Kristinn synti nær alla leiðina á skriðsundi en flestir sjósundmenn synda bringusund.
Kristinn synti nær alla leiðina á skriðsundi en flestir sjósundmenn synda bringusund.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjósund hefur verið stundað við Ísland að minnsta kosti frá því Grettir Ásmundarson synti úr Drangey til að sækja eld. Guðjón Guðmundsson fylgdist með fremsta sjósundmanni landsins um þessar mundir, Kristni Magnússyni, synda yfir Þingvallavatn, en hann hefur tvisvar þreytt Grettissund.

Í UPPHAFI upplifði ég sama sársauka í köldum sjónum og flestir aðrir. Þeir sem ætla að stunda sjósund verða að læra að höndla kuldann. Með endurtekningu er hægt að þjálfa upp þolið og stytta stöðugt þann tíma sem kuldinn herjar á. Í Þingvallavatni fann ég ekki fyrir kulda. Ekki heldur þegar ég synti út í Drangey. Í mínum huga er kuldi líka bara spurning um hugarástand. Þegar ég leggst til sunds er ekki til neitt í huga mér sem heitir kuldi. En í sundinu sjálfu upplifi ég kulda einhvern tíma á leiðinni sem síðan hverfur aftur ef ég eyk hraðann."

Sá sem svo mælir er Kristinn Magnússon sjósundmaður og fyrrverandi landsliðsmaður í sundi úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Í sumar hefur hann þreytt hvert langsundið á fætur öðru. Hann byrjaði á Viðeyjar- og Engeyjarsundi og síðan tók við sund yfir Hvalfjörð og í Drangey í annað sinn á ferlinum. Kristinn, sem er 35 ára, er talinn eiga mörg góð ár eftir sem sjósundmaður, og gæti farið að ógna ókrýndum konungi sjósundsins á Íslandi, Eyjólfi Jónssyni lögreglumanni.

Á miðvikudagskvöld synti Kristinn yfir 8 gráða heitt Þingvallavatn, alls 4,5 kílómetra, og er annar maðurinn í sögunni til að gera það. Í fyrra synti æskufélagi Kristins, Fylkir Sævarsson, sama sund.

Kristinn, sem starfar sem sjúkraþjálfari, þekkir vel inn á líkamann og líkamsstarfsemi og stundar sitt sjósund með vísindalegri nákvæmni. Hann syndir heldur aldrei án fylgdar og hefur tekist samstarf með honum og Björgunarsveit Hafnarfjarðar sem fylgir honum hvert sundtak.

Blaðamanni leikur hugur á að vita hvers vegna menn eru að synda í sjónum?

"Sumir ganga á fjöll og aðrir synda. Sjósund er ákveðin ögrun og um leið ánægja. Maður segir líka eftir hvert sund að þetta geri maður ekki aftur. Sjósund reynir mikið á mann andlega. Ég syndi líka til þess að sigrast á mótlæti. Á vissum sviðum hef ég orðið fyrir mótlæti í lífinu en aldrei gefist upp. Mótlæti herðir mig og kennir mér að gefast ekki upp."

Framundan er svo stóra prófraunin. Upp úr miðjum mánuði ætlar Kristinn að synda frá Vestmannaeyjum að fastalandi, alls um 11-12 km leið í miklum straumi. Tveir aðrir menn hafa synt þá leið, þeir Eyjólfur Jónsson og Axel Kvaran.

Kristinn segir að Vestmannaeyjasundinu fylgi líklega meiri andleg átök en líkamleg. Það er um flest ólíkt öðru sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Hann syndir til að mynda í fyrsta sinn í búningi og verður auk þess að synda hægar en honum er tamt vegna þess hve vegalengdin er mikil. "Um leið verð ég að hlífa mér fyrir kulda og þar kemur til kasta búningsins. Þetta sund verður miklu tæknilegra en önnur og það ríður líka á að gera rétta áætlun," segir Kristinn.

gugu@mbl.is