C3 er á fremur hagstæðu verði miðað við búnað.
C3 er á fremur hagstæðu verði miðað við búnað.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
CITROËN hefur hafið mikið endurnýjunarferli á framleiðslulínu sinni.

CITROËN hefur hafið mikið endurnýjunarferli á framleiðslulínu sinni. Nýlega kom á markað stóri millistærðarbíllinn C5, sem keppir á sama markaði og VW Passat og Ford Mondeo, og um þessa helgi frumkynnir Brimborg, umboðsaðili Citroën, nýjan smábíl sem heitir einfaldlega C3. Bílnum var fyrst reynsluekið í Frakklandi síðastliðið vor og þar kynntist undirritaður fyrst nýstárlegu útliti og hreint ágætum aksturseiginleikum þessa skemmtilega smábíls. Á dögunum var bílnum síðan reynsluekið á grófgerðari íslenskum vegum og nú með 1,4 lítra bensínvélinni.

Hábyggður

Það sem vekur strax athygli við hönnun C3 er hversu hábyggður bíllinn er. Þetta er í takt við nýja strauma í smábílahönnun þar sem áhersla er lögð á sem mest innanrými í sem minnstum bíl. Það er fyrir vikið afar þægilegt að umgangast bílinn og gott að setjast inn í hann og stíga út úr honum. Lofthæðin er alls staðar mikil og þess vegna er unnt að hafa sætastöðuna hærri en vant er í smábílum. Ökumannssætið er þar fyrir utan með hæðarstillingu.

Þótt C3 sé smábíll í öllum skilningi þess orðs rúmar hann ágætlega fjóra fullorðna og farangursrýmið er með fölskum botni og rúmar meira en mann grunar í fyrstu.

Bjartur að innan

Bíllinn er afar bjartur að innan. Rúður eru stórar og veita mikilli birtu inn í bílinn auk þess sem þær gefa ökumanni góða yfirsýn yfir veginn. Þó skyggja þykkir a-hurðapóstar nokkuð á útsýn úr ökumannssætinu. Mælaborðið er nýstárlegt og mælarnir sérviskulegir og í anda Citroën. Hraðamælirinn er stafrænn og snúningshraðamælirinn er hálfhringlaga kvarði þar fyrir ofan. Smekklegt en því miður venst illa að lesa af snúningshraðamælinum.

Tvö hanskahólf og skúffa undir fremra farþegasæti geyma lausamunina og armhvílur eru staðalbúnaður í framsætum.

Stíllinn og útlitið er nútímalegt og glæsilegt en efnisvalið veldur á hinn bóginn vonbrigðum. Þrátt fyrir laglegt útlit verður ljóst um leið og farið er að þreifa á hlutunum að flest allt er mótað úr veigalitlu plasti og sums staðar er frágangurinn heldur ekki upp á það besta.

Rafstýri

En nóg um það því C3 er uppfullur af góðum kostum sem fara langt með að vega upp þessa annmarka. Bíllinn er með rafstýrðu vökvastýri og er afar léttur í stýri í borgarumferðinni, sem er eftirsóknarverður kostur þegar leggja þarf í þröng stæði og koma sér áfram í þungri umferð. Stýrið þyngist síðan með auknum hraða. Rafmagnsstýrið hefur líka þann kost að draga úr eldsneytisnotkuninni.

Vélin skilar 75 hestöflum að hámarki við 5.400 snúninga. Þetta er spræk vél sem hentar vel í borgarakstri og skilar líka sínu í þjóðvegaakstri. Upptakið er ekkert sérstakt, eða heilar 14,2 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km hraða. Fjöðrunin er fremur stillt fyrir þægindi en stífleika til að ná hámarksgripi og bíllinn er því þægilegur í langkeyrslu. Bíllinn var prófaður með fimm gíra handskiptum gírkassa sem er bæði lipur og ratvís og snyrtilegur og um leið einfaldur frágangur í kringum gírstöngina vekur athygli. C3 er líka fáanlegur með sjálfskiptingu.

Hagstætt verð

C3 fyllir hóp nýrra smábíla sem nýlega hafa verið kynntir til sögunnar. Þar má nefna nýjan VW Polo, Opel Corsa, Ford Fiesta og innan tíðar koma á markað enn nýir bílar í þessum flokki, s.s. Hyundai Getz og Nissan Micra. Citroën getur borið höfuðið hátt í flestum samanburði því fyrirtækinu hefur tekist að smíða bíl sem vekur athygli jafnt fyrir formfegurð og mikið notagildi. Bíllinn er líka á hagstæðu verði með tilliti til keppinautanna og búnaðar. Með 1,4 l vélinni í SX-gerð kostar hann 1.389.000 kr. og 1.509.000 kr. sjálfskiptur. Staðalbúnaður er m.a. ABS hemlar með EBD-hemlajöfnun og EBA-neyðarhemlunarbúnaði, geislaspilari, fjórir öryggispúðar, fimm þriggja punkta öryggisbelti og hnakkapúðar, fjarstýrð samlæsing og rafstýrðar framrúður ásamt regnskynjara í framrúðu.

gugu@mbl.is