Rík ljósmynd af litum og lífi á bakhlið Loftmyndar (1987) til mótvægis við gráleita framhlið af Reykjavík.
Rík ljósmynd af litum og lífi á bakhlið Loftmyndar (1987) til mótvægis við gráleita framhlið af Reykjavík.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hljóðverk Megasar hafa haft áhrif í þrjá áratugi, þó eru áhrifin óneitanlega háð fæðingarári hlustandans. Megas er fæddur í Reykjavík en Gunnar Hersveinn er fæddur of seint. Hann rekur samt samband sitt við tónlistina og við borgina; Reykjavíkurnætur í denn.

Tíminn inní mér silast áfram, þótt allt sé á ótrúlegu spani, stundum svo hægt að ég er lengi að átta mig; ég er því bara fremur tuskulegur hlustandi laga og ljóða Megasar. Fyrst heyrði ég Um óheppilega fundvísi Ingólfs Arnarssonar (Megas, 1972) hjá kunningja á síðkvöldi. Vissulega fannst mér óskin um að skipið hans hefði sokkið undarleg, en það var ekki það sem greiptist í minni mitt heldur orðin "mér er það hulið", og hvernig þau hljómuðu. Svo notaði ég þau síðar á réttum stundum.

Ég hlustaði áfram og setningin "Því þótt þú gleymir guði / þá gleymir guð ekki þér" fylgdi mér áfram. Þetta var það fyrsta, en ég er svo óþægilega ungur að þetta var ekki fyrir nema tuttugu árum. Svo lengi var tíminn að koma mér í heiminn, að það skeði alltof seint fyrir músíksmekkinn minn, þannig missti ég einnig af fyrstu afrekum Bob Dylans, svo ég minnist ekki á . . .

Best er sennilega að vera heltekinn af músíkstefnu tíu ára gamall og helst á meðan hún gerir usla í samfélaginu; Elvis, Bítlarnir, Stones, Dylan, Megas, Sex Pistols. Að vísu var Megas á skjön og gat ekki fylgt fyrstu plötunni sinni eftir, því útgefendur sögðu allir, hver einasti á landinu, í einum kór: Nei. Eitthvað var bogið við þetta, eitthvað á skjön við annað þótt erfitt væri að segja nákvæmlega hvað það var, og því öruggast að segja nei. Millilending kom því ekki út fyrr en 1975. Megas heldur að jafnvel myndin á framhlið fyrstu plötunnar hafi fælt frá; höfundinn fyrir framan alræmt pisshús og griðastað dópista.

Ég heyrði í húsi Á bleikum náttkjólum (1977) spilaða á fóni, og ég frétti af Drögum af sjálfsmorði (1979) og smælinu framan í heiminn, en lagði ekki alvarlega við hlustir fyrr en Megas kom úr löngu fríi árið 1986 með plötunni Í góðri trú, síðan þá hef ég óreglulega spáð í hann, og meira að segja einu sinni spjallað við hann á Hótel Borg.

LÚGUMENNING BORGARINNAR

Í vikunni komu út þrír fallega hannaðir diskar; Megas, Millilending og Loftmynd (1987) og von er á átta til viðbótar áður en árið er liðið. Loftmynd er mestmegnis um Reykjavík æsku hans, borg sem ég þekki ekki, því eftir síðbúna fæðingu mína 1960 var víst allt önnur og dapurlegri stemmning sem ríkti í henni. Áður var rúnturinn í blóma og hægt að dvelja inni í sjoppum á síðkvöldum, en rétt upp úr 1960 var ákveðið að skipta um andrúmsloft í miðbænum. Ég ólst upp við lúgumenninguna; að húka utandyra við götin í kulda og trekki. Það mátti víst ekki, eftir reglugerðum að dæma, afgreiða á kvöldin nema gegnum lúgu. Reykjavík er öðruvísi frá stríðslokum til 1960 eða þangað til tíminn sem kenndur er við Viðreisnarstjórn rann upp, "en þá var Reykjavík lögð í rúst í einu vetfangi, og miðbærinn var dauður í mjög langan tíma," segir Megas.

Megas segir að Loftmynd sé eina platan hans sem hafi komist í jólapakkana. Ég fékk hana frá kærustunni og svo hlustuðum við á hana lon og don, meðal annars á afar dularfulla ástarsögu um svo mikla afbrýðisemi að elskhuginn fann ekkert annað ráð en að grafa elskunni sinni gröf rétt fyrir utan Reykjavík, við Rauðhóla, og leggja hana þar; "í gröfinni atarna sem ég gróf í nótt verður gott að fá sér blund."

