún lærði tannsmíðar á Akureyri og fór að vinna sem tannsmiður á Selfossi 1955. Við kynntumst raunar ekki í tengslum við það, heldur á dansleik. Þannig var að 17. júní þetta ár var ég beðinn að leika Gunnar á Hlíðarenda í leikþætti á samkomu í Selfossbíói. Ég þurfti að vísu ekki að stökkva hæð mína í fullum herklæðum en fór þó á ballið eftir skemmtunina. Þar hitti ég þessa ungu stúlku og bauð henni upp í dans og síðan höfum við verið saman.

Við hófum búskap í húsi foreldra minna og þar fæddist okkur 1957 fyrsta barnið, sonur sem fékk nafnið Sveinn, síðar eignuðumst við dótturina Sólveigu og soninn Einar Magnús.

Ég fékk betra kaup í Skeljungi, þess vegna fórum við suður, ég fékk 15% hærri laun þar en hjá KÁ, ef ég man rétt. Konan mín vann ekki úti á þessum tíma, við höfum alltaf talið það mikið lán að hún skyldi hafa tækifæri til þess að vera heima hjá börnunum meðan þau voru að vaxa upp. Ég tel að það sé mikilvægt að börn finni fyrir návist foreldris þegar þau t.d. koma heim úr skólanum.

Ég var hins vegar oft lítið heima eftir þau tvö ár sem ég vann hjá Skeljungi.

Til starfa hjá Verzlunar- mannafélagi Reykjavíkur

Guðmundur Garðarsson var formaður VR á þessum tíma og hann bauð mér framkvæmdastjórastarf hjá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur 1960 og ég sló til, fjarvistir frá heimili voru stundum miklar í tengslum við samningagerð og félagsfundi.

Sverrir Hermannsson hafði gegnt starfinu á undan mér en hann hvarf frá VR til annarra starfa. Guðmundur hafði verið með stjórnmálanámskeið á Selfossi þar sem ég hafði verið og hann hafði auk þess gist hjá okkur Hönnu. Við vorum því kunningjar og höfðum verið í sambandi hvor við annan út af ýmsum félagsmálum.

Ég starfaði 42 ár hjá VR og það urðu miklar breytingar þar á þessum tíma. Ég var einn á skrifstofunni þegar ég hóf störf og það var t.d. fyrirbæri ef síminn hringdi á fyrstu árunum, en nú mælast um þúsund hringingar á dag inn á skrifstofunna frá félögum sem óska upplýsinga um og vilja njóta réttar síns og á skrifstofunni starfa milli 30 og 40 manns. Félagsmenn voru um 1.800 árið 1960 en það eru 30 þúsund á félagsskrá VR um þessar mundir.

Þegar ég kom til starfa hjá VR var fyrst og fremst verið að semja um laun og vinnutíma en síðan hefur verið samið um mál eins og atvinnuleysistryggingar, sjúkrasjóð, orlofssjóð, fræðslusjóð og fleira. Lífeyrissjóðurinn var kominn þegar ég hóf störf.

Margir telja að sá réttur sem félagsmenn VR njóta í dag sé sjálfsögð mannréttindi, en það þurfti sannarlega að berjast fyrir þeim á sínum tíma. Þessi réttindi komu ekki af sjálfu sér. Árið 1955 þurfti lægstlaunaða fólkið, verkakonur og verkamenn á höfuðborgarsvæðinu, að fórna sex vikna launum til þess að berjast fyrir stofnun atvinnuleysistryggingasjóðs. Verslunarmenn fengu ekki aðild að atvinnuleysistryggingasjóði fyrr en 1966. Verslunarmenn höfðu áður átt um að velja að eiga aðild að þeim sjóði eða stofna lífeyrissjóð og síðarnefndi kosturinn var valinn vegna þess m.a. að atvinnuleysi var þá nánast óþekkt í verslunarstétt. Síðar tók að gæta atvinnuleysis og þá sótti VR á um það að fá aðild að atvinnuleysistryggingasjóði en fékk þvert nei. Þessa aðild fengum við ekki fyrr en eftir að hafa farið í verkfall 1966 til þess að knýja það fram. Réttinn fengum við frá 1. janúar 1967.

Sjúkrasjóður og fyrsta verkfall VR

Sjúkrasjóður var tryggður með lögum 1974 en þá voru verslunarmenn skildir eftir. Af hverju? Af því að ákvæði í kjarasamningi verslunarmanna tryggðu launagreiðslur í heldur lengri tíma en hjá öðrum stéttum. Þá fannst mönnum þeir hafa næg réttindi að þessu leyti. Við vildum ekki una þessu og vildum fá sjúkrasjóð eins og aðrar stéttir, einkum til þess að geta lagt lið þeim sem áttu við langvarandi veikindi að stríða. Það var ekki fyrr en 1979 sem við fengum sjúkrasjóð. Þannig þurfti að berjast fyrir hverju og einu sem þessum réttindum viðvék.

