Gabríela Friðriksdóttir og Ásmundur Ásmundsson í nýju húsnæði Nýlistasafnsins.
Gabríela Friðriksdóttir og Ásmundur Ásmundsson í nýju húsnæði Nýlistasafnsins.
Segja má að það séu tímamót hjá Nýlistasafninu en ný stjórn hefur nú sest þar að völdum og safnið er flutt í nýtt húsnæði, úr bakhúsinu við Vatnsstíg 3 í framhúsið á sama stað. ÞRÖSTUR HELGASON ræddi við Ásmund Ásmundsson, formann stjórnarinnar, og Gabríelu Friðriksdóttur stjórnarmann um nýjar áherslur, en safnið mun einbeita sér meir að því að tengja íslenska myndlist við útlönd en hingað til.
NÝLISTASAFNIÐ er sjálfseignarstofnun sem rekin er af myndlistarmönnum. Safnið var stofnað 1978 og var frá 1979 til húsa í sama húsnæðinu, á Vatnsstíg 3b, fram undir síðustu áramót. En nú er safnið flutt í nýtt húsnæði og í þann mund að hefja fulla starfsemi í tveimur nýjum sýningarsölum. Í nýrri stjórn sitja Ásmundur Ásmundsson, formaður, Gabríela Friðriksdóttir, Ragnar Kjartansson, Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Anna Hallin en varamenn eru Elsa D. Gísladóttir, Magnús Sigurðarson og Helgi Hjaltalín, sem öll eru myndlistarmenn. Geir Svansson bókmenntafræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri safnsins.

Blaðamaður ræddi við þau Ásmund og Gabríelu um flutninga í nýtt húsnæði og stefnumörkun nýrrar stjórnar.

Tengsl við útlönd

Ný stjórn situr nú við stjórnvölinn í Nýló og ráðinn hefur verið nýr

framkvæmdastjóri. Má vænta mikilla breytinga á starfseminni eða listrænnar stefnubreytingar í kjölfarið? Hvernig skilgreinið þið til dæmis safnið og markmið þess? Hefur orðið einhver breyting þar á frá fyrri tíð?

"Listsamfélagið á Íslandi hefur eðlilega mikil áhrif á innri og ytri gerð safnsins. Sýningaraðstaða hér á landi hefur löngum verið mun lakari en víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum. En með tilkomu einkarekinna sýningarsala og stærri safna hefur listsamfélagið gerbreyst og Nýlistasafnið hefur þróast samkvæmt þessum breytingum. Sem dæmi má nefna að fyrir nokkrum árum var safnið rekið sem sýningaraðstaða fyrir félagsmenn og salirnir leigðir út en nú er listamönnum boðið að sýna verk sín sér að kostnaðarlausu.

Það má líka teljast til breytinga að einkageirinn tengist starfseminni meira en áður. Nýlistasafnið á t.d. í samstarfi við Menningarsjóð Íslandsbanka. Undanfarið hafa staðið yfir sýningar úr safneign Nýlistasafnsins í útibúum bankans og frekari verkefni eru í undirbúningi. Þetta samstarf er mikilvægt fyrir safnið og við væntum mikils af því á næstu misserum.

Þótt ýmsar jákvæðar breytingar hafi átt sér stað hefur Ísland samt dregist aftur úr í myndlistinni. Landfræðilegri einangrun er þar sjálfsagt um að kenna og svo vöntun á tengiliðum við hinn alþjóðlega listheim. Þetta ástand hefur orðið til þess að hlutverk Nýlistasafnsins sem tengiliður við sýningarstjóra, listamenn, gallerí og söfn erlendis hefur stækkað með hverju árinu og er það sameiginlegt álit allra nýju stjórnarmeðlimanna að hlutverk safnsins sem tengiliður við listheiminn sé afar mikilvægt og að því hlutverki beri að sinna af festu. Það þarf að leggja vinnu í að mynda sambönd, og ekki síður í að rækta þau. Það þekkja myndlistarmenn sem hafa numið erlendis; tengslin sem þeir ná að mynda vilja rofna þegar heim er komið. Fjarlægðinni er auðvitað um að kenna en jafnframt skilningsleysi hérlendis á mikilvægi þessara tengsla. Það er deginum ljósara að samræður og samgöngur við hinn stóra listheim eru myndlistinni alger nauðsyn, án þeirra einangrast hún og mannauðurinn fer forgörðum. Í stefnu nýju stjórnarinnar er því lögð rík áhersla á að bæta þessi samskipti með því að bjóða erlendum listamönnum að sýna í safninu. Safnið á líka að vera vettvangur fyrir heimsóknir sýningarstjóra og á að stuðla að því að koma á virkum samböndum við gallerí og söfn erlendis með það fyrir augum að kynna íslenska myndlistarmenn, tengja þá listheiminum og bjóða íslenskum listáhugamönnum upp á alþjóðlegar sýningar."