ANDATRÚIN Í TAÍLANDI

Umslagið var nokkuð í samræmi við innihaldið; framhliðin sýnir grátleita eyðilega borg í kringum tjörnina, og bakhliðin vísar í lokalagið um Fílahirðinn frá Súrín. Þar er liturinn og hitinn kominn inn í dæmið. Ljósmyndin sýnir hóp af fallegum Taílendingum og dularfullan búddamúnk með sólgleraugu. Megas situr með þeim og leggur hönd yfir arm drengs. Síðar frétti ég að margir hefðu ekki séð þessa mynd fyrir hendinni, því þeim tókst að lesa einhver ósögð skilaboð með þessari handaryfirlagningu. Undarlegt hvað lítið þarf að gera og jafnvel óvart til að koma öðrum úr jafnvægi; skörð komi í múrinn.

Á fagmáli kallast framhliðin og bakhliðin aðeins kontrast. Það er margt í mörgu; ef til vill merkir þetta endurfæðingu borgarinnar eða borgarbúans; úr svarthvítu í litadýrð, úr botnmynd í loftmynd. Einnig geta Reykvíkingar átt sitthvað sameiginlegt með borgarbúum í Taílandi eins og til dæmis að fara í andaglas, en þar lenda þeir þráfaldlega í því að fá verulega illan anda í glasið, sem hleypur svo í einn viðstaddan og þá er voðinn vís. Enda má efast um að góðir andar hafi áhuga á því að vera í glösum.

Andar í Taílandi eru víst líkir þeim álfum sem hér búa og stunda það að gerast umskiptingar. Því sé það trix notað að kalla ung börn ljótum nöfnum eða skammaryrðum. Drengurinn á myndinni á Loftmynd var t.d. kallaður Svín. Andar eru nefnilega auðtrúa, og ef þeir heyra að barn er kallað Svín gera þeir ekki ráð fyrir að það sé sætt í framan.

ENGINN VEGUR FÆR

Fílahirðirinn frá Súrín er fallegt ástarlag; "mér fannst stundum einsog þú jafnvel elskaðir mig svolítið /en allavega gafstu það sem þú áttir." Og þótt það gerist í framandi landi velur ljóðmælandinn sér líkingu úr Reykjavík til að lýsa tilfinningum sínum; "og ég brosi á móti og það lifnaði kanski líka í augunum á þér bros/ og ég ljóma eins og jólatréð á Austurvelli." Ef til vill var Óslóartréð það litskrúðugasta sem fannst í borginni? Á nýja disknum enda hlustendur aftur í grámanum í Reykjavík, því aukalagið er hrá frumútgáfa af Reykjavíkurnóttum.

Óneitanlega er Reykjavík dálítið eyðileg á plötunni, og söguhetjurnar í textunum rolast stundum einar í bænum, hvort sem það er verslunarmannahelgi eða ekki. En þrátt fyrir það getur verið snúið að komast út úr þessari einkennilegu borg; "því þú leitar eftir einhverju sem hopar/ undan þegar færir þú þig nær/ og hverfur loks alveg en út úr þessari borg/ er enginn vegur fær." Þessi texti Enginn vegur fær, komst ekki á plötuna árið 1987, en var á disknum sem þá kom út, og hann er einnig á nýju útgáfunni.

Mér finnst Enginn vegur fær vera einskonar miðja verksins. Það er eina lagið þar sem ekki hægt er að nema hjóðfærin heldur aðeins digitalseraða syntamottu, "tónarnir eru bara 0 og 1, eins og miðborg Reykjavíkur, 101, digital dántán," segir Megas. Það er eins og þeir sem fari inn í borgina finni enga færa vegi út úr henni en; "til borgarinnar liggja ótal leiðir/ og loks verður fyrir mannlaust torg/ en allt sem auga kemurðu á er hverfult/ hún er kannske ekki til þessi borg." Efast er um tilurð borgarinnar og loks jafnvel efast um að söguhetjan sé til: "þú ætlar að tala ögn við þig sjálfan/ allt er þegar kannað/ þú tekur á þig rögg en ræðan stirðnar/ þú reynist sjálfur tálsýn einsog annað." "Það getur samt svo margt verið í auðum borgum," segir Megas.

