Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, hefur tekið mikilvægt frumkvæði með því að hvetja til upplýstra umræðna um frekari aðskilnað ríkis og kirkju.

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, hefur tekið mikilvægt frumkvæði með því að hvetja til upplýstra umræðna um frekari aðskilnað ríkis og kirkju. Biskup orðaði það svo í ræðu við setningu kirkjuþings að ekki vantaði mikið upp á að ríki og kirkja væru aðskilin, nefna mætti það skilnað að borði og sæng. "Mér sýnist sem kirkjan þurfi meðvitað að búa sig undir að til lögskilnaðar komi. En meginspurningin er: Á hvaða forsendum?" sagði biskup og hittir þar naglann á höfuðið.

Skoðanakannanir, sem sýna að tveir þriðjuhlutar landsmanna séu hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju, eru marklitlar þegar útskýringuna vantar á því hvað við sé átt með aðskilnaði. Það er engan veginn ljóst og vantar oft mikið upp á að þeir, sem hvetja til aðskilnaðar ríkis og kirkju, skilgreini við hvað þeir eiga.

Íslenzka þjóðkirkjan er ekki ríkiskirkja, ekki hluti af ríkisvaldinu eða rekin af því. Hins vegar tengist hún ríkinu sérstökum böndum; samkvæmt stjórnarskránni nýtur hún stuðnings og verndar ríkisins, um hana gilda sérstök lög, ólíkt öðrum trúfélögum og enn eru ákveðin stjórnunartengsl milli ríkis og kirkju. Forseti skipar biskupa og kirkjumálaráðherra presta. Þetta er hins vegar fyrst og fremst formsatriði eins og biskup bendir á í viðtali í Morgunblaðinu í gær. Þá getur kirkjuþing haft frumkvæði að lagafrumvörpum og beint því til kirkjumálaráðherra að hann flytji þau á Alþingi.

Að flestu leyti nýtur kirkjan hins vegar mikils sjálfstæðis. Talsverð breyting varð á stöðu hennar með kirkjulögunum, sem gildi tóku 1998, en samkvæmt þeim er þjóðkirkjan "sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni." Kirkjan, einstakar sóknir og stofnanir hennar koma fram sem sjálfstæðir aðilar gagnvart almannavaldinu.

Ríkið greiðir samkvæmt lögunum laun fastákveðins fjölda presta og starfsmanna biskupsstofu og þessir starfsmenn njóta réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn.

Þrátt fyrir það, sem stundum er haldið fram, er trúfélögum hins vegar ekki mismunað fjárhagslega af hálfu ríkisvaldsins. Ríkið sér um að innheimta sóknar- eða félagsgjöld fyrir öll trúfélög. Hið beina framlag ríkisins til þjóðkirkjunnar er fólgið í áðurnefndum launagreiðslum, en þær eru inntar af hendi samkvæmt samkomulagi ríkis og kirkju frá 1997 um að ríkið eignaðist allar hinar fornu kirkjujarðir (að frátöldum prestssetrum). Þessar eignir voru gífurlegar, um 16% af jarðeignum í landinu árið 1907 er ríkið tók að sér umsýslu þeirra, og stóðu allt til þess tíma undir launum presta.

Það má færa rök fyrir því að það væri kirkjunni í hag að losna undan bæði stjórnunar- og fjárhagslegum tengslum við ríkið og að eiga ekkert undir stjórnmálamönnum. Slíkur aðskilnaður er vafalaust framkvæmanlegur. Eins og áður segir eru stjórnunartengslin fyrst og fremst formsatriði, en hvað fjárhagsmálin varðar er að mörgu að hyggja. Ef afleggja ætti framlag ríkisins til kirkjunnar, sem kom í staðinn fyrir kirkjujarðirnar, yrði að taka eignamálin upp aftur í heild sinni. Það er flókið mál, ekki sízt vegna þess að kirkjueignirnar rýrnuðu mjög í meðförum ríkisins og miklum erfiðleikum væri bundið að leggja mat á þau verðmæti, sem kirkjan ætti tilkall til.

