Tarfurinn sjálfur lætur gítarinn væla.
Tarfurinn sjálfur lætur gítarinn væla.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Quarashi halda heimkomutónleika í Höllinni á morgun. Gítarleikari sveitarinnar, Smári "Tarfur" Jósepsson, segir hér frá heimsreisu sveitarinnar ásamt eigin tónleikahátíðarflandri.

ALVEG frá því að ég byrjaði að spila á hljóðfæri og fylgjast með tónlist, hefur mig alltaf langað að upplifa að fara í alvöru tónleikaferð um heiminn. Það var því kærkomið tækifæri að vera beðinn um að vera hjálparhækja Quarashi á ferðalagi þeirra um Ameríku, Kanada, Japan og Ástralíu í sumar. Ferðin var lengi í fæðingu, enda í mörg horn að líta, og mannskapurinn réð sér vart fyrir spennu þegar líða tók að ferðinni. Það var svo um miðjan maí sem við lögðum loks af stað í ferðalagið sem átti eftir að verða algjört ævintýri þegar upp var staðið.

Þvers og kruss um Ameríku

Förinni var fyrst heitið til New York en þar átti að slá upp bækistöðvum fyrir fyrstu tónleikarispuna. Á flugvellinum tók á móti okkur Sven nokkur Adams, hálfur Svíi og hálfur Ameríkani, og reyndist hann vera framkvæmdastjóri tónleikaferðalagsins. Næsta mánuðinn var planið að halda fyrir í New York á virkum dögum en spila á útvarpshátíðum hingað og þangað um Ameríku um helgar. Það var ekki laust við það að maður fengi í magann þegar okkur barst listi yfir hljómsveitirnar sem við áttum að spila með: Incubus, System Of A Down, Green Day, Blink 182, Eminem og ég veit ekki hvað og hvað! Fyrstu helgina héldum við til Pittsburgh, þaðan til Chicago og loks til St. Louis áður en við héldum aftur til New York. Við vissum ekkert við hverju við ættum að búast en þegar á hólminn var komið var dágóður slatti af fólki (sjálfsagt í kringum 5 þúsund manns) sem kom að kíkja á íslensku guttana. Á virku dögunum í New York var síðan hitt og þetta á dagskránni. Viðtöl fyrir suma, NBA-leikir fyrir aðra; sem sagt ýmislegt gert til að drepa tímann. Við tókum upp eitt stykki sjónvarpsþátt (Carson Daily) á sjónvarpsstöðinni NBC og var rapparinn Mos Def gestur þáttarins ásamt okkur.

Önnur helgin var ekki síður spennandi en sú fyrri. Til stóð að spila í Minneapolis á föstudegi, og fljúga þaðan til Washington og spila á 60 þúsund manna hátíð þar ásamt Eminem. Það er, held ég, mesta upplifun sem ég hef orðið fyrir, að spila fyrir framan hátt í 40 þúsund manns. Því miður fór allt úr böndunum þegar Eminem spilaði og þurfti að flytja eitthvað í kringum 20 manns á spítala. Eftir að útvarpstónleikatörninni lauk fengum við svo u.þ.b. vikufrí í Los Angeles. Þaðan flugum við til Boise í Idaho fylki þar sem Warped-hátíðin átti að byrja daginn eftir. Warped-hátíðin er þekkt fyrir að vera eitthvert erfiðasta tónleikaferðalag sem hægt er að leggja upp í. Það er ekki bara það að dagskráin sé þétt (41 tónleikar á 50 dögum) heldur er hitinn yfirleitt milli 30 og 40 gráður á þessum tíma.

Allt að gerast

Á Warped mátti finna skemmtilegan þverskurð tónlistarstefna. Uppistaðan var pönkbönd (N.O.F.X., Bad Religion, The Casualties), harðkjarnasveitir prýddu líka dagskrána (Death By Stereo, Thursday, Boy Sets Fire), þungarokkið var þá á sínum stað (Everytime I Die, Switched, Throwdown) og blessað reggíið var meira að segja mætt (Morgan Heritage). Þá mátti sjá þarna furðufuglapopp (Andrew WK) og rapprokk (Quarashi, 3rd Strike) svo eitthvað sé nefnt. Einnig voru listamenn á mótorhjólum, hjólabrettum og BMX-hjólum að sýna listir sínar. Á flugvellinum tók bílstjóri sumarsins á móti okkur með rútuna sem við áttum að búa í næstu tvo mánuði. Í rútunni voru 12 kojur, setustofa með gervihnattasjónvarpi, DVD-spilara og leikjatölvum, og lítið eldhús með setustofu. Við vorum búnir að skrattast á milli hótela og flugvalla í mánuð og þess vegna vel spenntir yfir því að eiga loksins einhvers konar heimili. Bílstjórinn okkar reyndist gamall í hettunni, búinn að keyra fyrir New Kids On The Block og var áður plötusnúður hjá Vanilla Ice! Ekki sem verst og alls ekki sem best heldur!