Borgin í Enginn vegur fær er tóm og (d)auð. Ég velti fyrir mér hvort Megas telji bölsýni holla, hann er aftur ekki á því að greina megi bölsýni í textunum, fremur segir hann bölsýni vera realisma eða raunsæi. Þeir sem ekki syngi í hamingjukórnum um að allt sé gott og það versta alltaf langbest, séu bara sagðir bölsýnir. Þeir sem trúa ekki íslenskum sjónvarpsfréttum um "vellukkaðar loftárásir bandaríska hersins, alveg frábærlega lukkaðar", eru sennilega bölsýnir, og líka ef þeir trúa að "utanríkispólitík Íslendinga hafi farið til Bandaríkjanna 11. september sl." Ef til vill eru þeir sem ekki taka þátt í Pollýönnuleiknum, ekki nauðsynlega bölsýnir. Þótt þjóðarsátt ríki um hamingjuna, getur hún verið tálsýn.

AF ALGRIMMASTA TAGI

Það undarlega við Loftmynd er að lokalagið og litmyndin af Taílendingunum gefa henni óvænta dýpt; þar birtist borgin úr fjarlægð, úr lofti. En hönd Megasar, sem varð til þess að margir sáu ekki myndina, varð svo sennlega upphafið að ónáð hans. Hún var túlkuð sem ögrun af algrimmasta tagi. "Síðan kom þessi saklausa djassplata, innihaldandi þetta skelfilega lag," segir hann, eða Bláir draumar og lagið Litlir sætir strákar. Hugmyndin að strákunum er naglasúpa setninga, og upphafið setningin "Litlir strákar fara aldrei á túr", og önnur sögð á réttu augnabliki: "Hvers vegna færðu þér þá ekki bara lítinn sætan strák?" Síðar samdi hann texta sem byrjar svona: "Ég dirfist ekki um stelpur meir/ við stelpurnar að þrátta/ þær eru töfrandi á aldrinum/ frá tólf og niðrí átta/ en ef þú ert að pæla í/ hvað það er sem koma skal/ litlir sætir strákar eru langtum betra val."

Lög Megasar af Bláum draumum eru meðal þess sem verður endurútgefið á árinu. Fyrst ætlaði hann að gefa Litla sæta stráka út aðeins handa vinum sínum, en ákvað svo að deila þeim með þjóðinni. Gjöfinni var ekki tekið sérlega vel. Hann gat ekki ímyndað sér þessi viðbrögð, því textinn er grínkenndur, yfirdrifinn og jafnvel undirdrifinn. Ég keypti plötuna, en var svo vitlaus að taka ekki eftir dónaskapnum, og frétti það ekki fyrr en síðastur að textinn væri hneyksli. Mér fannst bara flott tilvísunin í fornaldarheimspekingana í Aþenu; "en spáirðu bara í dæmi/ gömlu spekinganna sést/ að litlir sætir strákar/ hafa löngum reynst best."

BARA SLÉTT SMÁN

Ég treysti mér ekki til að spá í hvað Megas var nákvæmlega að pæla með þessum texta, ef til vill var þetta bara til að gera grín að foreldrum eða elskhugum. Ég held að þessi oftúlkun á Litlum sætum strákum hafi valdið því að platan Þrír blóðdropar fór fyrir ofan garð og neðan hjá þjóðinni, en það er ein af uppáhaldsplötunum mínum. Þar á meðal laga er Kvöld í Atlavík sem er skýrt varúðarlag um hvað geti gerst fyrir ungar dömur um verslunarmannahelgar; "það skyldi engin dama/ sem ekki er bara sama/ um allt taka séns af því tagi/ því þessir drengir yfirleitt/ þeir hugsa aðeins um eitt/ og þeim finnst öll meðul barasta í lagi/ hún var þæg hún var þýð hún var þrettán/ er því lauk varð hún leið hún varð létt dán/ hún var þögul og þunglynd og þrettán/ henni fannst þetta í rauninni/ í rauninni rétt bara slétt smán."

Þetta er alvarleg ábending til foreldra um að senda ekki saklausar dætur sínar einar út í þessar köldu nætur verslunarmannahelga. Umslag Þriggja blóðdropa sýnir blóðdropa Fásts í skráargatinu, eftir að djöfullinn hafði sogið hann út um það, og hinsvegar fræðimanninn á bakhliðinni. "Platan leggur þó aðallega áherslu á sensúal hluta ævi Fásts," segir Megas. Inní eru textarnir og myndir af ungum brosmildum stúlkum. Ef til vill þarf að grípa til hugtaks úr feminisma til skýra sinnuleysið gagnvart þessu verki: Þöggun, og setja fram þá kenningu að eins og konur fyrri alda hafa tíðum verið þaggaðar af körlum, hafi þetta verk Megasar verið þaggað af konum. Ég held að þær hafði talið að höfundurinn væri að hæðast og leika sér að ungum stúlkum. "Stalínískur fasismi," segir Megas. Þrír blóðdropar verða sennilega að bíða lengur, og verða ekki í jólapakkanum.

