Joey Lauren Adams sem Amy í Chasing Amy, úrvalsmynd um snúið tilfinningalíf makalauss ástarþríhyrnings.
Joey Lauren Adams sem Amy í Chasing Amy, úrvalsmynd um snúið tilfinningalíf makalauss ástarþríhyrnings.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú um helgina halda samkynhneigðir "Hinsegin daga" (Gay Pride) í höfuðborginni, sér og öðrum til ánægju og yndisauka. Uppákomurnar eru orðnar fastur liður og setja skemmtilegan og alþjóðlegan svip á stundum gerilsneyddan borgarbraginn. Af þessu tilefni velti Sæbjörn Valdimarsson fyrir sér þeim hægfara en markvissu breytingum sem orðið hafa á undanförnum áratugum og snerta samkynhneigða og kvikmyndirnar.

ÍSLENSKIR hommar og lesbíur eru að koma í auknum mæli úr einangrun samfélagsins og geta skemmt sér ásamt mörgum samborgurum sínum um stræti og torg án þess að verða fyrir aðkasti. Eiga sína samkomustaði og hátíðir einsog Hinsegin daga, sem eru hluti af alþjóðlegum fagnaði samkynhneigðra. Því fer samt fjarri að fordómum hafi verið eytt, hér eða annars staðar. Þessi minnihlutahópur á einsog flestir aðrir langt í land með að fagna fullu jafnrétti á við okkur, hina "fullkomnu" (!), og kvikmyndirnar (hér er einkum fjallað um bandarískar og breskar) ekki undanskildar.

Það er enn óvænlegt að vera samkynhneigður í Hollywood, skemmst að minnast óðfúsra yfirlýsinga Toms Cruise að hann væri ekki aldeilis tvíkynhneigður, þegar sá orðrómur komst enn einu sinni í hámæli. Engu að síður hefur þróunin síðustu áratugina gert það að verkum að hommar og lesbíur eru orðin til muna sýnilegri hópur í almennum myndum - ekki aðeins jaðarmyndum. Frá mínu gagnkynhneigða sjónarhorni á góðri leið með að verða sá raunrétti hluti samfélagsins í kvikmyndunum sem honum ber, þökk sé nokkrum undirstöðumyndum sem víkkuðu sjóndeildarhring jafnvel hinna íhaldssömustu afturhaldsmanna. Byltingarmennirnir eru frjálslyndir og réttsýnir framleiðendur og listamenn sem voru þess umkomnir að minna okkur á undirstöðuatriðin, að öll erum við fólk með tilfinningar og sjálfsvirðingu.

GAMLAR KLISJUR

Fyrir alllöngu skrifaði ég grein um samkynhneigð og kvikmyndir, fyrirsögn hennar fengist ekki birt í dag (sem er í sjálfu sér gott dæmi um jákvæðar breytingar), annað eða betra heiti yfir kynhneigðina þekktist ekki þá og þótti gott og blessað. Aðalástæðan fyrir greinarskrifunum var að mig minnir þær stórfréttir að tveir af virtustu leikurum þess tíma, Richard Burton og Rex Harrison, voru að leika homma í myndinni The Staircase ('69). Í stuttu máli var myndin fáfengileg. "Hommarnir" lélegir brandarar þótt þeir væru í höndum jafnágætra manna og leikaranna tveggja og leikstjórans Stanleys Donen. Þeir voru naggandi, pirraðar kerlingar, þannig var stimpillinn sem enn var viðloðandi samkynhneigt fólk og kvikmyndaiðnaðurinn lagði blessun sína yfir langt fram á síðustu öld. Ámóta óraunsæ ímynd var dregin upp af samkynhneigð í Suddenly Last Summer ('59), The Sergeant ('68), The Killing of Sister George ('69) og Sunday Bloody Sunday ('71), svo nokkur dæmi séu nefnd. Áfram drattaðist Hollywood í sporum kattarins og heita grautsins á níunda áratugnum með veruleikafirrtum plastmyndum á borð við Personal Best og Making Love (báðar '82).

Heldur rofaði til með Dog Day Afternoon ('75) (þar var samkynhneigð reyndar í agnarlitlu aukahlutverki þrátt fyrir efnið), og enn frekar Boys in the Band ('70) og Cruising ('80), tveimur myndum eftir William Friedkin. Svo virtist sem hugarfarsbreyting væri í aðsigi.

