Guðrún, Unnur og Haukur á svölum gisti- og veitingahússins á Bíldudal.
Guðrún, Unnur og Haukur á svölum gisti- og veitingahússins á Bíldudal.
Á Bíldudal hefur verið opnað nýtt kaffi- og veitingahús á vegum Bíldudals - Fjalla ehf. Þessi starfsemi er í gamla kaupfélagshúsinu sem staðsett er á hafnarsvæðinu á Bíldudal.

Á Bíldudal hefur verið opnað nýtt kaffi- og veitingahús á vegum Bíldudals - Fjalla ehf. Þessi starfsemi er í gamla kaupfélagshúsinu sem staðsett er á hafnarsvæðinu á Bíldudal. Þeir sem fá sér kaffisopa eða aðrar veitingar geta fylgst með lífinu við höfnina og skoðað bátana. Þá er á efri hæðinni í sama húsi einnig starfrækt gistiheimili, sem hefur verið í rekstri í eitt ár, með sex herbergjum sem í eru samtals 15 rúm. Bíldudals - Fjalli starfar ekki eingöngu í ferðaþjónustu því það er nú að verða þekkt fyrir teframleiðslu sína. En þær tetegundir sem fyrirtækið hefur framleitt eru unnar úr íslenskum jurtum, svo sem fjallagrösum, vallhumli, hvönn, blóðbergi, bláberjalaufi og fleiri jurtum. Teframleiðslan fer að miklu leyti fram á veturna þegar minna er að gera í ferðamennskunni. Þá blandar fyrirtækið einnig kaffi og eru Gæðakaffi Vestfirðingsins og Gæðasopi trillukarlsins þekktustu tegundirnar. Javakaffi og fleiri tegundir fást einnig hjá fyrirtækinu. Eigendur fyrirtækisins eru Haukur Már Kristinsson, Guðrún Helga Sigurðardóttir og Birna Hrafnhildur Kristinsdóttir, en þau eru einnig starfsmenn fyrirtækisins ásamt Unni Sigurjónsdóttur og Hrefnu Ingibjörgu Jónsdóttur.