Frá Osló. Nálægt 20% alls húsnæðis í Noregi eru í eigu húsnæðissamvinnufélaga.
Frá Osló. Nálægt 20% alls húsnæðis í Noregi eru í eigu húsnæðissamvinnufélaga.
SENN líður að hundrað ára afmæli endurreisnar norska konungsríkisins, því árið 1905 slitu Norðmenn tæprar einnar aldar konungssambandi við Svía, eftir að hafa - eins og við Íslendingar - verið þegnar Danakonunga frá um 1380.

SENN líður að hundrað ára afmæli endurreisnar norska konungsríkisins, því árið 1905 slitu Norðmenn tæprar einnar aldar konungssambandi við Svía, eftir að hafa - eins og við Íslendingar - verið þegnar Danakonunga frá um 1380.

Sjálfstæði Noregs fylgdu miklir uppgangstímar, sem einkenndust af eflingu siglinga og iðnaðaruppbyggingu í kjölfar virkjunar norskra fallvatna, einni öld á undan Íslendingum; athafnaskáldinu Einari Benediktssyni mistókst, sem kunnugt er, að fá Íslendinga til þess að fylgja fordæmi Norðmanna á þessu sviði.

Örri efnahagsframþróun Noregs frá og með um 1850 fylgdi myndun borga og bæja. Vöxturinn var það ör, einkum í höfuðborginni Kristjaníu (Osló frá og með 1925), að af hlaust mikill húsnæðisvandi allrar alþýðu.

Norðmenn hafa við mótun húsnæðisstefnu leitað nokkuð í smiðju sinna gömlu sambandsþjóða Svía og Dana, en umfram allt má þó segja að þeir hafi um margt mótað sér sína eigin stefnu í þessum málum.

Áhrif umbótahreyfinga

Þéttbýlismyndun í Noregi einkenndist frá byrjun af því að Osló var hlutfallslega stór miðað við aðrar borgir og bæi og miðað við heildaríbúafjölda Noregs og er svo raunar enn, þótt ekki beri Osló sama ægishjálm yfir aðra þéttbýlisstaði í Noregi og Reykjavík hefur gert hérlendis. Osló státar í dag af um 510 þúsund íbúum, í næststærstu borgunum eru íbúar hins vegar mun færri; 230 þúsund í Bergen og 150 þúsund í gamla kóngsbænum Þrándheimi (Niðarósi til forna). Samhliða iðnvæðingunni uxu borgir og bæir verulega á nítjándu öldinni, og varð vöxturinn örastur 1890-1900, er íbúum Oslóar fjölgaði um 76 þúsund manns á tíu árum.

Osló gekk í gegnum svipað þróunarmynstur og margar aðrar borgir á 19. öld, þar braust t.d. út kólerufaraldur árið 1850, sem kallaði á fyrstu aðgerðir velmeinandi betri borgara til þess að bæta húsnæðiskjör alþýðu. Í kjölfar byltingaróróans í Evrópu árið 1848 hafði einnig sprottið fram talsvert öflug róttæk baráttuhreyfing norsks verkafólks undir forystu guðfræðingsins og verkalýðsleiðtogans Marcusar Thrane og olli óttinn við hin rótæku öfl einnig auknum umbótavilja ráðandi afla hvað snerti almenn lífskjör, þar með talin húsnæðiskjör almúgafólks.

Í upphafi tuttugustu aldar voru byggingarfélög af mörgu tagi orðin öflug í Noregi og Norðmenn voru mjög vakandi fyrir ýmsum alþjóðlegum hugmyndastraumum á sviði félagsmála og húsnæðismála. Dæmi um slíkt er enska garðborgahugmyndin (Garden Cities) sem Ebenezer Howard kynnti í upphafi tuttugustu aldar og hafði mikil áhrif víða um heim á fyrstu áratugum aldarinnar. Einnig gætti hugmynda bandaríska hagspekingsins Henrys Georges í greiningum manna á orsökum þrengsla og hárrar húsaleigu í Osló og stærstu bæjunum.

