EGYPSKUR seglbrettakappi nýtir byrinn fyrir framan Bibliotheca Alexandria, bókasafnið í Alexandríu í Egyptalandi, sem var opnað formlega í gær, eftir ýmsar tafir.

EGYPSKUR seglbrettakappi nýtir byrinn fyrir framan Bibliotheca Alexandria, bókasafnið í Alexandríu í Egyptalandi, sem var opnað formlega í gær, eftir ýmsar tafir. Mikill fjöldi fyrirmenna, menntamanna og stjórnmálamanna hvaðanæva úr heiminum flykktist til Alexandríu til að vera við hátíðlega opnun safnsins.

Er vonast til að það verði verðugur arftaki hins fræga bókasafns í Alexandríu, sem stofnað var um 295 fyrir Krist af þáverandi Egyptalandskonungi, Ptolemy I, en brann til kaldra kola fyrir 1.600 árum. "Það mikla safn var einstætt afrek í sögu mannsandans og ímyndunaraflsins og mun aldrei falla í gleymsku," sagði Ismail Serageddin, framkvæmdastjóri nýja safnsins.

Byggingin var hönnuð af norskri arkitektastofu, Snøhetta, og var kostnaðurinn við bygginguna sem svarar um 20 milljörðum króna. Lögun byggingarinnar, sem er úr gleri og steinsteypu, minnir á sóldisk - tákn þekkingar - sem snýr að Miðjarðarhafinu.