GANGSTERAR, RÁÐSTERAR

Ég get verið súr út í samtíð mína með viðbrögðin við fílahirðinum, litlum sætum strákum og þremur blóðdropum, en mér ferst sennilega ekki að hneykslast svona löngu síðar yfir viðbrögðunum yfir fyrstu verkunum, þar sem ég var þá bara aðeins lítill strákur.

En maður heyrði samt alltaf sögur og frétti að eftirlitsmenn í Ríkisútvarpinu hafi rispað lög á plötum með nagla sem ekki mátti spila fyrir alþjóð. Megas fékk að vita að öll lögin á fyrstu plötunni hafi orðið útskúfun að bráð svo hvíla mátti naglann. "Hún naut þess framyfir aðrar plötur sem innihéldu að mati tónlistarráðs útvarpsins - alvörusnauða og ósæmilega umgengni við þá tónlistargyðju sem ráðsterar ætluðu sína og eina, svo beita þyrfti hinum goðsagnakennda nagla til nema burt illsku fáviskunnar. Hún var bönnuð in toto," segir hann. Síðar var plötunni laumað inn, þannig að bannið var aldrei fyllilega aktúelt. "Það er ekkert, það er hálfkæringur . . . á plötunni," segir hann.

Vertu mér samferða inní blómalandið amma, er um einhvern krist og í því má finna nokkuð sjúka hugmynd í síðasta erindi; "og silliogvaldi þeir segjast hafa legið sæla maríu áður en guð kom til. "Silliogvaldi" er tákn yfir auðvaldið í textanum, og því er sá kristur sem sungið er um, afkvæmi þess, en ekki guðs. Þannig að ef til vill er tilgátan í textinn: "Ef kristur væri sonur auðvaldsins, hvernig væri þá um að litast?" Ég er þó ekki viss, kannski.

Nú er platan útgefin aftur og með nokkrum fleiri "hættulegum" lögum eins og Ávarpi til fjallkonunnar, sem var einskonar 17. júní pæling hans frá 1968 í breyttu Bólu-Hjálmarsformi; "þú lagðist fyrrum gleið á grund/ undir gíruga mangara feita og danska/ og mök við tyrkja heiðinn hund/ hafðirðu og sjómenn enska og franska." Þetta var dæmi um efni sem Megas spilaði á hljómleikum, en kom ekki til álita á hljómplötum sökum grófleika; "Á glámbekk liggur grettistakið mitt/ og gerir hitt" (Þórarinn Eldjárn).

Svo virðist sem menn, jafnvel aðrir tónlistarmenn, hafi móðgast fyrir hönd þjóðararfsins, þótt þeir þekktu hann ef til vill ekki svo gjörla. Helgimyndin af Jónasi skekktist í ljóði Megasar; "sauðdrukkinn útí hrauni lá hallgrímsson jónas." Og síðar; "gættu þín mamma maðurinn hann er með sýfílis." Helgimyndin var víst búin til um 1900 en heimildir eru til um að samtímamenn Jónasar hafi ekki vílað fyrir sér að nefna sjúkdóm skáldsins, enda ekki svo óalgengur á þeim tíma. Allt er þetta þó umdeilt, og ef til vill ljótt að segja eða taka undir. Hvar er aðgátin?

PÆLT Í SLANGRI

Tíðarandinn er vissulega breyttur, og textar Megasar virka stundum saklausir í samanburði við texta unglingasveitarinnar XXX Rotweilerhundar; "þú ert mín skilgreining á hommatitt og ég er ekki að djóka í þér/ ég sá pabba þinn benda á rassinn á þér og segja "I've been there". En hvað var það þá sem ögraði? Þetta að berast ekki með straumnum, þetta óvænta sjónarhorn sem var þrátt fyrir allt byggt á þekkingu, og erfitt reyndist að rökræða, og því voru óbeinu bönnin það eina sem grípandi var í. Var það raunsæi höfundar?

