Ingi Magnússon fæddist í Reykjavík 20. júlí 1930. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 3. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Margrét Kjartansdóttir húsmóðir, f. 18. september 1899, og Magnús Þorkelsson bakarameistari, f. 20. júní 1894, þau eru bæði látin. Ingi átti einn bróður, Kjartan, f. 11. ágúst 1938. Kona hans er Hallfríður Skúladóttir. Árið 1958 kvæntist Ingi Þórunni G. Eiríksdóttur, f. 28. maí 1923. Uppeldissynir þeirra eru: Magnús S. Jónsson, f. 29. janúar 1941. Maki hans Þórhildur M. Gunnarsdóttir. Börn þeirra eru Valgeir og Valgerður. Smári Ragnarsson, f. 13. febrúar 1954. Sambýliskona hans er Erla Kristín Svavarsdóttir. Synir þeirra eru Sveinn Ívar, Andri Sævar og Einar Sindri.

Ingi varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1951. Hann vann lengst af hjá Togaraafgreiðslunni í Reykjavík m.a. sem framkvæmdastjóri hennar. Frá 1981 til starfsloka vann hann hjá Ríkissjónvarpinu.

Útför Inga verður gerð frá Digraneskirkju á morgun, mánudaginn 12. ágúst og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Sumri er tekið að halla og ágústmánuður genginn í garð með sínum fögru kvöldum. Rökkur og hlýr andvari einkennir árstímann. Á þessum undurfagra árstíma kvaddi Ingi tengdafaðir minn þennan heim, hljóðlega og yfirvegaður eins og honum var líkt. Baráttu hans er loks lokið, löngu og erfiðu stríði. Þreyttur en sáttur við Guð og menn, sáttur og þakklátur fyrir hlutskipti sitt hér á jörðu.

Ingi var einstakur maður. Já, einstakur eiginmaður, fósturfaðir, tengdafaðir og síðast en ekki síst einstakur afi og langafi. Hann var skarpgreindur með hefðarlegt yfirbragð, mannblendinn og gæddur mikilli kímnigáfu. Þessir eiginleikar gerðu það að verkum að við sóttum öll eftir félagsskap hans. Þegar Ingi tengdapabbi talaði var hlustað. Slík var frásagnargleðin og hæfileikar hans til að segja skemmtilega frá. Það má með sanni segja að Ingi hafi verið ómissandi í fjölskylduboðum eða í matarveislum okkar. Hann gat haldið uppi fjöri og samræðum sem gerði mörg kvöldin ógleymanleg.

Ingi lét sig flest varða og þá sérstaklega okkur öll, þ.e. son og fósturson ásamt fjölskyldum þeirra. Barnabörnin og barnabarnabörnin voru honum allt. Strax sem kornabörn löðuðust þau að honum. Fyrstu merkin komu fram þegar þau komu í heimsókn sem hvítvoðungar. Þá undu þau sér best í fangi afa, róleg og sæl. Það var eins og þau skynjuðu hlýjuna. Þá fylgdist hann vel með uppeldi þeirra og námi, hvatti þau og studdi í einu og öllu. Söknuðurinn hjá börnum okkar verður mikill. Það var þeim svo eðlilegt að láta afa vita hvernig hlutirnir gengu og hann átti auðvelt með að tala þeirra tungumál. Hann hafði mikinn áhuga á öllum tækninýjungum, s.s. því nýjasta í tölvum m.m. Þá talaði hann ávallt við börn sem jafningja og aldursmunurinn skipti aldrei máli.

Ingi var víðlesinn og helstu áhugamál hans voru ferðalög og bókmenntir. Áhugi hans á bókum og bókmenntum var sérstaklega mikill. Ég minnist þeirrar sjónar að sjá hann hafa tvær bækur í takinu í einu, aðra létta og hina jafnvel á þýsku eða ensku. Ekki var óalgengt að hann lyki við eina bók á kvöldi, jafnvel með góðum samræðum inn á milli. Okkur fannst oft eins og hann "skannaði" blaðsíðurnar, slíkur var hraðlesturinn. Þá voru ferðalög honum afar huglæg, hvort sem var innanlands eða utan. Ingi og Dódó ferðuðust um margar heimsálfur löngu áður en algengt var að ferðast á framandi slóðir. Það sem einkenndi ferðir þeirra var að hann las allt sem hann gat komist yfir um þau lönd sem skyldi heimsækja svo að þau hjónin nytu ferðarinnar sem best. Það var ekki ónýtt að ferðast með þeim og fróðleikur um staðina gerði ferðir okkar að ævintýraferðum.