Aðskilnaður ríkis og kirkju myndi væntanlega einnig þýða að stjórnarskrárákvæðinu um þjóðkirkju yrði breytt, en það myndi útheimta þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta stjórnarskrárákvæði hefur ekki sízt haft táknræna merkingu. Það hefur verið ákveðin yfirlýsing um kristilegan siðferðisgrundvöll samfélagsins, sem þorri þjóðarinnar hefur verið sammála um að hlúa að.

Í þúsund ár hefur Ísland getað kallað sig kristið samfélag. Hins vegar hefur margt breytzt á síðustu áratugum. Þjóðkirkjan er ekki lengur svo gott sem einráð á andlega sviðinu. Um 87% landsmanna tilheyra nú þjóðkirkjunni, en auk hennar eru 24 skráð trúfélög í landinu. Aðeins 2,3% landsmanna standa utan trúfélaga. Lúterskum fríkirkjum tilheyra 4,1% þjóðarinnar, 1,7% kaþólsku kirkjunni og 3,3% öðrum skráðum trúfélögum, sem flest eru kristin. Á seinni árum hefur þó orðið sú breyting að önnur trúarbrögð hafa náð hér fótfestu, en fylgjendur þeirra eru enn innan við 1% þjóðarinnar. Með vaxandi fjölbreytni samfélagsins má gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram. Í því ljósi má spyrja, hvort rétt sé að gera ráð fyrir því að íslenzka ríkið muni um aldur og ævi lýsa sérstökum stuðningi við tiltekna kirkjudeild innan tiltekinna trúarbragða. Í framtíðinni kann að verða eðlilegra að ríkið viðurkenni mikilvægi trúarbragða sem slíkra sem siðferðilegrar kjölfestu samfélagsins í heimi sívaxandi lausungar og lýsi yfir stuðningi sínum við trúfélög almennt. Hvort það er tímabært er annað mál.

Ekki verður framhjá því litið að jafnvel þótt menn kunni að komast að þeirri niðurstöðu að tengslum ríkis og kirkju eigi að breyta, verður kirkjan áfram þjóðkirkja; hún mun í krafti stærðar sinnar, hlutverks, hefðar og sögu áfram njóta mikillar sérstöðu sem langöflugasta trúfélagið. Þjóðkirkjan starfar um allt land og fer ekki í manngreinarálit þegar fólk þarf á aðstoð hennar að halda, spyr aldrei um trúfélagsaðild heldur veitir öllum þjónustu. Biskup Íslands bendir réttilega á að henni eru lagðar ríkari skyldur á herðar en öðrum trúfélögum. Í raun hefur kirkjan verið mikilvægur hluti af velferðarkerfinu.

Það blasir líka við að allur þorri landsmanna aðhyllist kristna trú. Kristnin er hluti af sögu okkar og menningu, samofin þróun bæði ríkis og þjóðar á Íslandi í meira en þúsund ár. Eins og Karl Sigurbjörnsson bendir á í blaðinu í gær, snýst spurningin um tengsl ríkis og kirkju um "grundvallaratriði íslenzks samfélags og menningar; siðinn í landinu." Biskup spyr: "Er verið að óska eftir því að helgidagarnir verði teknir út úr almanakinu og trúartákn afmáð, krossinn úr þjóðfánanum, Guðs nafn úr þjóðsöngnum? Er verið að tala um að vídeóleigurnar séu opnar á aðfangadagskvöld?" Bæta mætti við spurningum á borð við hvort afnema ætti þann sið, að hafa guðsþjónustu fyrir setningu Alþingis eða gera þá kröfu til veraldlegra ráðamanna að þeir hefðu ekki Guðs orð á vörum við opinber tækifæri. Gera má ráð fyrir að upp til hópa svari landsmenn þessum spurningum neitandi. Þetta er ekki það, sem hugsanleg breyting á sambandi ríkis og kirkju á að fela í sér.

Kristin trú hefur leikið mikilvægt hlutverk í þjóðlífi okkar um aldabil og mun gera það áfram. Hins vegar er nauðsynlegt að ræða tengsl ríkis og kirkju og að menn átti sig á hvað átt er við með tali um aðskilnað. Það er jákvætt að forysta þjóðkirkjunnar tekur þar frumkvæði í stað þess að fara í varnarstöðu.