Í bókinni Megas (Mál og menning, 2001) segir Trausti Jónsson; "Út í Noregi kvartaði Magnús mikið undan því hvað íslenskan væri fátæk af slangri. Hann sagðist beinlínis ætla að standa skipulega að því að auka slangur og líkur á því að það festist; væru það orð sem féllu að beygingarkerfinu." Á nýju útgáfunni er að finna lagið Pælaðu í því (sem pælandi er í), og er það ef til vill gott dæmi um þetta. Sögnin að pæla var vissulega til en hafði ekki verið notuð sem þessi klisja áður; að pæla í einhverju. Og það festist, þótt Megas hafi notað það fyrst eins og börnin sem byrja á því að hafa allar sagnir veikar; pælaðu í fremur en pældu í. Sama ljóð inniheldur einnig orðið fattarðu, sem enn er barist gegn. Megas bendir hins vegar á að það sé sitthvað að fatta og að skilja, eins og það er ekki nákvæmlega sama athöfnin að smæla framan í heiminn og að brosa framan í hann. Íslenskan er óhemju dönskuskotin, og innflutt orð geta dýpkað hana (falli þau að beygingarkerfinu). Megas samdi Pælaðu í því þegar hann bjó í Skerjarfirði og þurfti að fara flugvallarkrókinn í leiðindaveðri að vetrarlagi; "vallarkrókinn á leiðinni loksins heim." Það er tilbrigði við Spáðu í mig.

"Ég held að það séu fáar undantekningar frá því að slíkt slangur finni sér stað í tungumálinu," segir Megas, "automobile verður bíll, og svo hafa menn spariorðið bifreið, upprunalega sjálfrennireið." Slangur og aðrar nýjungar enda alltaf innan lögmálatungumálsins, það er útvíkkun tungumálsins í staðinn fyrir innmægðir tungunnar. "Ég veit ekki hvað krítikerar sögðu í gamla daga þegar Egill kom með endarímið frá Bítlunum. Maður getur hugsað sér eitthvert ramakvein; hvern djöfulinn þetta eigi að þýða þegar þetta eigi samkvæmt réttum lögmálum að vera í miðjunni!"

Náttúrulýsingar Megasar á þessari fyrstu plötu voru einnig fremur óhefðbundnar; "finnst þér ekki esjan vera sjúkleg/ og akrafjallið geðbilað að sjá" (Spáðu í mig). Og eflaust farið fyrir brjóstið á einhverjum fyrir hönd þessara fjalla. Aðrir móðguðust fyrir hönd kaupmanna eða hugtaksins "silliogvaldi", án þess að hafa hugmynd um hvort Silli eða Valdi hafi nokkuð myndað sér skoðun á þessu, enda var "silliogvaldi" vörumerki, en ekki persónur. Í mínu hverfi létu þessir kaupmenn reisa Glæsibæ í Álfheimum.

GUÐ ER GÁTA

Millilending er þriðja platan/diskurinn sem kom út í vikunni. Hún fór einnig að mestu framhjá mér, þótt ég hafi verið orðinn fimmtán og skömm sé frá að segja. Síðar hefur hljómurinn á henni heillað mig, eins og hljómurinn á John Wesley Harding (Dylan, 1967).

Á þessum tíma var Megas byrjaður að semja lög við passíusálmana, og á meðal aukalaga á Millilendingu eru lög við texta Steins Steinarrs, Passíusálmur #51 og Karls Ísfelds, Passíusálmur #52. Það er nokkuð skondið að hlusta á þá hvorn á eftir öðrum, því í öðrum er kristur krossfestur og í hinum er stúlka með filmbros á vör sem; "segir við mig/ hvernig fer maðurinn að því að halda buxunum uppi um sig?"

Lokalagið á þessari nýju Millilendingu er við texta eftir Matthías Jochumsson, Bjargið alda; "þegar æviþrautin dvín/ þegar lokast augu mín/ þegar ég við sælli sól/ sé þinn dóms og veldisstól/ bjargið alda borgin mín/ byrg mig þá í skjóli þín." Hann tíðkast nú sem útfararsálmur, sem Megasi finnst ekkert eiga skylt við lútherskuna. "Það er þessi ótrúlega fjarlægi guð, sem er enganveginn ínáanlegur," segir hann.

Eftir stendur guð sem gáta. Þetta er allt viðeigandi viðauki, því á Millilendingu eru dauðaleg lög, kveðjusöngvar og sennilega það síðasta; "hvað koma mér hrakfallsspár við?/ og henti mér útí og synti minn veg."

"Ég hef farið víða ég hef verið hér og þar/ og ég veit að við öllum þessum spurningum er til eittogannað loðið svar." Megas býst ekki við að diskarnir turni nokkurri sál núna, samt held ég að eitthvað mikilvægt geti gerst með hlýðendum, jafnvel þótt þeir fæðist of seint eins og ég. Allavega eitthvað svolítið, og það lifni kannski í augunum bros - eða ekki.