BYLTINGARVERKIN

Árið 1975 kom fram á sjónarsviðið sjónvarpsmyndin The Naked Civil Servant og er minnst á hana hér þar sem hún er tímamótamynd, svo feimnis- og fordómalaust fjallar hún um bannhelgina. Hún er einnig minnisstæð sakir frábærs leiks Johns Hurts í aðalhlutverki Quentins Crisp, samkynhneigðs, bresks rithöfundar. Á þessum tíma varðaði enn við lög að vera hommi í ríki hennar hátignar og Hurt tók mikla áhættu með leiknum og jafnframt að lýsa því samtímis opinberlega yfir að vera hommi.

Minnisstæðust tímamótakvikmyndanna er Kiss of the Spider Woman eftir Hector Babenco. William Hurt hreppti Óskarinn fyrir magnaðan leik í fangadrama úr S-Ameríku en hann leikur mann sem situr inni fyrir kynhneigð sína og flýr veruleika múrsins með upprifjun á gömlum melódramatískum kvikmyndum. Samfangi hans (Raul Julia), sem álitinn er landráðamaður af fasistaöflunum í landinu, dregst með inní fantasíuna. Snilldarvel samin, treystir á stórleikarana og Sonia Braga er hin ímyndaða Kóngulóarkona. Öflugt, mannlegt drama sem virkilega opnaði augu áhorfenda fyrir félagslegu misrétti kynhverfra.

Boys Don't Cry - Strákar gráta ekki ('99) - eftir Kimberley Pierce færði Hilary Swank verðskuldað Óskarsverðlaunin fyrir einstætt leikafrek sem Teena Brandon, tvítug stúlka sem telur sig karlmann í helsi kvenlíkama. Hún segir skilið við stúlkuna og gerist töffarinn Brandon Teena. Annar vandi persónunnar er sá að hún elst upp í fordómafullu krummaskuði í afkjálkafylki.

Öllum er hollt að sjá með eigin augum þann harmleik sem myndin lýsir svo eftirminnilega. Persónur sem Brandon/Teena heyja skelfilegt stríð við sjálfar sig og okkur samborgarana, aðeins jákvætt umhverfi getur linað kvalirnar. Niðurlæging Brandons í nauðgunarsenunni er skelfilegt dæmi um illsku mannskepnunnar og Chloë Sevigny er minnisstæð sem vinkonan Lana.

Chasing Amy ('97), eftir háðfuglinn Kevin Smith, er önnur, sláandi tímamótamynd, sem segir á tragikómískan hátt af flóknum ástamálum enn snúnara þríeykis. Vinirnir Holden og Banky (Ben Affleck, Jason Lee), kynnast Amy (Joey Lauren Adams), kollega þeirra í teiknimyndabókagerð. Holden verður yfir sig ástfanginn en Banky afbrýðissamur og sár. Málin gerast enn flóknari þar sem Amy er samkynhneigð. Fyndin mynd og fordómalaus, óvenjuleg og einkar vel leikin, ekki síst af Adams í titilhlutverkinu.

Á veiðum (Go Fish) ('94) er einföld saga úr lífi nokkurra lesbía í New York og sýnir að þær eiga við að glíma sömu tilfinningalegu vandamálin og aðrir í þjóðfélaginu. Hversdagsbaráttan á svipuðu plani að öðru leyti en því að þær eru að eltast við eigið kyn. Við fylgjumst náið með samskiptum nokkurra vinkvenna um stund. Sumar eru í föstu sambandi, aðrar á lausu, sumar heiðviðrar og gamaldags, aðrar með brókarsótt. Rétt einsog gengur. Það er samt rómantíkin sem er aðalinntakið. Vissulega "hinsegin mynd", en ætti að geta höfðað til fleiri en samkynhneigðra og nokkuð góð til að berja á fordómum. Textinn er greinilega mikið til saminn á staðnum, nær stundum flugi en hlunkast þess á milli niður í misjafnar tilraunir til að vera skynsamlegur. Þessir þættir eru áberandi í myndinni allri, sem á margan hátt er skemmtilega öðruvísi og sómir sér einkar vel í grátónunum.

Chuck and Buck ('00) dregur nafn sitt af æskuvinunum Buck (Mike White) og Chuck (Chris Weitz), sem ýmislegt brölluðu saman fram undir fermingu, í smábæ í Kaliforníu. Sumt á útnára kynferðislegrar hegðunar. Veröld Bucks hrynur er Chuck flytur til Los Angeles, leiðir þeirra liggja ekki saman fyrr en móðir Bucks fellur frá. Chuck er farinn að njóta velgengni, Buck lifir enn í ljóma gullinna æskuminninganna þegar Chuck og Buck voru kóngar í ríki sínu. Kærasta Chucks sér aumur á þessum gamla æskuvini og býður honum í heimsókn.

