SÍÐAST þegar ég vissi mældist Norðurland frá Hrútafjarðarbotni í vestri til Langaness í austri og grunar mig að þeir sem þar búa teljist flestir Norðlendingar. Allt er þó breytingum háð.

SÍÐAST þegar ég vissi mældist Norðurland frá Hrútafjarðarbotni í vestri til Langaness í austri og grunar mig að þeir sem þar búa teljist flestir Norðlendingar. Allt er þó breytingum háð. Sveitarstjórinn á Akureyri og frú iðnaðarráðherra eru líka svo viss á því að Norðurland sé aðeins Eyjafjörður og þar með líka að Eyfirðingar einir séu Norðlendingar að mig hlýtur hreinlega að misminna - og hvaða vit ætli maður hafi svo sem á landafræði?

Tilefni þessa pistils er orðaleikur í Kastljósi Sjónvarpsins og öðrum fjölmiðlum milli áðurnefndra stjórnmálamanna sem telja að nú sé tími kominn fyrir stóriðju á Norðurlandi. Ómögulegt var að skilja orð þeirra á þann hátt að þetta ágæta fólk hefði t.d. Norðurland vestra í huga. Ég veit ekki til þess að þau hafi sýnt nágrönnum sínum í vestri nokkurn áhuga, hvorki í stóriðjumálum né öðrum málum sem til samstarfs má horfa í byggðamálum. Þó má þetta vera vitleysa hjá mér rétt eins og landafræðin, því hvað veit maður svo sem um stjórnmál?

Rétt eins og skurður skerst Eyjafjörður inn í mitt Norðurland og skiptir því í tvennt. Oft er uppgröftur á skurðarbökkum og sé myndlíkingunni haldið áfram má segja að þannig sé því farið með Eyjafjörð beggja vegna. Þar eru mikil fjöll og torleiði og með sanni hægt að segja að fjörðurinn frægi sé nokkuð afskekktur. Það tíðkast enda harla lítið að Skagfirðingar fari í kaupstað til Akureyrar. Þurfi þeir einhvers með utan Sauðárkróks, fara þeir einfaldlega til Reykjavíkur. Sama má segja með Húnvetninga, ef Skagaströnd, Blönduós og Hvammstangi duga ekki er greið leið til Reykjavíkur. Af þessu má sjá að Akureyri er því síður en svo höfuðstaður Norðurlands þó mörgum sé tamt að tuða á því.

Áðurnefndir bæir á Norðurlandi vestra tóku sig til í byrjun vors og gerðu markvissar tillögur í byggðamálum í stað þess að gagnrýna frumvarp iðnaðarráðherra til laga í sama málaflokki. Meðal annars var stungið upp á því að gerð væru jarðgöng undir Tröllaskaga sem tengdu saman byggðir á Norðurlandi vestra og Eyjafjörð. Gríðarleg samlegðaráhrif hljóta að verða til með góðum og greiðum samgöngum, nefna má í menntamálum, atvinnumálum, ferðamálum, menningarmálum og heilbrigðismálum jafnt í Eyjafirði sem Skagafirði og enn vestar. Viðbrögð við tillögunum hafa látið á sér standa hjá eyfirskum Norðlendingum, stjórnmálamönnum sem öðrum. Eyfirðingum ætti að muna um áhrif af rúmlega 8.000 manna byggðarlögum, nema því aðeins að þau teljist ekki til Norðurlands. Taka má þá undir með skáldinu sem að nóttu reikaði um eyðisand og syrgði horfið Norðurland.

SIGURÐUR SIGURÐARSON,

atvinnuráðgjafi hjá

Iðnþróunarfélagi Norðurlands.

Frá Sigurði Sigurðarsyni: