Hermann Pálsson fæddist 26. maí 1921 í Sauðanesi á Ásum í Húnavatnsþingi. Hann lést af völdum slyss í Bourgas í Búlgaríu 11. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru Páll Jónsson, f. 1875, d. 1932, fæddur í Sauðanesi og bóndi þar, og kona hans, Sesselja Þórðardóttir, f. 1888, d. 1942, frá Steindyrum í Svarfaðardal. Systkini Hermanns eru: Jón Helgi, f. 1914, d. 1985, Páll Sigþór, f. 1916, d. 1983, Sigrún Stefanía, f. 1917, d. 1998, Þórður, f. 1918, Gísli, f. 1920, Helga Guðrún, f. 1922, Þórunn, f. 1924, Ólafur Hólmgeir, f. 1926, d. 2002, Aðalbjörg Anna, f. 1928, d. 1955, Haukur, f. 1929, og Páll Ríkarður, f. 1932. Hinn 12. september 1953 gekk Hermann að eiga Guðrúnu Þorvarðardóttur, f. 28. mars 1927, stúdent 1946. Foreldrar hennar voru Guðrún Guðmundsdóttir húsmóðir og Þorvarður Þorvarðarson, aðalféhirðir Landsbankans, og síðar Seðlabankans. Dóttir þeirra Hermanns og Guðrúnar er Steinvör, danskennari og doktorsnemi, f. 1959. Hún á dótturina Helenu, f. 1992.

Hermann stundaði ungur sveitastörf og vegavinnu. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann á Akureyri 1943 og cand.mag.-prófi við Háskóla Íslands 1947. Hann hélt til Írlands og lauk BA-prófi (Honours) í keltneskum fræðum við Írlandsháskóla í Dyflinni. Frá árinu 1950 kenndi hann íslensk fræði við Edinborgarháskóla, fyrst sem lektor en um árabil sem prófessor. Um tíma var hann gistiprófessor við Toronto-háskóla og Berkeley-háskóla. Hann var heiðursdoktor við Háskóla Íslands.

Skrá yfir ritverk Hermanns er að finna í bókinni Sagnaheimur sem gefin var út honum til heiðurs á áttræðisafmæli hans. Síðan sú skrá var prentuð hafa bæst við ritaskrána þrjár bækur, ein um írskar ritningar og Vínland hið góða, önnur um Sólarljóð og vitranir um annarlega heima og sú þriðja um Grettis sögu og íslenska siðmenningu.

Hermann átti frumkvæði að því að efna til alþjóðlegra þinga um fornsögur. Fyrsta þingið var haldið í Edinborg árið 1971 og síðan hafa þau verið haldin með reglulegu millibili fram á þennan dag. Hann þýddi á ensku margar fornsögur og kvæði. Helstu samstarfsmenn hans á þeim vettvangi voru Magnús Magnússon (sbr. t.d. Njáluþýðingu þeirra hjá Penguin Classics), Denton Fox (Grettis saga) og Paul Edwards en þeir þýddu saman Landnámu, Eyrbyggju, Örvar-Odds sögu og Hávamál svo dæmi séu nefnd. Auk fjölmargra bóka og greina Hermanns á ensku og íslensku má nefna Lexikon der altnordischen Literatur sem hann skrifaði ásamt Rudolf Simek. Og á japönsku kom út bók eftir Hermann um Óðin og eddur. Hermann var vinsæll fyrirlesari og flutti fjölmarga fyrirlesta víða um heim.

Hermann var kvaddur í Edinborg hinn 28. ágúst að viðstöddu fjölmenni. Hermanns verður minnst í Háteigskirkju á morgun, mánudaginn 21. október, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Við brottför þína brugðu fjöllin lit, og blámi himins varð að mistri gráu,...