Við megum ekki gleyma að Ingi verður meðal okkar áfram, í hjarta okkar, í huga okkar og sem lærimeistari okkar í því að taka lífinu eins og það er, æðrulaus og laus við alla duttlunga. Hann vildi hafa allt á hreinu og heiðarleiki var honum mikilvægur. Hann krafðist einskis af okkur en gerði miklar kröfur til sín. Ekki síst síðustu árin er hann naut lífsins í lítillæti sínu með því að taka ástkæra eiginkonu sína heim til sín um hverja helgi þrátt fyrir vanmátt sinn, veikindi sín og veikindi hennar. Dódó sem hefur átt við veikindi að stríða undanfarin ár á eftir að sakna eiginmanns síns mikið. En hún fékk að njóta hans eins lengi og hann lifði og við vitum að hún er þakklát fyrir það. Hjónband þeirra var einstaklega kærleiksríkt og þau voru ekki aðeins hjón heldur einnig miklir vinir sem áttu sömu áhugamál í lífinu.

Við kveðjum Inga tengdapabba með söknuði.

Blessuð sé minning tengdaföður míns. Hvíl í friði.

Þórhildur Gunnarsdóttir.

Á morgun kveðjum við kæran vin, Inga Guðmund Magnússon, sem þá verður borinn til hinstu hvílu.

Kynni okkar hófust á unglingsárunum fyrir rúmri hálfri öld og hafa síðan staðið óslitið fram á þennan dag. Við vorum fjórir sem héldum hópinn á þessum árum, Ingi Lárdal eins og hann var kallaður, bróðir minn Kristján og Þórður Gíslason, allir meðlimir í unglingastúkunni Sóley í Reykjavík. Svo giftumst við og eiginkonurnar Dúdda, Eva, Aldís og Dódó bættust í liðið og síðan Hákon Heimir og Ólöf. Á þeim árum myndaðist sú sterka vinátta sem haldist hefur fram á þennan dag og breyttist í engu þótt við stofnuðum heimili. Við hittumst reglulega, fórum saman í ferðalög og börnin okkar urðu góðir vinir.

Oft var glatt á hjalla þegar við komum öll saman. Gamlárskvöldin voru ógleymanleg en þau héldum við með fjölskyldum okkar þar til komið var fram í þriðja ættlið og yngra fólkið sjálft komið með maka og börn.

Skarð var höggvið í þennan félagsskap fyrir rúmum tuttugu árum þegar Þórður og Aldís létust langt um aldur fram. Og nú er Ingi líka horfinn og hópurinn okkar farinn að þynnast.

Ingi var okkar skemmtilegastur, skarpgreindur með óborganlega kímnigáfu.

Frásagnarlistin var honum í blóð borin og sögur hans gátu haldið manni hlæjandi heilu kvöldin. Ingi las mikið og mundi vel það sem hann las. Af öllum íslenskum höfundum hafði hann mest dálæti á Laxness og vitnaði oft í bækur hans.

Þau hjónin ferðuðust mikið erlendis. Ingi var tungumálamaður og naut þess að kynnast menningu og lifnaðarháttum annarra þjóða.

Ingi og Dódó voru ákaflega samrýnd og eftir að hún veiktist sjálf af alvarlegum sjúkdómi var hugurinn alltaf hjá Inga. Ingi hélt sinni andlegu reisn fram í andlátið og á honum var engan bilbug að finna. Þegar við hjónin heimsóttum hann í síðasta sinn á Landspítalann, nokkrum dögum fyrir andlát hans, talaði hann um brottför sína úr þessu jarðlífi sem langþráða hvíld. Og er við kvöddum hann og báðum fyrir kveðjur til Dodda og Dísu brosti hann og kvaðst mundu skila því.

Við sendum fjölskyldu hans samúðarkveðjur. Þau hafa staðið dyggilega við hlið hans í þessu veikindastríði, sem orðið er langt og erfitt.

Við kveðjum svo kæran vin og þökkum samfylgdina í tæp sextíu ár. Það er skarð fyrir skildi þegar hann er horfinn en við vitum að vel verður tekið á móti góðum dreng hinum megin.

Ólafur Bjarnason.

Þórhildur Gunnarsdóttir.