Harla óvenjuleg mynd um eftirsjá æskuáranna, falskar vonir, brostnar ástir, gengna vináttu og afbrigðilega kynhneigð. Einmanaleika, þráhyggju, upprisu. White kemst dæmalaust trúverðuglega frá margflóknu efninu og botnar söguna á rökréttum nótum, þannig að Chuck & Buck ætti að nýtast sem pilla við homma- og lesbíufælni.

Priest (´94) er bæði gagnrýnin og launfyndin í meðförum sínum á mannanna brestum. Linus Roache leikur Greg, prest sem er nýráðinn í fátæka sókn í Liverpool. Greg er algjör andstæða Matthews (Tom Wilkinson), klerksins sem fyrir er. Hann er frjálslyndur, býr í synd með ráðskonu sinni, og vinstrisinnaður í þokkabót. Bókstafstrúarmaðurinn Greg á fljótlega eftir að hrasa um eigin bresti og endurskoða siðareglur kirkjunnar. Verður að viðurkenna samkynhneigð sína eftir að hafa fallið fyrir manni á hommabúllu. Niðurstaðan er umdeilanleg, en myndin ógnarsterk. Ekki síst lokaatriðið, er Greg, fullur sjálfsásakana, fær uppreisn æru og syndaaflausn hjá stúlkubarni sem mátti líða fyrir misgjörðir þeirra sem hún treysti best.

Fresa y chocolate (´93) er forvitnileg og óvenjuleg, segir frá samskiptum ungkomma (Jorge Perugorria) og homma (Vladimir Cruz) á Kúbu Castrós. Sá fyrrnefndi mikil karlremba, hinn friðelskandi ljúfur sveinn. Milli þeirra skapast sérstakt vinasamband og efnistökin einstaklega fyndin á mannlegum nótum.

My Beautiful Laundrette ('85) er enn ein tímamótamyndin. Breski Pakistaninn Omar (Saeed Jaffrey) kemur sér áfram á kapítalískri framtakssemi Thatcherismans á milli þess sem hann verður ástfanginn af Johnny (Daniel Day-Lewis), hvítum æskuvini sínum. Allt í senn harkaleg, erótísk, fyndin og frábærlega samin þjóðfélagskómedía um samkynhneigð og samskipti hvítra og litaðra í fjölþjóða samfélagi sem verður að kljást við arfleifð gömlu heimsvaldastefnunnar. Handritshöfundurinn er pakistanska skáldið Hanif Kureishi, sem gjörþekkir sögusviðið.

Maurice ('87) er hljóðlát og áferðarfalleg mynd félaganna Ivory og Merchants, byggð á kunnu bókmenntaverki E.M. Forster sem beinir sjónum að bresku yfirstéttinni. Segir af samkynhneigð ungra manna (James Wilby, Hugh Grant, Rupert Graves), sem var bannhelgi á púrítönskum Játvarðartímanum og leiddu í glötun menn einsog Oscar Wilde. Það þarf hræsnislausan og heiðarlegan leikstjóra og handritshöfund til að koma viðkvæmu efninu frá sér - og afburða leikara. Raunsæ og manneskjuleg lýsing á útlagahlutskipti samkynhneigðra, áhorfandinn hlýtur að skilja betur þjóðfélagsstöðu þeirra eftir en áður.

Philadelphia (´96) er ofmetin mynd um samkynhneigðan lögmann (Tom Hanks) sem smitast af alnæmi og grímurnar falla. Hann neyðist út úr skápnum, hans fyrrum huggulegu húsbændur reynast sótthræddir hræsnarar og láta efnismanninn róa. Hann leitar fulltingis hjá starfsbróður sínum (Denzel Washington), sem knýr fram réttlætið að lokum. Hljómar vel og hefur margt til síns ágætis. Á hinn bóginn væmin og óraunsæ.

