DREIFÐ eignaraðild er ekki heppileg í kjölfar ríkiseignar viðskiptabanka enda þarf sterkan og afgerandi aðila til að færa reksturinn sem fyrst til betri vegar, að mati dr.

DREIFÐ eignaraðild er ekki heppileg í kjölfar ríkiseignar viðskiptabanka enda þarf sterkan og afgerandi aðila til að færa reksturinn sem fyrst til betri vegar, að mati dr. Michael Sautter, forstjóra fjárfestingarbankahluta Société Générale í Þýskalandi og Austurríki.

Dr. Sautter hefur átt þátt í nokkrum einkavæðingarverkefnum ríkisrekinna bankastofnana í heiminum. Til dæmis kom hann talsvert við sögu þegar stærsti bankinn í Ísrael var einkavæddur auk þess sem hann var mjög viðriðinn einkavæðingu stærsta bankans á Grikklandi, sem hann segir um margt líkan Landsbanka Íslands.

Sautter var staddur hérlendis á dögunum sem ráðgjafi hins svokallaða S-hóps, sem lýst hefur áhuga á að kaupa hlut ríkisins í Landsbanka Íslands. Þá hitti hann að máli ýmsa þá aðila sem að sölunni koma, þ.ám. framkvæmdanefnd um einkavæðingu.

Sterk forysta lykilatriði

Sautter segist hafa dregið fjórþættan lærdóm af þeim einkavæðingum sem hann hefur verið viðriðinn og horft upp á.

Í fyrsta lagi sé lykilatriði að sterkir aðilar taki við forystuhlutverki í bankanum þegar rekstrarforminu er breytt úr ríkisfyrirtæki í einkafyrirtæki. "Hlutirnir ganga hraðar og öruggar fyrir sig þegar einhver einn sterkur aðili er við stjórnvölinn í bankanum og tekur stjórnina í sínar hendur í kjölfar einkavæðingar fremur en að margir litlir aðilar reyni að koma sér saman um stjórnunina. Mín reynsla er sú að best er að taka milliskref að mjög dreifðri eignaraðild banka, í stað þess að fara með hann beint yfir í það form úr ríkiseigu. Milliskrefið felst þá í því að fá öflugan aðila til að koma bankanum í það horf sem þarf.

Þegar bankinn hefur verið styrktur, honum hefur verið snúið til betri vegar, hann er orðinn skilvirkari og í takt við alþjóðlega mælikvarða þá er í sjálfu sér ekkert í vegi fyrir frekari dreifingu eignaraðildarinnar," segir Sautter en leggur ríka áherslu á að sterka forystu þurfi a.m.k. til bráðabirgða.

"Hvað sem þú gerir, þarftu einn sterkan fjárfesti til að byrja með. Þegar um er að ræða marga smærri fjárfesta þá ganga hlutirnir ekki eins hratt fyrir sig. Allar breytingar taka að sjálfsögðu miklu lengri tíma þegar margir vilja fara með völdin en enginn telur sig bera ábyrgðina."

Skýr stefna og gott fólk

Annað, sem Sautter segir afar mikilvægt, er að sá sem fer með völd í bankanum eftir einkavæðingu hafi fram að færa mótaða stefnu um þróun og framgang bankans til framtíðar. "Hann þarf að vera í í stakk búinn til að sjá bankanum fyrir nýjum tækifærum og valkostum. Þetta má t.d. gera með því að bæta vörur, þjónustu og vinnslu, eða bæta við öðrum fjármálastofnunum. Það hefur mikla þýðingu að hann sjái fyrir sér hver þróunin á að verða."

Þriðja atriðið sem Sautter telur að skipti máli við einkavæðingu er fólkið sem að henni kemur. "Það þarf einfaldlega framúrskarandi stjórnendur til að fylgja slíku eftir. Það ætti í sjálfu sér ekki að koma á óvart, fólkið skiptir gjarnan mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft. "

Í fjórða lagi segir Sautter gott tengslanet og drifkraft skipta máli. "Til þess að banki geti þrifist og orðið farsæll þá þarf bæði staðbundið og alþjóðlegt net tengiliða og meðspilara, möguleika á bandalögum og svo framvegis. Þetta er vegna þess að bankastarfsemi byggist mjög mikið á slíkum tengslum, þau eru bönkunum nauðsynleg."

Rétt markmið einkavæðingarnefndar

Sautter er fylgjandi einkavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Hann kveðst þeirrar skoðunar að banki í einkaeigu verði alltaf betri banki en sá sem er í ríkiseigu enda séu önnur sjónarmið sem ráði ferðinni í rekstrinum. Hann segir ljóst að þegar hartnær helmingur hlutafjár er í eigu ríkisins en rúmur helmingur í dreifðri eign, sé vart hægt að gera ráð fyrir miklum breytingum frá því að vera að fullu í ríkiseigu.

Hann er ennfremur þeirrar skoðunar að markmið einkavæðingarnefndar með einkavæðingu bankanna séu rétt. "Það er þjóðinni mikilvægt að samkeppni sé tryggð á þessum markaði, að góð bankaþjónusta fáist og sanngjörn verð. Þið viljið betri fjármagnsmarkað á Íslandi, enda er það mikilvægt fyrir þróun viðskiptalífsins að hafa sterka banka. Jafnframt þurfið þið sterka og skilvirka banka vegna þess að það er nauðsynleg forsenda stöðugleika," segir dr. Michael Sautter.