Það er ekki auðvelt að skilgreina fræðastörf svo mikilvirks vísindamanns og leiftrandi anda sem Hermann Pálsson var. Upp í hugann kemur bók um mannanöfn frá 1960 en hún er til marks um hinn mikla áhuga hans á nöfnum, orðskýringum og orðaforða. Þessi áhugi kemur glögglega fram í öllu fræðastarfi hans og setur mark á stíl hans og framsetningu. Málfarið er óvenju kjarnmikið og frumlegt og þarf ekki að efa að það hafi átt þátt í þeim miklu vinsældum sem bækur hans og greinar nutu. Þannig birtist skáldið í Hermanni alla tíð, hæfileiki sem kemur svo augljóslega fram í þeirri fögru bók Þjóðvísur og þýðingar frá árinu 1958 og einnig í Írskum fornsögum frá 1953. Orðasmíði var Hermanni einkar hugleikin, og mátti m.a. sjá þess merki í skemmtilegu lesendabréfi í Morgunblaðinu í sumar þar sem orðaforði í tölvumáli var til umræðu ("Af þurum og pjörum"). Hárfínn smekkur hans á mál og stíl birtist einnig í athugunum hans á ensku. Hann benti mér t.d. á að það væri ekki beint heppilegt að hefja frásögn af sækonungi á þessum orðum: "The Viking king...". Hann hafði nokkrar áhyggjur af málfari manna hér á landi og honum virtist sem orðaforðinn væri að verða heldur fátæklegur víða. Hann taldi að fólk, einkum skólafólk, þyrfti að lesa meira. Í því sambandi minntist hann kennara síns, Sigurðar skólameistara á Akureyri, sem tókst með eldmóði að kveikja áhuga nemenda og virðingu fyrir móðurmálinu. Hann sagði mér líka frá móðurmálskennara í Skotlandi sem lét nemendur sína í grunnskóla lesa tuttugu skáldsögur á vetri og ræddi um þær allar í tímum. Hann dreymdi um nýja og stærri samheitaorðabók og var búinn að safna miklu efni í hana.

Ungur vakti Hermann athygli fyrir bækurnar Sagnaskemmtun Íslendinga og Siðfræði Hrafnkels sögu. Í fyrrnefndu bókinni leiðir hann m.a. að því líkur að rekja megi ritun ýmissa fornsagna okkar mun lengra aftur en almennt hafði verið talið. Aldrei gaf hann þessa hugmynd upp á bátinn enda virðist margt benda til að hún eigi við rök að styðjast. Í síðarnefndu bókinni birtist sú meginkenning Hermanns um Íslendingasögur að "bækur æxlist af bókum". Hann sýndi fram á hvernig hugmyndir sunnan úr álfu, ekki síst þýðingin á sögu Alexanders mikla, virðast hafa mótað viðhorf höfundar Hrafnkels sögu. Allar götur síðan hefur Hermann verið ótrauður að sýna fram á áhrif evrópskra bókmennta og miðaldasiðfræði á aðrar fornar sögur og nægir þar að minna á bækur hans um Njálu, Laxdælu og nú síðast Grettis sögu.

Ég bar gæfu til að gerast handgenginn Hermanni Pálssyni og vinna með honum síðustu árin að sameiginlegum hugðarefnum. Þessi samvinna leiddi meðal annars til þess að við Finna heimsóttum þau hjón, Hermann og Stellu, í Edinborg í vor. Þar kynntumst við hinni rómuðu gestrisni þeirra og höfðingslund. Nú minnumst við stundanna í Edinborg með þakklæti.

Fræðimanninum Hermanni kynntist ég á menntaskólaárunum. Það vildi svo til að Siðfræði Hrafnkels sögu var til í bókaskápnum heima og pabbi benti mér á að nota hugmyndir úr henni við samningu lítillar skólaritgerðar um Hrafnkels sögu. Þegar kennarinn hafði lesið þessa ritsmíð sagði hann að ég hefði nú fremur mátt vitna í Nordal en Hermann Pálsson. Mig fór þá eðlilega að gruna að Hermann mundi kannski vera umdeildur í fræðunum, og það sannfrétti ég svo á háskólaárunum hér heima. En eftir að ég fór til Winnipeg, þar sem Haraldur Bessason réð ríkjum í íslenskudeildinni við Manitoba-háskóla, fékk ég að vita að Hermann væri einhver virtasti fræðimaðurinn á sínu sviði á ensku málsvæði. Sennilega hefur enginn Íslendingur gert íslenskum fræðum meira gagn en Hermann Pálsson með því kynningarstarfi sem hann vann um áratuga skeið, með skrifum sínum og þýðingum, fyrirlestrum og ráðstefnuhaldi. Það sópaði að honum í fræðunum; og gaman var að kynnst honum í eigin persónu á fornsagnaþingi í München árið 1979.

Þegar við Haraldur Bessason ákváðum að gefa út ritgerðasafn um norræna goðafræði og áhrif heiðninnar á fornar bækur leituðum við fyrst til Hermanns um grein. Hann afhenti ekki aðeins greinina heldur léði okkur einnig nafnið á bókinni: Heiðin minni. Og sama gerðist þegar við fórum að undirbúa safn greina um þjóðsögur. Hermann hvatti okkur mjög og skrifaði afar athyglisverða grein (um konur sem lífga val) og brást vel við þeirri bón okkar að finna bókinni nafn: Úr manna minnum skyldi hún heita. Þessi bók er nú í prentun.

Síðasta bók Hermanns kom út að honum látnum, Grettis saga og íslensk siðmenning. Mér var ljúft að verða við beiðni Hermanns í vetur að lesa handritið að bókinni og taka próförkina að mér. Honum auðnaðist að sjá fyrstu próförk daginn sem hann hélt í sína hinstu för frá Edinborg. Það var honum ánægjuefni að sjá verkið komið svo vel á veg enda hafði hann haft það lengi í smíðum. Ég held það hafi verið honum einkar kært viðfangsefni að rýna í söguna af sýslunga sínum og kanna hvernig siðfræðihugmyndir sunnan úr álfu fléttuðust inn í þessa miklu útlagasögu. Bróðir Hermanns, Gísli Pálsson á Hofi í Vatnsdal, stjórnaði útgáfu bókarinnar og sýndi þar enn tryggð við sinn yngra bróður og áhuga á fræðastörfum hans. Þessi óbilandi atorka þeirra bræðra er mikil hvatning okkur sem yngri erum.

Við Finna sendum Stellu, Steinvöru og Helenu litlu, ljósgeisla afa síns, okkar innilegu samúðarkveðjur. Mikið skarð er nú höggvið í þessa samhentu íslensku fjölskyldu í Edinborg þegar hinn mikli öðlingur hefur skyndilega og fyrirvaralaust verið brott kallaður.

Baldur Hafstað.

Edinborg er fegurst borga á Bretlandseyjum eins og þeir vita, sem hana hafa gist. Hún sómir sér vel sem höfuðborg Skota, jafnt þeirra sem heima búa og hinna, sem eru sýnu fleiri og dreifst hafa um alla heimsbyggðina. En Edinborg hefur af meiru að státa: Hún er ein af gersemum miðaldaborga Norður-Evrópu svo að hún þolir samjöfnuð við listadjásn eins og Prag, Krakow og Rigu. Edinborg er byggð á sjö hæðum eins og Róm forðum, rammbyggð og víggirt, til að verjast óvinum, sem komu að sunnan eða handan yfir hafið, sem tengir saman sögu Skota og norrænna manna.

Það varð ævistarf Hermanns Pálssonar að rannsaka og segja þá sögu, sem hann skildi og kunni öllum mönnum betur. Hermann var brautryðjandi meðal fræðimanna um Víkingaöld, landnám og þjóðmenningu Íslendinga, sem fengust við að rannsaka og rifja upp keltneska þáttinn í þjóðaruppruna okkar og menningu. Fyrir það stöndum við í ómældri þakkarskuld við hann. Án þessa framlags hans væri okkur margt hulið um, hvaðan við komum og hver við erum.

Að loknu meistaraprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1947 settist Hermann að í Dyflinni, hinu forna vígi víkinga, þar sem hann nam gelísku og keltnesk fræði, fyrstur íslenskra fræðimanna svo að við höfum spurnir af. Um miðja síðustu öld settist hann að í Edinborg þar sem hann var lektor og síðar prófessor við Edinborgarháskóla í íslenskum og norrænum fræðum. Hann var sæmdur doktorsnafnbót í bókmenntum (D.Litt.) við Edinborgarháskóla árið 1980. Hermann og kona hans, Guðrún Þorðvarðardóttir, hafa átt heimili sitt í Edinborg í meira en hálfa öld. Og það var í Edinborg frá hausti ársins 1958, þegar ég kom þar til náms, m.a. fyrir hvatningu Hermanns, að við Bryndís eignuðumst vináttu þeirra hjóna, sem aldrei rofnaði, þótt höf og lönd skildi í milli. Fyrir það þökkum við nú, þegar við kveðjum fornvin okkar hinstu kveðju.