Dagarnir hjá okkur tóku fljótlega á sig netta rútínu. Maður vaknaði upp úr níuleytinu, tók rölt og skoðaði svæðið, fékk sér morgunmat og upp úr hálfellefu fengum við að vita hvenær við ættum að spila. Það gat verið allt frá hádegi til níu að kvöldi. Hvernig svo sem það nú var, naut maður dagsins til hins ýtrasta. Kíkti á bönd, spjallaði við tónleikagesti, fylgdist með hjólabrettagaurum eða fór að veiða! Nóg um að vera. Það var svo um miðjan ágúst sem Warped-hátíðin tók enda. Þá var búið að fara þvert og endilangt um Ameríku og spila í helstu borgum hvers fylkis. Við enduðum á Randall's Island í New Jersey, hentumst upp í flugvél og flugum til Tókýó en þar áttum við að spila á árlegri hátíð sem kallast Summer Sonic. Þetta er tveggja daga pakki með um 40 hljómsveitir á boðstólum. Þar á meðal voru Guns'n'Roses (sem voru aðalnúmer hátíðarinnar), Suede, Andrew W.K., The Offspring, Weezer, Hoobastank og síðast en ekki síst finnsku ellismellirnir í Hanoi Rocks. Til marks um aldur þeirra má geta þess að gítarleikarinn studdist við hækju meðan hann spilaði!

Slakað á í Japan

Við áttum svo nokkurra daga frí í Tókýó þannig að við höfðum smátíma til að skoða okkur um og kynnast fólkinu. Við vorum sammála um að þetta væri skemmtilegasti staðurinn hingað til og fólkið algjörir höfðingjar heim að sækja. Tónleikarnir voru á stórum hafnaboltavelli rétt fyrir utan borgina og þegar við komum á svæðið var fólkið byrjað að streyma inn. Við spiluðum nánast sömu lagaskrá á hátíðinni með nokkrum smávægilegum breytingum. Það var mögnuð tilfinning að sjá 25 þúsund manns hoppa í takt við tónlistina allan tímann og var þetta tvímælalaust mesta stemmning sem ég hef upplifað. Eftir tónleikana flugum við til Osaka en þar áttum við að spila á síðasta degi hátíðarinnar. Okkur til mikillar gleði uppgötvuðum við að múm var að spila á þessari sömu hátíð en hljómsveitirnar voru á hvor á sínum staðnum báða daganna sem gerði það að verkum að því miður gátum við ekki hist.

Eftir að Summer Sonic-hátíðinni lauk flugum við til Brisbane í Ástralíu en þar áttum við að spila í beinni útsendingu í tónlistarsjónvarpi sem kallast Channel V og er sent út um alla Ástralíu. Hér vorum við í góðum höndum fyrirtækis sem heitir Suburban Force og sá það um allar okkar þarfir. Útsendingin gekk ekki klakklaust fyrir sig, tölvan dó, þráðlausu hljóðnemarnir stóðu á sér og við vorum svo pirraðir að við rústuðum sviðið í lokin á laginu "Stick'em Up"!

