Þótt spænsk vín hafi lengi verið í uppáhaldi hjá Íslendingum verður að viðurkennast að neysla okkar hefur aðallega verið bundin við örfá víngerðarsvæði.

Þótt spænsk vín hafi lengi verið í uppáhaldi hjá Íslendingum verður að viðurkennast að neysla okkar hefur aðallega verið bundin við örfá víngerðarsvæði. Vín frá Pénedes og Rioja hafa verið fyrirferðarmikil, sem er í sjálfu sér ekki slæmt, enda um tvö af bestu vínræktarsvæðum Spánar að ræða. Vín frá Navarra á norðurhluta Spánar hafa nokkrum sinnum sést hér og nú er í reynslusölu vínið Las Campanas frá Bodegas Vinicola de Navarro. Þetta vín, líkt og svo mörg spænsk rauðvín, er framleitt úr þrúgunni Tempranillo (80%) þótt einnig séu þrúgurnar Cabernet Sauvignon og Graciano notaðar í blönduna.

Las Campanas Crianza 1998 er farið að eldast aðeins í litnum, rauði liturinn farinn að þróasat út í brúnt. Á móti manni tekur strax þykk angan af amerískri eik, kaffi og dökk ber, soðin og allt að því sultukennd. Jafnvel má þarna finna rabarbara. Vínið hefur nokkuð þétt bragð en skortir helst sýru til að gefa því meira líf. Þetta er einfalt matarvín, hentar með ostum og rauðu kjöti. Þokkaleg kaup á 1.090 krónur.

Atlas Peak

Piero Antinori markgreifi, sem kom til Íslands í júnímánuði, er langþekktasti vínmaður Ítalíu. Antinori hefur smám saman fært út kvíarnar og tengist nú vínrækt í fleiri löndum en Ítalíu. Árið 1987 stofnaði hann víngerðina Atlas Peak í Napa-dalnum í Kaliforníu ásamt Allied-Domecq. Tvö vín frá Atlas Peak eru fáanleg á sérlista.

Atlas Peak Napa Chardonnay 1999 er glæsilegt vín. Mikil eik og hitabeltisávöxtur í nefi, þroskaðir bananar, brennisteinn og smjör. Mjög þykkt og feitt í munni, þetta er svaka bolti, sem endist vel og lengi. Vissulega ekki ódýrt (Napa-vín eru það aldrei) á 2.590 krónur en vel þess virði.

Rauðvínið Atlas Peak Sangiovese 1999 er framleitt úr Sangiovese þrúgunni, sem er meginþrúga Toskana og uppistaða t.d. Chianti-vínanna. Stíll þessa víns er mjög frábrugðin hinum toskanska. Vínið er sætara og áfengara (tæp fjórtán), Ávöxturinn þykkari og þroskaðri. Sæt bláberjasulta er í fyrirrúmi og vínið mjög kryddað. Vínið hefur fína fyllingu en er ekki jafnþurrt, fókuserað og skarpt og bestu ítölsku Sangiovese-vínin.Það hefur stærð Napa-vínanna, er eins konar "ýktur Sangiovese", áferðin feit líkt og smjörkrem eða rjómi. Í dýrari kantinum á 2.190 krónur.

Planeta

Sikileyska fyrirtækið Planeta er einn þeirra ítölsku framleiðenda sem hvað mesta athygli hefur vakið á undanförnum árum. Planeta-fjölskyldan hefur náð að sameina vel hina gömlu vínræktarhefð Sikileyjar, þrúgur héraðsins og nútímatækni og strauma í víngerð. Vínin frá Planeta hafa verið fáanleg á sérlista í á annað ár en nú er eitt þeirra komið í reynslusölu. Rauðvínið Planeta La Segreta Rosso 2001 er framleitt úr sikileysku þrúgunni Nero di Avola (60%) auk frönsku þrúgnanna Syrah og Merlot. Þetta er heitt, áfengt (14%) og kryddað vín. Í nefi dökkur krækiberjasafi, og sólberjasafi. Sólberjasafinn verður meira áberandi í munni, vínið er þungt og þurrt með mjúkum tannínum. Suðrænt og flott vín. Mjög góð kaup á 1.350 krónur.