Talsverðar væntingar voru bundnar við GPRS, sem býr yfir þráðlausri sítengingu farsíma við Netið og tryggir aukinn gagnahraða. Hins vegar virðist hátt verð á símtækjum hafa dregið úr áhuga notenda hér á landi. Vonir standa til þess að ódýrari GPRS-símar séu ekki langt undan. Þá er búist við því að farsímar með myndavélum og MMS muni ýta enn frekar við farsímanotendum.

Miklar vonir voru bundnar við GPRS [General Packet Radio Service], sem er fyrsta skrefið í átt að þriðju kynslóð farsíma, UMTS [Universal Mobile Telecommunications System] þegar tæknin var tekin í notkun fyrir um tveimur árum. Helsti eiginleiki GPRS er þráðlaus sítenging við Netið og hægt er að senda gögn og tala í slíka síma næstum samhliða. Yfirleitt er greitt fyrir raunnotkun en ekki tímagjald í GPRS. Gert er ráð fyrir að gagnahraði með GPRS nemi allt að því 48 þúsund bitum á sekúndu. Það er fjórum sinnum meiri hraði heldur en er í hefðbundnum GSM-símum, en flestir þeirra tryggja gagnahraða er nemur 9.600 bitum á sekúndu, en hægt er að tryggja allt að 14.400 bita á sekúndu í GSM.

Þrátt fyrir aukinn gagnahraða hefur GPRS-tæknin farið hægt af stað hér á landi sem annars staðar, en ástæðan virðist einkum sú hversu GPRS-símar eru enn dýrir í samanburði við hefðbundna farsíma, að sögn S. Hjartar Guðjónssonar, vörustjóra GPRS hjá Símanum. Hann segir að WAP-sítenging og GPRS sé ekki í mikilli notkun meðal viðskipavina enn sem komið er þrátt fyrir að Síminn hafi lagt í töluverðan kostnað til þess að auðvelda aðgengi í gegnum vefgáttir. "Notkunin fer hægt af stað, en notkunarhlutfall þeirra sem eiga GPRS-farsíma er hátt," segir Hjörtur og telur að viðskiptavinir séu yfirleitt ánægðir með þjónustuna.

Búist við að MMS slái í gegn

"Hins vegar eru GPRS-símarnir enn tiltölulega dýrir og það tekur tíma að endurnýja síma notenda. Ericsson og Motorola eru enn sem komið er einu framleiðendurnir sem hafa kynnt til sögunnar tiltölulega ódýra GPRS-síma. Þá er hvati til þess að nota þessa tækni ekki nægilega til staðar, en margir líta fyrst og fremst á farsíma sem samskiptatól, hitt eru viðbótarþægindi enn sem komið er."

Hjörtur segir hins vegar að von sá á farsímum sem ættu að efla notkun á GRPS, meðal annars farsíma með myndavélum og MMS (Multimedia Messaging Service), sem gerir farsímanotendum kleift að senda texta, myndir og hljóð um farsíma. "Ég hef fulla trú á að slík tækni muni slá í gegn meðal farsímanotenda þegar fram í sækir," segir Hjörtur. Hann bendir jafnframt á að farsímar með litaskjá muni eflaust hafa gríðarleg áhrif á næstu mánuðum hvort heldur varðar WAP og GPRS sem og MMS.

"Ericsson hefur kynnt fyrsta farsímann með litaskjá (T68 og svo T68i) til sögunnar í Evrópu, en von er á fleiri slíkum farsímum. Meðal annars er Nokia að setja einn slíkan (7650) á markað, en sá býr líka yfir MMS. Þá ætlar Ericsson að svipta hulunni af P800, sem er með litaskjá og myndavél."

Hjörtur kveðst hins vegar ekki hafa trú á að notendur muni taka MMS opnum örmum strax í upphafi því símtækin þykja enn dýr. "Gera má ráð fyrir að MMS-símar muni í upphafi kosta allt að 70-80 þúsund krónur. Það er enn talsvert í land hvað varðar ódýrari MMS-síma. Ennfremur eiga farsímafyrirtækin eftir að laga MMS að GSM-kerfum. Sú vinna getur tekið tíma."

Nokkur ár þar til MMS verður almennt notað

Kjartan Briem, aðstoðarframkvæmdastjóri fjarskiptasviðs Íslandssíma, segir að það sé greinilega mikill áhugi meðal evrópskra fjarskiptafyrirtækja á því að ýta MMS-tækni úr vör, en hann tekur í sama streng og Hjörtur og kveðst ekki hafa trú á að tæknin fari á flug fyrr en að einhverjum árum liðnum. "Þessi tækni gerir farsímanotendum kleift að notfæra áður óþekkta möguleika, svo sem senda myndir, hljóð og texta í einu MMS-skilaboði. Það er erfitt að segja til um hvenær MMS-tæknin verður tekin í notkun, en gera má ráð fyrir að það muni taka 1-2 ár, eða jafnlangan tíma og það tekur notendur að skipta út eldri farsímum. Eins og staðan er í dag eru farsímar sem búa yfir MMS enn alltof dýrir," segir Kjartan. Hann bendir á að þegar nýir símar með MMS verði teknir í notkun verði hægt að hafa meiri gagn af GPRS-nettengingu.

Vonir bundnar við EDGE-tæknina

GPRS var ætlað að vera vísir að þriðju kynslóð farsímakerfa, sem mun búa yfir enn frekari gagnahraða. Tækni sem nefnist EDGE [Enhanced Data for GSM Evolution], sem er einnig viðbót við GSM eins og GPRS, er ætlað að brúa bilið enn frekar. EDGE byggist á enn meiri hraða og flutningsgetu en GPRS. Kjartan segir að MMS muni koma að enn betri notum þegar og ef EDGE fer af stað. "EDGE, sem er millistig milli GPRS og þriðju kynslóðarinnar, er spennandi kostur fyrir farsímanotendur, en tæknin sendir gögn yfir loftið með nýrri aðferð og gerir það að verkum að gagnahraðinn verður mun meiri en áður," segir Kjartan.

Raunhraðinn getur náð frá 56-200 Kb/s, en með GPRS er hann mestur í u.þ.b 50 kb/s. "Bandarísk fjarskiptafyrirtæki hafa horft til EDGE ekki síst í ljósi þess að kostnaður við uppsetningu tækninnar er lítill í samanburði við þriðju kynslóðina, eða um 10% af því sem kostar að setja upp GSM-kerfi," segir Kjartan hjá Íslandssíma.