KATLA Travel gekk nýverið frá samningi við þýska leiguflugfélagið Condor um flug til Íslands árið 2003. Flogið verður frá Berlín, Frankfurt og München frá 1. maí til 25. september á næsta ári.

KATLA Travel gekk nýverið frá samningi við þýska leiguflugfélagið Condor um flug til Íslands árið 2003.

Flogið verður frá Berlín, Frankfurt og München frá 1. maí til 25. september á næsta ári.

Flogið verður tvisvar í viku frá Berlín með tengiflugi við Frankfurt og München og einu sinni í viku frá Frankfurt og München. Sætaframboð alls verður því um 18.000 sæti. Flogið verður með nýjum Airbus 320 flugvélum, með 174 sætum.

Katla Travel GmbH er þýskt ferðaheildsölufyrirtæki í eigu Íslendinga, með höfuðstöðvar í München í Suður-Þýskalandi og þjónustuskrifstofu í Reykjavík. Katla Travel sérhæfir sig í sölu Íslandsferða frá Þýskalandi og Austurríki. Samningur Katla Travel við Condor er viðleitni til að lengja ferðamannatímabilið á Íslandi um samtals níu vikur, miðað við leiguflug fyrirtækisins árið 2002. Sumarið 2002 var Katla Travel með eigið leiguflug frá München, Frankfurt og Berlín og flutti rúmlega 5.000 farþega til landsins. Á milli áranna 2001 og 2002 varð rúmlega 10% aukning í fjölda gesta til Íslands á vegum Katla Travel. Ferðaskrifstofan Terra Nova Sól mun sjá um sölu leiguflugsins frá Íslandi til Þýskalands.

Katla Travel í samvinnu við þýsk-breska ferðaheildsölufyrirtækið Thomas Cook hefur leitað eftir samstarfi við íslensk ferðamálayfirvöld um markaðsátak í Þýskalandi, sem hefur lengingu ferðamannatímans á Íslandi að markmiði. Málið verður kynnt og rætt nánar á Vest Norden ferðaráðstefnunni á Akureyri 9.-11. september nk.