Býður upp á einbeittari starfsemi

Má ef til vill lesa einhverja táknræna merkingu í flutning safnsins úr bakhúsinu á Vatnsstíg í framhúsið? Eru auknir möguleikar fólgnir í nýja húsnæðinu?

"Nýju fólki fylgja alltaf nýjar hugmyndir, og í þessu tilviki einnig nýtt húsnæði. Núverandi stjórn er bjartsýn á framtíðina og vinnur af kappi að því að skipuleggja starfsemina þannig að úr verði ennþá betra Nýlistasafn í nýja sýningarrýminu. Margir sakna auðvitað möguleikanna í gamla safninu en þegar þessu er gefinn nánari gaumur þá var gamla húsnæðið í raun of stórt í sniðum og nýttist ekki sem skyldi. Nýja húsnæðið er einfaldara og býður upp á einbeittari starfsemi. Þótt tilfærslan sé ekki mikil er safnið sýnilegra og betur tengt við götuna. Við höfum þegar orðið vör við það að fólk lítur frekar inn fyrir forvitni sakir en áður þegar safnið var í bakhúsi, svona pínu "öndergránd". Nú gefst tækifæri á að móta húsnæðið nákvæmlega eftir þeirri starfsemi sem þar fer fram og er unnið að því í þessum töluðum orðum ásamt arkitektum að hanna salina samkvæmt listarinnar kúnstum og ekki síst að gera þá þannig úr garði að aðstaðan standist þær kröfur sem gerðar eru um svona starfsemi. Góð myndlist er auðvitað það sem mestu skiptir og núverandi stjórn leggur áherslu á metnaðarfullar sýningar og áhugaverðar uppákomur."

Yngsta kynslóðin er róttæk og jarðbundin í senn

Sýningin sem hefst í dag, Grasrót, gefur til kynna að safnið tengi sig við eða vilji leggja rækt við grasrótina. Eða hvað? Það er kannski undarlega spurt en hvar liggur grasrótin í íslenskri myndlist nú? Og fyrir hvað stendur grasrótin í dag? Er hún róttæk? Eða er hún jarðbundin? Er hún ef til vill upprifin yfir einhverju sérstöku? Sumir segja að það gerist aldrei neitt. Aðrir segja að allt geri sig? Er grasrótin kannski rótlaus?

"Nýlistasafnið varð til af nauðsyn og er nauðsynlegur vettvangur myndlistar á Íslandi. Það er sú stofnun sem sinnir yngstu kynslóð listamanna hvað best og leggur sig fram um að fylgjast grannt með og þjóna ungum listamönnum. Grasrótarnafnið virðist hafa fest við ákveðinn hóp manna í myndlistarsamfélaginu á Íslandi, enda margir ungir í anda hér allt til dauðadags, en orðið þýðir í raun það sem sprettur upp á yfirborðið. Það er forvitnilegt að skoða það sem ungu listamennirnir, sem nú spretta upp af rótinni, hafa upp á að bjóða á þessari sýningu; það ætti að gefa vísbendingu um hvert stefnir. Yngsta kynslóðin er róttæk og jarðbundin í senn. Hún er óhrædd við að koma fram á sínum eigin forsendum, blandar saman straumum og stefnum þannig að forhertir varðmenn hefðarinnar finna sig hvergi í henni. Hún virðist óeigingjarnari en oft áður og á auðvelt með samvinnu; fer inn á hvaða svið sem henni hentar, virðir ýmist gamla miðla eða vanvirðir. Grasrótin nú er hugrökk og víðsýn og leggur sig fram um að nýta allan þann mýgrút af möguleikum sem fyrir hendi eru. Þeir sem segja að "ekkert sé að gerast" eru sérstaklega velkomnir á sýninguna; þar gefst tækifæri til þess að endurskoða málið innan um fersk verk yngstu kynslóðarinnar. Þarna á margt eftir að gera sig. Ef til vill eru þarna einhverjir af ætt rótleysingja en flestir eru þó sammála um að frumleikinn sé af foreldrum fæddur þó svo að birtingarmynd hans geti oft verið afar óljós."

Margt í bígerð

Hvað er á döfinni?

"Dagskráin framundan er afar fjölbreytt: Næsti viðburður í Nýlistasafninu á eftir Grasrótinni er sýning þeirra Magnúsar Pálssonar, Wolfgangs Muellers og Erics Andersens sem þeir kalla "Flökt" en gæti allt eins heitið "Grasrót 2002" því þessir þrír kappar eru síungir og koma ævinlega á óvart. Á eftir þeim sýna Ransú og Giovanni Garcia-Fenech. Auk sýninga verða svo styttri uppákomur af ýmsu tagi, tónleikar, fyrirlestrar, kynningarkvöld og gjörningar. Í nóvemberbyrjun verða t.d. tónleikar/uppákomur með breskum listamönnum sem kenna sig við Artificial Paradises. Í nóvember verður einnig dagskrá tileinkuð Degi Sigurðarsyni. Margt annað er bígerð og sumt sem á eftir að koma á óvart."

throstur@mbl.is