Hermann var Húnvetningur að ætt og uppruna, fæddur og uppalinn á Sauðanesi í Ásum og fóstraður í hinum norðlenska skóla. Menningararfur Íslendinga var honum í blóð borinn enda hafði hann á hraðbergi allt það besta sem sú arfleifð hefur upp á að bjóða - og kunni flestum betur að meta að verðleikum. En hann hafði ekki asklok yfir höfuð og sá vítt til allra átta þegar hann braut til mergjar mótunaráhrif og sköpunarkraft íslenskrar menningar á landnáms- og þjóðveldistíma. Hann vissi sem var að íslensk menning er ekki einasta innflutt góss úr Skandinavíu, sem landnámsmenn höfðu í farteskinu. Hún á líka rætur að rekja til miklu eldri menningar kelta á Írlandi og Skotlandi, enda margir landnámsmanna og -kvenna þaðan upprunnir.

Lengi vel var Hermann því lítt í náðinni hjá þeim sem voru sjálfskipaðir handhafar stórasannleiks um uppruna íslenskrar menningar og horfðu á hana með sjónskekkju skandinavisma og þýskra fræðahefða. Honum var hafnað þegar hann sótti um starfa við Háskóla Íslands. Menn vildu engin veisluspjöll.

Kannski var það gæfa Hermanns sem fræðimanns, þótt römm væri sú taug, sem dró hann föðurtúna til. Hermann laut hátigninni en stóð á réttinum og hélt sínu fram ótrauður.

Hermann var afkastamikill fræðimaður og ávann sér viðurkenningu og virðingu í hinu alþjóðlega samfélagi fræðimanna, sem fengust við norræn og keltnesk fræði við lærdómssetur vítt og breitt um heimsbyggðina. Hann átti frumkvæði að fornsagnaþingum fræðimanna, en hið fyrsta þeirra var háð í Edinborg árið 1971. Honum var víða boðið til fyrirlestrahalds við fræg menntasetur, t.d. við Berkeleyháskóla í Kaliforníu, og á málþing fræðimanna. Ritstörf hans voru mikil að vöxtum: Frumsamin rit á íslensku og ensku, útgáfur og þýðingar, auk þess sem hann birti fjölda greina í tímaritum og blöðum, íslenskum og erlendum.

Þótt við getum fráleitt talist sérfróð um fræði Hermanns höfum við samt dálæti á mörgum rita hans: Söngvar frá Suðureyjum kveiktu ævilangan áhuga á samspili norrænnar og keltneskrar menningar, sem skýrir sérstöðu íslensks menningararfs. Siðfræði Hrafnkelssögu, Leyndarmál Laxdælu, Keltar á Íslandi og Vikings in Russia eru meðal bóka Hermanns sem er að finna í bókasafni okkar og sitja eftir í minningunni. Allt kom þetta að góðu haldi á árþúsundahátíðinni miklu hér í Bandaríkjunum árið 2000, þegar það kom í okkar hlut sem sendiherrahjóna Íslands í Bandaríkjunum að reifa landafundaafrek Íslendinga og menningarsögu víkinga (og kelta) fyrir ótal áheyrendum við bandaríska háskóla (oftar en ekki af írskum og skoskum ættum, jafnt sem norrænum).

Afbragðsþýðingar Hermanns og Magnúsar Magnússonar á ensku á Njálu, Vínlandssögum, Laxdælu og Grettlu (1960-'74) áttu stóran þátt í að gera þessar perlur heimsbókmenntanna aðgengilegar menntuðu fólki í enskumælandi löndum. Þeim Hermanni og Magnúsi var vel til vina og sameiginlega lyftu þeir grettistaki við að kveikja áhuga á því sem sameiginlegt er í menningararfi þessara grannþjóða. Þeir voru hvor öðrum betri sendiherrar íslenskrar menningar með þeim þjóðum, sem byggja Bretlandseyjar.

