Ágúst Benediktsson þakkar vinnu og íslenskum mat langlífi.
Ágúst Benediktsson þakkar vinnu og íslenskum mat langlífi.
ÁGÚST Benediktsson frá Hvalsá í Kirkjubólshreppi á 102 ára afmæli í dag. Hann er fæddur 11. ágúst 1900 og býr á Hrafnistu í Hafnarfirði. "Ég er nú ekki fréttafróður þótt ég sé gamall. Ég er farinn að gleyma.

ÁGÚST Benediktsson frá Hvalsá í Kirkjubólshreppi á 102 ára afmæli í dag. Hann er fæddur 11. ágúst 1900 og býr á Hrafnistu í Hafnarfirði. "Ég er nú ekki fréttafróður þótt ég sé gamall. Ég er farinn að gleyma. Það sagði ein hjúkrunarkonan við mig að ég væri elsti maðurinn á heimilinu og ég ferðaðist mest. Ég fer þegar strákarnir bjóða mér út í bæ," segir Ágúst en strákarnir eru fimm synir hans.

Ágúst er fæddur í Steinadal á Ströndum og ólst þar upp til níu ára aldurs. Þá var hann lánaður yfir í Barðastrandarsýslu, eins og hann orðar það sjálfur. "Það var ekki verið að spyrja börnin hvort þau vildu fara eins og núna. Ég átti bara að fara til að vinna fyrir mér," lýsir hann.

Árið 1929 flutti hann að Hvalsá í Steingrímsfirði, þar sem hann bjó í 43 ár, ásamt konu sinni, Guðrúnu Einarsdóttur frá Þórustöðum í Bitrufirði. Guðrún dó fyrir rúmu ári, 93 ára að aldri.

Heilsuhraustur alla tíð

Þau hjón áttu sjö syni og eru fimm þeirra á lífi. Afkomendurnir eru vel yfir sjötíu talsins.

Ágúst var bóndi en stundaði einnig sjóinn. Hann átti trillu en búið var lítið, að sögn hans, rúmar hundrað kindur. Einnig vann hann hjá bændum á vorin eftir sauðburð við smíðar. "Búið fór í eyði eftir að ég lauk búskap, það hefur gengið manna á milli sem sumarbústaður síðan," bendir hann á.

Ágúst og Guðrún brugðu búi 1972 og fluttu þá til Reykjavíkur, en flestir synir hans voru þegar fluttir í bæinn.

Ágúst segist hafa verið heilsuhraustur alla tíð, en heilsan hafi þó versnað töluvert síðastliðin tvö ár. Hann hefur verið slæmur í maga og segist ónýtur að ganga því jafnvægið sé slæmt. Einnig fær hann móðu fyrir augun. "Það er voðalega lítið sem ég geri hér á daginn. Mér finnst svo slæmt að fá fólk til viðræðna hérna, það vill vera sér," undirstrikar hann.

Dráttarhestarnir hurfu fyrir vélunum

Ágúst segir fjölmargt hafa breyst á þessum árum. "Framfarirnar hafa verið gífurlegar. Það var notuð skófla í staðinn fyrir vélarnar," nefnir hann og segir að búskaparhættirnir hafi verið að breytast um það leyti sem hann hætti búskap. "Dráttarhestarnir hurfu fyrir vélunum, þær voru að koma þegar ég var að hætta. Ég var með orf og ljá mína búskapartíð."

Ágúst var snemma látinn vinna og var ekki nema sex ára þegar hann fór að sitja hjá. Þá trítlaði hann með nestispokann á bakinu og sat hjá rollunum þegar lömbin voru rekin í aðra átt. Níu ára sat hann einn hjá. "Ég sat alla dagana einn og mér leiddist svo fyrst eftir að strákurinn fór sem átti að vera með mér að ég hafði ekki lyst á að borða. Ég skildi matinn eftir til að láta ekki fólkið vita af því, mér þótti skömm að því að borða ekki. En svo smálagaðist þetta. Ég sat hjá allt sumarið og ég man ekki eftir að ég týndi neinni af rollunum," lýsir hann.

Að sögn hans var skólagangan lítil og léleg. Hann segir að lítill tími hafi gefist til lærdóms þar sem ávallt þurfti að vinna. "Ég hef verið hluta úr þremur vetrum, þrjá fjóra mánuði til samans, það er öll skólagangan. Við lærðum að lesa og skrifa og reikna svolítið. Það var kennari sem fór á bæina," bætir hann við og segist hafa iðrast þess oft á fullorðinsárunum að hafa ekki hlotið meiri menntun. Hann segist helst hefði viljað læra meiri reikning.

"Ég veit ekki hverju ég á að þakka þetta langlífi, bæði vinnu og góðu fæði, íslenskum mat. Það var ekki verið að hlaupa í búðirnar til að kaupa mat þá. Ég borðaði líka mikið af harðfiski," segir Ágúst.