Meðal fjölmargra umbótafrömuða í húsnæðismálum Norðmanna á þessum tíma má nefna Christian Gierløff, sem var einn helsti forystumaður "Norsk forening for boligreformer" sem stofnað var árið 1913. Félagið var hliðstætt áþekkum félögum sem spruttu upp víða í Evrópu á þessum tíma og mynduðu í raun alþjóðlega húsnæðisumbótahreyfingu hugsjónamanna. Þess má geta að bæklingur eftir Gierløff var þýddur og gefinn út hér á landi af fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík árið 1919 undir heitinu "Um byggingarfélög með samvinnusniði" og kom hann út í tengslum við stofnun Byggingarfélags Reykjavíkur árið 1919, fyrsta byggingaraðila félagslegs húsnæðis á Íslandi.

Húsnæðisstefna eftirstríðsáranna

Á stríðsárunum sátu ýmsir helstu forustumenn norska Verkamannaflokksins og annarra norskra stjórnmálaflokka í fangabúðum þýskra nasista, sumir í Sachsenhausen í Þýskalandi, en flestir í Grini-fangabúðunum í Noregi. Menn sátu þó ekki auðum höndum, heldur voru þeir önnum kafnir við að ræða og móta þá stefnu sem átti eftir að liggja til grundvallar hinu norska velferðarþjóðfélagi eftirstríðsáranna, þar á meðal stefnunnar í húsnæðismálum. Árið 1946 var hafist handa við hrinda hinni nýju húsnæðisstefnu í framkvæmd, annars vegar með stofnun sérstaks húsnæðisbanka, Den Norske Stats Husbank, og með stofnun Landssambands húsnæðissamvinnufélaga, NBBL (Norske boligbyggelags landsforbund).

Norski Húsbankinn hefur verið hrygglengjan í fjármögnun íbúðarbygginga í Noregi allar götur frá 1946 til dagsins í dag. Þegar Húsnæðismálastofnun ríkisins var sett á fót hér á landi á sjötta áratug síðustu aldar var um margt horft til norska Húsbankans sem fyrirmyndar. Næst á eftir Íbúðalánasjóði hér á Íslandi er norski Húsbankinn enn í dag öflugasta ríkislánastofnun á sviði húsnæðismála á Vesturlöndum.

Húsbankinn hefur verið gagnrýndur af hálfu samtaka norsku einkabankanna, sem leiddi til þess að bankinn var kærður til eftirlitsstofnunar EFTA fyrir óeðlilega samkeppni á lánamarkaði. Af hálfu Húsbankans var vísað til þess að þar sem bankinn starfaði að félagslegum markmiðum á sviði húsnæðismála ætti kæran ekki rétt á sér.

Norsku húsnæðissamvinnufélögin eru geysiöflug húsnæðishreyfing, sterkari húsnæðissamvinnusamtök fyrirfinnast raunar aðeins í einu öðru landi í veröldinni, þ.e. í Svíþjóð. Nálægt 20% alls húsnæðis í Noregi er í eigu húsnæðissamvinnufélaganna. Norðmenn hafa hins vegar ekki byggt upp öflugan félagslegan leiguíbúðageira eins og Danir og Svíar, þannig að framan af gegndu búseturéttaríbúðir húsnæðissamvinnufélaganna að nokkru því hlutverki. Á seinni árum hefur hins vegar eigið framlag íbúa búseturéttaríbúðanna hækkað það mikið að íbúðir innan þessa húsnæðisforms eru í vaxandi mæli setnar af millistéttarfólki. Þörfin fyrir félagslegar leiguíbúðir er hins vegar talin vaxandi í Noregi og viðleitni er nú uppi til þess að hefja byggingar slíkra íbúða í stórum stíl.