Fyrir tveimur árum létum við það eftir okkur að leita aftur á fornar slóðir til Skotlands í sumarleyfi. Við ókum um Hálöndin, sigldum út til Orkneyja og Hjaltlands og settumst svo að andlegu veisluborði á Edinborgarhátíð, sem stóð það sumar með óvenjulegum glæsibrag. Það var margs að minnast frá námsárunum á Skotlandi fyrir fjórum áratugum. En eftirminnilegastir voru þó fagnaðarfundir með fornvinum okkar, Hermanni og Stellu. Hermann var í fullu fjöri, kominn hátt á áttræðisaldur og lék á als oddi - stráði um sig ferskum hugmyndum og ævintýralegum sögum, svo að veislunni ætlaði seint að linna. Þótt fræðaþulurinn og sagnamaðurinn sé nú hljóðnaður, standa verkin sem hann vann. Og endurminningin lifir um einn af Íslands bestu sonum, sem unni landi og þjóð hugástum í langri útlegð.

Washington, 22. ágúst 2002

Jón Baldvin og Bryndís.

Með Hermanni Pálssyni er þrekmaður á sál og líkama til moldar hniginn. Snemma vakti hann á sér athygli vegna yfirburða í námi. Forníslenska og írska urðu sérgreinar hans. Ungur að árum varð hann háskólakennari og síðar prófessor við Edinborgarháskóla og gegndi því embætti við orðstír meðan aldursmörk leyfðu. Skrá um ritverk hans og samstarfsmanna geymir um tvö hundruð heiti á bókum og greinum. Fyrsta bók hans Söngvar frá Suðureyjum kom út í Reykjavík árið 1955. Í þeirri bók gerir höfundur grein fyrir hlutdeild Suðureyinga í landnámi á Íslandi en beinir þó aðallega athygli sinni að hversdagslífi fólks á eyjunum eins og það kom honum fyrir sjónir um miðja síðustu öld. Þá gafst honum færi á að hlusta á gelíska söngva og snúa lagatextum þeirra á íslensku.

Í landnámskaflanum kemst höfundur svo að orði að Íslendingum hafi verið það "mikils virði, að margir komu frá Suðureyjum til að nema hér land. Ísland hefði aldrei orðið menningarríki, ef það hefði byggzt Norðmönnum einum, sönglausum og sögulausum." Þessi ívitnun í fyrstu bók Hermanns Pálssonar er upphaf að meginþætti í bókum hans og ritgerðum um árdaga íslenskra bókmennta. Honum var mjög í mun að gera sem skýrasta grein fyrir straumum frá gamalgróinni menningu úti í löndum sem gætu hafa átt greiða leið norður til Íslands og gætt sögur og ljóð landsmanna lífsmagni og listfágun. Enda væri hvort tveggja órjúfanlegur hluti þess erfðagóss andans sem hæst bar hjá menningarþjóðum í Evrópu í fornöld og á miðöldum. Á þessum vettvangi kann Hermann að hafa gengið öllu lengra en aðrir fræðimenn. Í bókmenntaskrifum hans má oft greina bein eða óbein átök milli þeirra Óðins og Jesú Krists eða réttara sagt hugmynda sem fornmenn tengdu þessum höfuðgoðum. Stundum er sem annar þeirra fari með sigur af hólmi. Furðu oft eru þó með þeim jafnaðarskipti og eins og kraftar beggja sameinist í háleitum listaverkum um varanlegar lausnir á helstu vandamálum mannlífsins. Í fyrra tilvikinu má vísa í síðustu grein Hermanns, sem enn er í prentun, um Maríu mey og drenghetju sem var haldin ókristilegum hugarórum og slíkri firru að hann kunni ekki að hræðast.