The Crying Game ('92) vakti heimsathygli fyrir óvenjulegt samband skæruliða IRA (Stephen Rea) og bresks homma (Jaye Davidson). Mér þótti kveða við falskan tón og myndin í heild tilgerðarleg og ótrúverðug líkt og M. Butterfly ('93) með Jeremy Irons. The Birdcage ('96) var fyndin og frábærlega leikin af Gene Hackman og Nathan Lane en komst varla í hálfkvist við frummyndina, La cage aux folles ('78), sem sannarlega var tímamótaverk.Það á vel við að ljúka þessari yfirreið með Ian McKellen, eins af stórleikurum samtímans, en sjaldan hefur hann drottnað jafn eftirminnilega og í Gods and Monsters ('98). Leikur James Whale, sögufrægan, samkynhneigðan leikstjóra (Frankenstein), í Hollywood á öndverðri öldinni sem leið. Fær góðan mótleik hjá Brendan Fraser sem túlkar firna vel garðyrkjumann, sem gengur í augun á karli.

HOMMAFÆLNI

Ef samkynhneigð hefur fylgt mannkyninu frá fyrstu tíð má segja það sama um ýmsa fylgifiska hennar einsog hommafælni (homophobiu).

"Sonur minn er enginn hommi, hann er fullkominn einsog ég," orti Bubbi Morthens, sem var örugglega fyrsti íslenski poppsöngvarinn til að fjalla opinberlega um hræsnina sem stundum litar málflutning þeirra sem andúð hafa á samkynhneigðum. Lítum á nokkur nýleg dæmi:

Ástralska gæðamyndin Priscilla, drottning eyðimerkrinnar (The Adventures of Priscilla, Queen of the Desert, '94), var ein af lykilmyndunum sem opnuðu augu almennings fyrir erfiðri lífsbaráttu gagnkynhneigðra og ekki síður heiftúðugri hommafælni. Myndin er enn áhrifaríkari þar sem boðskapurinn er matreiddur af ríku skopskyni þó undirtónninn sé alvarlegur - og kunnir leikarar úr frægum karlrembuhlutverkum koma við sögu.

Söguhetjurnar, tvær dragdrottningar (Hugo Weaving og Guy Pierce) og kynskiptingur (Terence Stamp), halda út í dreifbýlið með dragskemmtanir sínar. Farkosturinn er "Priscilla", aflóga langferðabíll.

Í Óskarsverðlaunamyndinni American Beauty ('99) leikur Chris Cooper (af alkunnri snilld) eitt aðalhlutverkanna, atvinnuhermanninn Fitts ofursta, sem er heltekinn hommafóbíu. Undir lokin kemur ástæðan í ljós, maðurinn getur ekki horfst í augu við eigin kenndir. Skápurinn læstur.

Það gerist ekki betra (As Good as it Gets) færði Jack Nicholson og Helen Hunt Óskarsverðlaun 1997. Myndin var tilnefnd líkt og Greg Kinnear, sem leikur kynhverfan nágranna rithöfundarins Nicholson, sem hefur megnasta viðbjóð á granna sínum og hans hundstík - til að byrja með. Myndin fléttar skemmtilega og skynsamlega saman leiðir þeirra og skilur við báða með reisn og gagnkvæmri virðingu.

Úr því minnst er á Óskarinn '97 má geta þess að Paul Thomas Anderson var einnig tilnefndur þetta ár fyrir handritið Boogie Nights. Myndin gerist í klámmyndageiranum og m.a. fjallað um samkynhneigð eins kvikmyndagerðarmannsins á skilningsríkan hátt. Sá er leikinn af Philip Seymour Hoffman, einum athyglisverðasta skapgerðarleikara sem komið hefur fram á sjónarsviðið síðari árin. Hoffman leikur einnig homma og dragdrottningu í Flawless ('99), er nágranni og síðar söngkennari löggunnar og hommahatarans Robert De Niro. Með stórleikarana innanborðs hefði Flawless gjarnan mátt vera áhrifaríkari.

Betur er staðið að hlutunum í Sling Blade, meistaraverki Billy Bob Thornton frá 1996. Þar er afgreiðslumaðurinn Cunningham, ein aukapersónan, óhamingjusamur og niðurlægður, enda þorpshomminn. John Ritter, af öllum mönnum, túlkar Cunningham af skilningi og gerir minnisstæðan. Kántrísöngvarinn Dwight Yoakam fer í sömu mynd jafnlistilega með hlutverk karlrembunnar, hommahatarns og "hvítsorans" Doyles Hargrave, annars aðaláhrifavalds sannrar kvikmyndaperlu.

Hommafælni kemur einnig við sögu í Powder ('95), In and Out, og Wilde (allar '97); Outside Providence ('99), hún var sýnd hérlendis í sjónvarpi, og í Jay and Silent Bob Strike Again ('00).