3. október 2002 | Viðskiptablað | 659 orð

Rökhyggja í fjárfestingum

Nokkrum dögum eftir komuna til Bandaríkjanna árið 1987 í framhaldsnám fór ég í fyrsta sinn í stórmarkað. K-Mart hét verslunin. Hún var skítug og það var vond lykt frá poppkornsvélinni sem var staðsett við innganginn.
Nokkrum dögum eftir komuna til Bandaríkjanna árið 1987 í framhaldsnám fór ég í fyrsta sinn í stórmarkað. K-Mart hét verslunin. Hún var skítug og það var vond lykt frá poppkornsvélinni sem var staðsett við innganginn. Vörurnar voru hins vegar ódýrar og vöruúrval gott. Örfáum vikum síðar fór ég í aðra verslun sem hafði nýlega opnað. Í stað vondrar poppkornslyktar bauð hlýleg eldri kona mig velkominn, verslunin var hreinleg og vöruúrval og verð jafnvel enn álitlegra en í K-Mart. Eftir þá reynslu beindi ég viðskiptum nánast undantekningarlaust til þessarar síðarnefndu verslunnar, Wal-Mart. Fimmtán árum síðar hefur gengi þessara tveggja verslunarkeðja verið með ólíkindum, þó með mjög mismunandi hætti. K-Mart verslunarkeðjan fór í greiðslustöðvun í upphafi ársins eftir mögur ár. Wal-Mart hefur aftur á móti dafnað svo um munar og er orðið eitt af þekktustu og verðmætustu fyrirtækjum heims. Hefði ég fjárfest einhverja upphæð í Wal-Mart á sínum tíma, sem ég vel að merkja hafði alls ekki efni á, hefði sú upphæð fimmtánfaldast í virði á því tímabili. Reyndar átti ég eftir að komast í kynni við mörg önnur fyrirtæki sem ég kunni afar vel að meta, t.d. Home Depot, Target og Circuit City sem hafa reynst hluthöfum sínum afar vel.

Að notfæra sér upplýsingar í anda ofangreindrar reynslu er ein af meginstoðum þeirrar hugmyndafræði sem Peter Lynch fjallar um í bókum sínum One Up On Wall Street og Beating The Street. Lynch er þekktasti sjóðsstjóri sögunnar enda stýrði hann Fidelity Magellan-sjóðnum með slíkum ágætum að sjóðurinn er stærsti hlutabréfasjóður Bandaríkjanna í dag.

Í bókunum lýsir Lynch hugmyndafræði sinni við að fjárfesta í fyrirtækjum sem ekki aðeins aukast að verðgildi, heldur margfaldast í sumum tilfellum á nokkrum árum. Þessi hugmyndafræði var lykill að velgegni hans sem sjóðsstjóra. Lynch, sem nam sagnfræði og heimspeki, telur að val á hlutabréfum sé list frekar en kunnátta við megindlegar (quantitative) rannsóknir. Hann heldur því fram að rökfræðin hafi hjálpað sér mest varðandi rannsóknir á fyrirtækjum og að eina nauðsynlega stærðfræðikunnáttan við val á hlutabréfum lærist í grunnskóla. Ein af einföldustu aðferðunum við að finna álitleg hlutabréf er að athuga stöðu þeirra fyrirtækja sem maður kann sjálfur vel að meta og skilur. Að mati Lynch eru slík tækifæri stöðugt á vegi okkur, spurningin er að hafa augun opin fyrir þeim. Lynch útskýrir með lifandi og oft hnyttnum hætti hvað eigi að leggja áherslu á varðandi val á fyrirtækjum og ferli við slíka rannsóknarvinnu. Hann leitar að vanmetnum fyrirtækjum frá ýmsum sjónarhornum. Þau felast í flestum tilfellum í því að finna fyrirtæki sem hafa ekki verið uppgötvuð en hafa mikla möguleika til að vaxa ört. Þó geta stór fyrirtæki í örum vexti verið skynsamar fjárfestingar ef möguleikar á því að viðhalda vextinum í mörg ár eru raunhæfir, og nefnir Lynch einmitt Wal-Mart sem dæmi í því samhengi. Lynch einbeitir sér að fyrirtækjum sem þykja almennt óspennandi og forðast tískufyrirtæki eins og heitan eldinn.

Eitt af grundvallarskilyrðum þess að fjárfest sé í fyrirtæki er að eiginfjárstaða þess sé í stakk búin að standast tímabundin áföll í rekstri þess, sem óhjákvæmilega koma upp hjá flestum fyrirtækjum.

Helsti annmarki bókanna er ef til vill það að Lynch fjallar lítið sem ekkert um skuldabréf og bendir á að skuldabréf gefa til lengri tíma mikið slakari ávöxtun en hlutabréf og því séu hlutabréf skynsamasti fjárfestingakosturinn. Þetta er alþekkt staðreynd en tímabilið sem hann starfaði sem sjóðsstjóri Magellan-sjóðsins hækkaði gengi hlutabréfa næstum því sleitulaust og því auðvelt að staðhæfa slíkt.

Eftir þriggja ára lækkunarhrinu á gengi hlutabréfa í dag er líklegt að slík rök falli í grýttari jarðveg. One Up On Wall Street kom upphaflega út árið 1989, en bókin Beating The Street fylgdi í kjölfarið fjórum árum síðar. Aðalkjarninn í hugmyndafræði Lynch er dreginn fram í fyrri bókinni en seinni bókin er á tíðum langdregin og ber þess augljós merki að vera nokkurs konar framhald. Það er tvímælalaust frekar hægt að mæla með One Up On Wall Street, enda vandfundin bók sem lýsir undirstöðuatriðum hlutabréfafjárfestinga með jafn skýrum og hnyttnum hætti.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.