Mér er ekki síst eftirminnilegt þegar VR fór í sitt fyrsta verkfall. Slíkt er neyðarréttur. Hann var nýttur 10. desember 1963. Þetta verkfall stóð í fjóra daga og við náðum fram þýðingarmiklum réttindum. Við tókum mikla áhættu vegna þess að það var ekki nærri allt verslunarfólk í félaginu. Laun verslunarfólks voru lág hvort sem það var í VR eða ekki. Hugur verslunarfólks var því með þessum aðgerðum til bættra kjara.

Samningarnir voru lagðir fyrir 13. desember í Sjálfstæðishúsinu gamla við Austurvöll og það var svo troðfullt að fólk stóð í hópum fyrir utan."

Kaflaskipti í samningaferli 1997

En skyldu kjör verslunarfólks í reynd hafa batnað þegar skoðaður er hinn langi afgreiðslutími verslana nú?

"Í áratugi stóð mikil barátta vegna afgreiðslutíma verslana eins og kunnugt er. Afgreiðslutíminn hefur áhrif á vinnutímann og þetta hefur verið mikið vandamál. Það var á hinn bóginn erfitt um vik því reglugerðin um afgreiðslutíma gilti ekki í nágrannasveitarfélögunum og þá fóru kaupmenn þar að hafa opið þegar lokað var í Reykjavík og fólk fór þangað að versla. Þetta gat ekki gengið - eitt varð yfir alla að ganga, þegar búið er að koma fólki upp á þjónustu er ekki auðvelt að afnema hana.

Aðalatriðið er þó að halda vinnutímanum í skefjum og að því höfum við unnið undanfarin ár. Þetta hefur verið erfitt því algengt var að fólk ynni á þriðja hundruð klukkustundir á mánuði í stað 170 tíma.

Árið 1997 urðu kaflaskipti í samningaferlinu. Við fórum út í að gera fyrirtækjasamninga og það hefur leitt til þess að eitt fyrirtæki, þar sem fólk vann áður 210 tíma á viku og fékk ákveðin laun fyrir, stytti vinnutímann um 40 tíma á viku fyrir sömu laun. Við komum meiri sveigjanleika á vinnutímann sem skilaði atvinnuveitandanum eins mikilli vinnu. Þetta varð líka til þess að umrætt fyrirtæki hélt starfsfólki sínu lengur en þá rúmu fimm mánuði sem því áður hélst almennt á fólki.

Ein breytingin sem orðið hefur er sú að fáir í dag geta hugsað sér að gera afgreiðslustörf að ævistarfi - að því ættu menn að huga. Það þarf að gera vinnutíma afgreiðslufólks þannig að við verði unað.

Samkeppnin er hins vegar orðin svo gríðarlega mikil að það verður ekki snúið til baka hvað afgreiðslutíma snertir."

Þýðing stéttarfélaga

Er þýðing stéttarfélaga sú sama nú og hún var á hinum miklu baráttutímum áður fyrr?

"Fólk væri berskjaldað og varnarlaust ef stéttarfélaga nyti ekki við. Við sjáum það þegar yfir ganga gjaldþrotahrinur t.d. að fólk er ekki vel sett ef það er ekki aðili að stéttarfélagi. Aldraðir hafa t.d. ekki stéttarfélag. Þeir fá laun eftir vissri vísitölu. Þeir kvarta nú yfir að hafa dregist verulega aftur úr miðað við aðra - þ.e. þá sem eru í stéttarfélögum. Stéttarfélagið sem slíkt er ómetanlegt aðhald að vinnumarkaðinum. Fleiri en færri vinnuveitendur taka mið af því og vilja hafa vinnumarkaðinn í góðu lagi.

Það þarf einnig að halda utan um það sem áunnist hefur. Það er allt annað að reka stéttarfélag í dag en það var á árum áður. Grundvallaratriði stéttarfélaga í dag er að höfða til félaganna og láta þá finna að þeir séu hluti af félaginu en að það sé ekki bara einhver fjarlæg "stofnun".

Við höfum reynt að höfða í auknum mæli til félagsmanna sjálfra, m.a. með breyttu samningsformi. Í áratugi hefur samningsformið verið þannig að tveir til þrír menn hafa sest niður við samningaborðið og komið sér þar saman um hvað fiskvinnslan í landinu þyldi af launahækkunum. Þegar fundið var út að fiskvinnslan þyldi kannski 2% launahækkun var settur punktur við þá tölu og hún var ávísun á allar launabreytingar í landinu það ár.

