BJÖRN Bjarnason, alþingismaður og fulltrúi sjálfstæðismanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, segir að Evrópusambandstilskipun sú sem frumvarp til nýrra raforkulaga, byggist m.a. á, sé sniðin að allt öðrum kringumstæðum en hér á landi.
BJÖRN Bjarnason, alþingismaður og fulltrúi sjálfstæðismanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, segir að Evrópusambandstilskipun sú sem frumvarp til nýrra raforkulaga, byggist m.a. á, sé sniðin að allt öðrum kringumstæðum en hér á landi. Hann skilji því ekki hvers vegna ekki hafi verið leitað eftir undanþágu fyrir Ísland frá tilskipuninni. Árni Steinar Jóhannsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, kveðst einnig vera þeirrar skoðunar að Ísland eigi að sækja um undanþágu frá tilskipuninni. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leggur áherslu á að fara þurfi vel yfir frumvarpið til nýrra raforkulaga.

Umrætt frumvarp var lagt fram á Alþingi til kynningar sl. vor, en það er einkum komið til vegna tilskipunar ESB um innri markað raforku í ríkjum Evrópu, bæði innan ESB og Evrópska efnahagssvæðisins. Tilskipunin gerir kröfu um jafnrétti til vinnslu og sölu á raforku þannig að lagalegar hindranir standi ekki í vegi fyrir samkeppni. Samkvæmt tilskipuninni átti að vera búið að innleiða hana, hér á landi, 1. júlí sl., en miðað við núverandi útgáfu frumvarpsins, sem leggja á fram á næsta þingi, er gert ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. janúar 2003.

"Ég hef látið í ljós þá skoðun innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að hafa verði hagsmuni viðskiptavina fyrirtækisins að leiðarljósi við mat á þessu máli," segir Björn Bjarnason. "Fram hefur komið í stjórninni, að verði frumvarp til nýrra raforkulaga, sem sagt er taka mið af tilskipun Evrópusambandsins (ESB) að lögum, muni raforkuverð hækka. Nú hafa verið flutt tvö frumvörp byggð á þessari tilskipun, en þau eru ekki samhljóða. Þetta segir, að tilskipunin er rúm. Spurning er, hvort allir kostir innan ramma hennar hafi verið kannaðir til hlítar með hliðsjón af hagsmunum íslenskra neytenda."

Megum ekki skjóta okkur í fótinn

Björn Bjarnason segist skilja áhyggjur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, af því, að ekki skuli staðið við tímasetningar við að lögfesta tilskipun ESB hér landi. "Hins vegar skil ég ekki, hvers vegna ekki hefur þegar verið leitað eftir undanþágu fyrir Ísland frá þessari tilskipun. Hún er sniðin að allt öðrum aðstæðum en hér á landi. Er ekki skynsamlegra að beita sér fyrir undanþágu en standa í stappi við evrópskar eftirlitsstofnanir vegna tafa við tilskipun, sem ekki hefur tekist að lögfesta vegna mikillar andstöðu á heimavelli?" spyr Björn.

"Þegar ég hreyfði því í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, að kannað yrði til þrautar, hvort ekki væri unnt að snúa af þeirri braut að setja raforkumál hér inn í þetta stóra evrópska samhengi, var því vel tekið. Veit ég ekki annað en stjórnarformaður og forstjóri fyrirtækisins séu að vinna í samræmi við þá niðurstöðu stjórnarinnar." Björn segir sjálfsagt að nútímavæða rekstur íslenskra orkufyrirtækja og endurskipuleggja raforkubúskapinn með markaðssjónarmið að leiðarljósi. "Það verður hins vegar að gerast á innlendum forsendum, ESB-tilskipunin miðast ekki við þær."

Árni Steinar Jóhannsson, fulltrúi VG í iðnaðarnefnd Alþingis, segir að staða raforkumála í Evrópu sé allt önnur en hér á landi. "Við í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, lítum svo á að raforkukerfið hér á landi eigi að vera á félagslegum grunni," segir hann. "Við lítum á það sem eitt af stoðkerfum landsins." Aðspurður kveðst hann þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að leita eftir undanþágu frá umræddri tilskipun ESB.

Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar þingsins, bendir á að ýmsar athugasemdir hafi verið gerðar við frumvarpið, m.a. hafi komið fram athugasemdir frá Landsvirkjun og Rafmagnsveitu ríkisins. "Menn hafa af eðlilegum ástæðum efasemdir um það að til virkrar samkeppni geti komið í dreifbýli Íslands," útskýrir hann. Hann segir að menn hafi einnig horft til þess að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir mjög flóknu eftirlitskerfi, sem menn óttist að verði dýrt í framkvæmd. "Einnig hafa menn efasemdir um það hvernig staðið verði að þeirri jöfnun á raforkukostnaði sem lögð er til," segir hann. "Efasemdirnar hafa ekki bara komið frá dreifbýlisfólki heldur hafa þær einnig komið frá þéttbýlinu." Einar Oddur leggur því áherslu á að farið verði vel yfir frumvarpið. "Ég er alls ekki að halda því fram að ýmislegt í frumvarpinu horfi ekki til framfara en við þurfum að gaumgæfa það vel svo við séum ekki að skjóta okkur í fótinn."