MORGUNBLAÐIÐ hefur í gær og fyrradag, í tveimur greinum skrifuðum á ritstjórn blaðsins, sagt að Flugleiðir geti sjálfum sér um kennt og það sé bein afleiðing af markaðsstarfi félagsins að flugfreyjur íslensks flugfélags séu sýndar í vafasömum félagsskap...

MORGUNBLAÐIÐ hefur í gær og fyrradag, í tveimur greinum skrifuðum á ritstjórn blaðsins, sagt að Flugleiðir geti sjálfum sér um kennt og það sé bein afleiðing af markaðsstarfi félagsins að flugfreyjur íslensks flugfélags séu sýndar í vafasömum félagsskap í nýjasta þætti Sopranos í Bandaríkjunum.

Það er afar ósanngjarnt að setja samasemmerki á milli landkynningarstarfs fyrir Ísland undanfarna áratugi og þess að "starfsfólk Icelandic Air" sé sýnt í amerískri glæpamynd við grófar, ósiðlegar og ólöglegar athafnir.

Í þessum greinum í Morgunblaðinu, sérstaklega viðhorfsgrein eftir Steingerði Ólafsdóttur í gær, er dregin upp sú mynd af kynningarstarfi Flugleiða undanfarna áratugi að það hafi meira og minna snúist um að laða hingað karla í kynlífsleit. Það er fjarri sanni.

Flugleiðir hafa um áratuga skeið borið að langmestu leyti ábyrgð á markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Þúsundir starfsmanna okkar hafa komið að þeirri vinnu og ómældum fjármunum hefur verið varið í gerð auglýsinga og annars kynningarefnis á þeim mörkuðum sem unnið er á. Minnst af þessu kynningarefni ber fyrir sjónir Íslendinga sjálfra. En afleiðingin af þessu starfi er miklum mun sterkari ímynd landsins en áður var, hin gríðarlega fjölgun ferðamanna til landsins á undanförnum árum og sú staðreynd að ferðaþjónustan er nú annar stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur Íslendinga.

Við gerð allra þeirra þúsunda auglýsinga, plakata, bæklinga og annars kynningarefnis sem framleitt hefur verið með ágætum árangri í þessum tilgangi af Flugleiðum úti á hinum ólíku mörkuðum hefur sumt heppnast betur en annað. Í örfáum tilvikum hafa verið gerðar auglýsingar sem hafa verið gerðar að umræðuefni hér heima og einhverjum fundist orka tvímælis. Flestir kannast við þessi dæmi: Auglýsingu í Svíþjóð um 1980 með ljósmynd af þremur stúlkum í lopapeysu, auglýsingu í London um 1990 sem ætlað var að fá ferðafólk til að hafa viðdvöl í eina nótt á Íslandi á leið yfir hafið sem hét One Night Stand og nú síðast auglýsingu sem gerð var í samvinnu við Ferðamálaráð þar sem undir mynd af brosandi fólki í bláa lóninu, með hvíta leðju framan í sér, stóð textinn Fancy a Dirty Weekend? Engin þessara auglýsinga hefur nokkru sinni birst í heimalandi Tony Sopranos.

Þetta eru þrjár auglýsingar af nokkrum þúsundum. Eflaust má finna fleiri dæmi í því gríðarlega flóði auglýsinga og kynningarbæklinga um íslenska náttúru og íslenska menningu þar sem gripið hefur verið til orðaleikja sem einhverjum hafa fundist tvíræðir. En að halda því fram að það sé inntakið í markaðsstarfi Flugleiða fyrir Ísland er fjarstæða. Besti mælikvarðinn á eðli markaðsstarfsins eru þeir ferðamenn sem koma til landsins. Til hvaða hóps höfða auglýsingarnar? Allir landsmenn verða varir við ferðamennina nú orðið. Hvernig fólk er það? Svarið er einfalt: Þetta er upp til hópa fyrirmyndarfólk, vel menntað fólk af báðum kynjum sem kemur til landsins vegna náttúrunnar, menningarinnar, sögunnar, og einnig til að skemmta sér.

Nákvæmlega eins og við Íslendingar gerum þegar við ferðumst. Nákvæmlega ferðamennirnir sem við viljum helst fá.

Þegar umfjöllun erlendra fjölmiðla um land og þjóð eykst jafnt og þétt fer ekki hjá því að sitthvað misjafnt fljóti með. Í Hollywood-myndinni Mighty Ducks sem gerð var fyrir nokkrum árum var íshokký-lið unglinga frá Íslandi sýnt sem samsafn af dónum og fautum. Í næstu James Bond-mynd mun víst vondi maðurinn sem ætlar að tortíma heimsbyggðinni vera búsettur á Íslandi. Ég held að það hafi ekkert með markaðssetningu á íslenskum körlum og börnum að gera.

Guðjón Arngrímsson,

upplýsingafulltrúi Flugleiða.