Árið 1979 voru 80% félagsmanna á launatöxtum VR. Síðan fóru vinnuveitendur að sjá að launataxtar voru svo lágir, vegna fyrrgreindrar ástæðu, að þeir fóru að bæta í og greiða fólki umfram launataxta. Núna árið 2000 voru aðeins 5% félagsmanna VR á launatöxtum. Laun hinna 95% voru þá ákveðin af vinnuveitendum einhliða. Við kröfðumst þess að launafólk hefði eitthvað um laun sín að segja. Við kröfðumst þess að samið yrði um að opinbera markaðslaunin, þau laun sem í raun eru greidd. Árið 1997 náðum við fyrsta skrefinu í þessum efnum og stigum það til fulls árið 2000. Nú eru gerðar launakannannir einu sinni á ári. Komið hefur í ljós að laun eru langt yfir því sem launataxtar segja til um. Einnig var samið um þá að hver launamaður fengi árlega viðtal við sinn yfirmann til þess að ræða laun sín og kjör m.a. Nú getur starfsmaðurinn metið sjálfan sig út frá launakönnunum og könnun sem gerð var fyrir stuttu sýndi að 40% félagsmanna VR hafa fengið þessi launaviðtöl og nærri 70% af þeim hafa fengið launahækkun í framhaldi af því.

Þetta er ný hugmyndafræði hjá okkur og hún er líka þýðingarmikil í þá veru að fá launafólkið sjálft inn í samningaferlið. Þetta skapar umræðu á vinnustöðum og heimilum. Við höfum haldið námskeið sem fleiri hundruð félagsmanna okkar hafa tekið þátt í til þess að búa þá undir umrædd launaviðtöl. Við styðjum við okkar fólk og gefum því upplýsingar. Samkvæmt könnun sem Gallup gerði í janúar árið 2000, áður en við fórum út í samningalotuna, höfðu 97% af félagsmönnum fylgst með því sem við vorum að gera og rúmlega 90% sögðust vera mjög sátt við okkar áherslur. Þetta sýnir að félagsmenn eru komnir inn í samningaferlið, sem er að mínu mati grundvallaratriði.

Viðurkenning Jafnréttisráðs kærkomin

Við höfum einnig lagt mikla áherslu á upplýsingagjöf og jafnréttisbaráttu. Það kom út úr launakönnunum að karlar voru á 18% hærri launum en konur miðað við sömu störf, sömu menntun og reynslu.

Í könnun sem gerð var í september sl. kom í ljós að þessi tala hafði lækkað niður í 16%, svo nokkurn árangur hefur starf okkar borið. Þetta er alltént vísbending um að við séum á réttri leið - en betur má ef duga skal. Það var mikill heiður fyrir okkur hjá VR þegar við fengum viðurkenningu Jafnréttisráðs á síðasta ári, þetta er einn mesti heiður sem stéttarfélagi er veittur af opinberum aðila og kærkomið, ekki aðeins okkur hjá VR heldur öllum vinnumarkaðinum sem slíkum."

Öldruðum fjölgar - getur verið að það verði eitt baráttumála stéttarfélaga í framtíðinni að fólk fái að hætta að vinna síðar en nú er?

"Það hefur verið baráttumál lengi að fólk fái að hætta fyrr að vinna. Ég held að það sé ekki rétt stefna. Fólk eldist misjafnlega og þótt aldur sé orðinn nokkur getur það verið í fullu fjöri. Eldra fólk býr yfir mikilli þekkingu og reynslu og ef það er vel á sig komið skilar það yfirleitt mjög góðu starfi. Það fylgir því mikill kostnaður að allir hætti að vinna og skila arði 67 ára gamlir eða í síðasta lagi 70 ára. Lífaldur manna lengist, þannig að kostnaður frá þessum aldursmörkum eykst stöðugt. Athyglisvert er að erlendis eru menn í valda- og stjórnunarstöðum jafnvel langt yfir sjötugt. Ég held að við ættum að opna á að starfslok séu ekki bundin við ákveðinn aldur heldur séu þau sveigjanleg og samkomulagsatriði milli starfsmanna og yfirmanna í fyrirtækjum, þ.e. ef heilsa manna leyfir slíkt. Ég held að þetta væri fyrirtækjum í hag. Faðir minn var fullvinnandi kominn á níræðisaldur og ég veit að það var honum mikils virði. Á hinn bóginn er ágætt að fólk geri sér grein fyrir að það getur átt góðar stundir þótt það sé ekki öllum stundum að vinna."

Hvernig sættir Magnús sig við að hverfa af vettvangi þessarar baráttu sem greinilega hefur átt hug hans allan um langa hríð?

"Þetta eru mikil kaflaskipti. Ég hafði þó búið mig undir þetta í tvö ár, en auðvitað eru umskiptin mikil. Ég var í fullu starfi fram að því að ég hætti á aðalfundi 25. mars sl. og mér var sýndur sá heiður af stjórn félagsins hinn 14. júní í sumar að tilnefna mig sem heiðursfélaga VR fyrir "mikið og gott starf í þágu félagsins", eins og segir í heiðursskjalinu. Ég er sáttur við þessa breytingu, ég nýt þess að hafa ekki lengur þá ábyrgð á mér sem fylgir því að vera formaður í svona stóru stéttarfélagi. Það er léttir að vera laus. Ég segi stundum í gríni að ég sofni nú áhyggjulaus á kvöldin og vakni kærulaus."

gudrung@mbl.is