Ólafur Helgason fæddist í Keflavík 12. ágúst 1924. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 29. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Helgi Guðmundsson læknir, f. 3.8. 1891, d. 29.4. 1949, og Sigurbjörg Hulda Matthíasdóttir hjúkrunarkona, f. 14.9. 1891, d. 8.8. 1968. Börn þeirra voru átta: Guðmundur, f. 11.10. 1919, d. 14.11. 1984, Matthías, f. 12.4. 1921, d. 7.2. 1986, Haukur, f. 25.10. 1922, d. 15.10. 1990, Ólafur, sem hér er kvaddur, Ragnheiður, f. 7.9. 1927, d. 26.10. 1943, Guðrún Jóhanna, f. 7.9. 1927, María, f. 12.8. 1930, og Sigurlaug, f. 6.8. 1936, d. 27.4. 1985. Ólafur kvæntist Sigurjónu Guðmundsdóttur, f. 18.3. 1925, d. 6.12. 1995. Þau eiga sex börn: Guðrún, f. 4.3. 1948, á einn son og þrjú barnabörn, Helgi, f. 8.4. 1950, á tvö börn og tvö barnabörn, Elsa, f. 27.5. 1952, á eina dóttur og tvö barnabörn, Jóhanna, f. 18.2. 1954, á þrjú börn og eitt barnabarn, Hulda, f. 18.1. 1957, á einn son, og Ólafía, f. 7.4. 1960, hún á tvo syni.

Útför Ólafs var gerð frá Keflavíkurkirkju 5. júlí síðastliðinn.

Hann Óli frændi er dáinn. Segja má að hann hafi kvatt þennan heim á sinn hátt, búinn að vera á rölti á sjúkrahúsinu, lagðist upp í rúm og dó, fór.

Við systkinin minnumst margra skemmtilegra heimsókna hans þar sem setið var og skrafað um allt milli himins og jarðar. Talað um pólitík þar sem hann og pabbi voru svo til alltaf ósammála, sagðar sögur, oft prakkarasögur, gamlar og nýjar með frábærum tilþrifum, tekinn allur skalinn með leikrænni tjáningu, rödd, göngulag, handapat, hróp og köll. Mikið var hlegið og slegið sér á lær. Svo allt í einu var hann staðinn upp og sagði "Jæja, takk fyrir kaffið Stebba mín" og með snaggaralegum hreyfingum fór hann í jakkann, stökk niður tröppurnar, út í bíl og brunaði í burtu. Eftir stóð pabbi á tröppunum með pípuna í munnvikinu, og hristi höfuðið yfir asanum á litla bróður.

Þekkt er sú saga þegar Óli frændi var á leið "eitthvað norður" einn á ferð, kom við í bústaðnum við Meðalfellsvatn þar sem margir voru búnir að reyna við laxinn, lengi. Óli staldraði við í klukkutíma tók þrjá væna laxa og einn kaffibolla og var svo þotinn norður og þrátt fyrir ákafar tilraunir reyndari veiðimanna sást ekki í lax marga daga á eftir.

Lengi vel héldu sum okkar að Óli héti Óli bror eða Óli bro, en það kallaði pabbi hann alltaf. Auðvitað var það frá þeim tíma er þau systkin ólust upp á Túngötunni í Keflavík og fínt þótti að sletta dönskunni.

Hér skal ekki tíundað æviskeið Óla. Hann, eins og margur á hans aldri, lifði tímana tvenna.

Samverustunda okkar með Óla verður lengi minnst og stendur þá helst upp úr hláturinn og kætin í kringum þær. Sjálfsagt er engin lognmolla á þeim stöðum sem hann ferðast á núna. Við systkinin og móðir okkar Stefanía óskum Óla góðrar ferðar á framandi slóðum og um leið þökkum við kærum frænda samfylgdina og tryggðina gegnum tíðina.

Börnum hans og fjölskyldum þeirra, Jónu vinkonu hans, systrunum Maríu og Jóhönnu og öllum vinum Óla vottum við okkar dýpstu samúð og biðjum Guð að vera með ykkur á sorgar- og saknaðarstundu.

Hulda, Stefán, Ingólfur,

Magnús og Guðlaug.

Hulda, Stefán, Ingólfur, Magnús og Guðlaug.