Stuð með Tommy Lee

Eftir skemmtilega dvöl og vel heppnaða tónleika í Ástralíu, lá leiðin loks heim (fyrir suma). Framundan var um sólarhringsflug heim til Íslands aftur og þriggja mánaða lotu nánast lokið. Ég ákvað þó að verða eftir í Los Angeles því hljómsveitin Switched bauð mér að rúlla með sér á Ozzfest í viku (tónleikahátíð sem stýrt er af rokkkónginum Ozzy Osbourne). Ég þáði það með þökkum enda dágóður slatti af góðum böndum á boðstólum. Fyrsta Ozzfestið var í San Francisco í Kaliforníu og voru meðlimir Switched í góðu stuði enda hentaði Ozzfest þeim mun betur en Warped-hátíðin. Í millitíðinni höfðu þeir farið í tónleikaferðalag til að hita upp fyrir Tommy Lee og hann var tíður gestur í Switched-rútunni þessa viku sem ég var með í för. Ég var ekki með baksviðspassa á þessum fyrstu tónleikum en öðlingurinn Tommy Lee sá um að fylgja mér hvert sem ég vildi. Fyrst á dagskránni var að berja The Apex Theory augum en Quarashi voru svo heppnir að fá að hita upp fyrir þá í vor á MTV2-hátíðinni. Flestir meðlimir hljómsveitarinnar eru frá Armeníu og var söngvari þeirra áður trommari hjá System Of A Down (sem voru einmitt eitt af aðalnúmerum Ozzfest). Það var hrein unun að horfa og hlusta á Apex Theory. Þeir tóku nokkur vel valin lög af meistarastykkinu Topsy-Turvy og hátt í 5 þúsund manns tóku vel undir með þeim. Eitt allra skemmtilegasta rokkband dagsins í dag. Eftir að The Apex Theory hafði lokið sér af tók ég smátíma í að skoða svæðið. Ozzy var með nóg í boði eins og venjulega; hægt var að fara í teygjustökk, fá sér húðflúr, kaupa sér föt af ýmsum toga, fá sér gat í líkamann og margt margt fleira. Nú fór að líða að hápunkti hátíðarinnar því sænsku snillingarnir í Meshuggah voru við það að stíga á svið þegar ég kom úr labbitúrnum. Meshuggah hafa aukið vinsældir sínar til muna vestan hafs og sérstaklega eftir að Jack Osbourne (sonur Ozzy) fór að spila tónlistina þeirra í sjónvarpsþættinum The Osbournes sem er einn vinsælasti sjónvarpsþáttur Ameríku um þessar mundir. Meshuggah steig á stokk með miklum látum og áhorfendur kunnu vel að meta níðþunga tónlistina. Margir úr öðrum hljómsveitum hátíðarinnar (Down, System Of A Down, Ozzy Osbourne og Glassjaw) voru mættir til að horfa á Svíana. Bróðurpartur efnisskrárinnar var af meistaraverkinu Chaosphere en þeir tóku einnig nokkur lög af plötunni Destroy Erase Improve. Eftir tónleikana fór ég svo að veiða með einum af gítarleikurum sveitarinnar og æfði mig í sænskunni. Hann sagði að sumarið hefði gengið framar öllum vonum og var ánægður með hversu marga nýja aðdáendur hljómsveitin hafði eignast. Ég spurði hvort það væru einhverjar líkur á að þeir myndu spila á Íslandi og var hann vongóður um að það myndi gerast einhverntímann í vor þegar dagskránni í Bandaríkjunum væri lokið.

Vonbrigði ... en svo léttir

Mestu vonbrigði Ozzfest voru Down (sem er samsuða úr Pantera, Corrosion Of Conformity og Crowbar) með Phil Anselmo í broddi fylkingar. Þeir þurftu nánast hjálp á sviðið vegna þess hversu dópaðir þeir voru og gátu svo varla spilað þegar þangað var komið. Ekki mikil fagmennska þar á ferð. Eftir að hafa horft á Hatebreed, System Of A Down og Rob Zombie var loksins komið að aðalnúmeri hátíðarinnar, sjálfum Ozzy Osbourne. Hljómsveit hans var stjörnum prýdd svo ekki sé meira sagt. Sjálfur Zakk Wylde á gítarnum, Mike Bordin úr Faith No More á trommum og Rob Trujillo úr Suicidal Tendencies á bassa. Ozzy hóf tónleikana á að spila 10 mínútna kynningarmyndband fyrir viðstadda þar sem hann hann gerði nett grín að Madonnu, Ali G, Saddam Hussein og fleirum. Hann steig svo loks sjálfur á svið við mikinn fögnuð áhorfenda og hóf leikinn. Ætla má að um 60 þúsund manns hafi verið á stóra sviðinu meðan hann spilaði. Hann tók nokkur vel valin Black Sabbath-lög í bland við eigið efni og djöflaðist fram og aftur sviðsenda á milli allan tímann. Alveg merkilegt að hann skuli geta þetta ennþá, fimmtugur maðurinn. Eftir tónleikana tók ég stefnuna á Los Angeles en ég þurfti að ná flugvél til London daginn eftir. Fyrir lá að spila á einum tónleikum með Switched í Camden í London og fljúga svo heim daginn eftir. Ég varð orðinn langeygur eftir heimförinni enda búinn að vera á ferðalagi í þrjá og hálfan mánuð samfleytt.

En þegar uppi var staðið var þessi ferð í alla staði frábær og sannarlega einstök forréttindi að fá að hafa fengið að taka þátt í þessu ævintýri með Quarashi-strákunum.