Í síðara tilvikinu má benda á sjálfa Njáls sögu. Sú bók er glöggt dæmi um samruna misskýrra þátta þar sem gamalgróin evrópsk hámenning og bókmenntahefðir þaðan runnar hafa engu að síður skilað rammíslenskum kjarna í æðra veldi. Frumþættir og eðli þessa samruna voru rannsóknarviðfang Hermanns Pálssonar alla tíð. Lét hann sér ekki nægja að gaumgæfa aðföng frá suðlægari löndum en lagði kapp á að nefndum rammíslenskum kjarna í upphöfnu veldi Njáls sögu og sambærilegra verka væri gaumur gefinn á stærra sviði en íslensk tunga leyfir. Fylgdi hann þar í fótspor sér eldri fræðimanna. Verður því næst fyrir annar mjög mikilvægur þáttur í ævistarfi Hermanns.

Samkvæmt viðteknum hugmyndum um höfuðáttir er um að ræða stefnu út yfir þröng landamörk íslenskrar tungu öndverða því sem að ofan segir um aðföng í bókmenntum. Að tveim atriðum er fyrst að hyggja. Íslenskar fornbókmenntir voru kennslugrein Hermanns við erlendan háskóla. Nemendur hans áttu síðar eftir að gera garðinn frægan víðs vegar um heiminn og jafnvel festa íslensk fræði í sessi á menntasetrum, sumum hverjum í órafjarlægð við Ísland. Má þar til dæmis nefna Tókýóháskóla til sögu. Um áratuga skeið gerði Hermann fjölferðugt um heimsbyggðina og flutti miklum mun fleiri fyrirlestra um fræðasvið sitt í boði háskóla og annarra menntastofnana en tölu verði á komið. Um skeið var hann gistiprófessor við Torontoháskólann í Kanada og síðar við Berkeleyháskóla í Kaliforníu. Dyggur stuðningsmaður var Hermann háskólaútgáfum um íslensk fræði í Kanada, Bandaríkjunum og víðar. Hann var aðalstofnandi Alþjóðaþings um íslenskar fornsögur (The International Saga Conference). Fyrsta þingið var saman kallað í Edinborg árið 1971 og hefur síðan verið haldið þriðja hvert ár víða um lönd. Hefur sú stofnun skilað íslenskum fræðum drjúgum feng. Síðara atriðið veit að sagnaþýðingum Hermanns og félaga hans á enska tungu.

Á sjötta áratug næstliðinnar aldar leituðu þeir Magnús Magnússon og Hermann Pálsson álits hjá forstöðumönnum Penguin Classics-bókaforlagsins í Englandi um það hvort þeir vildu taka Njáls sögu til útgáfu í nýrri þýðingu á ensku. Fljótlega barst þeim svar þess efnis að þar sem Njáls saga væri ekki klassískt rit gæti Penguin Classics ekki gefið hana út á ensku. Þýddu þeir Magnús og Hermann þá nokkra kafla úr bókinni, sendu nefndu bókaforlagi og fengu í það sinn annað svar um að Njáls saga væri klassísk og sjálfsagt að forlagið gæfi hana út á ensku. Þýðingin birtist á prenti árið 1960 og var helguð prófessor Einari Ólafi Sveinssyni. Í þessum nýja búningi varð Njáls saga metsölubók í sínum flokki. Má með sanni segja að þeir félagar hafi með útgáfu sinni stigið heilladrjúgt skref til kynningar á íslenskri menningu og bókmenntum meðal enskumælandi þjóða. Veikist sú staðhæfing síst við að í kjölfar Njálu fylgdu hjá Penguin Classics þýðingar þeirra félaga á allmörgum Íslendingasögum. Hrafnkels sögu þýddi Hermann einn, en auk Magnúsar Magnússonar voru meðþýðendur hans á öðrum sögum Paul Edwards og Denton Fox (báðir látnir).

Sagnaþýðingar Hermanns og félaga hans þriggja urðu um tuttugu talsins. Meðal þeirra er að finna Íslendingasögur, konungasögur og fornaldarsögur. Að hverri þýðingu skrifuðu þeir greinargóða formála. Þýðingastíllinn er nútíðarlegur, hlaðinn frásagnargleði og leikandi léttur. Hermann Pálsson var meistari orðs og stíls, hvort heldur sem um var að ræða móðurmál hans eða ensku. Er þar stuðst við álit þeirra sem dómbærir eru.

Skylt er að geta þess að lokum að meiri hluta bóka sinna og ritgerða skrifaði Hermann á íslensku og þau verk þess vegna hluti af íslenskum þjóðararfi. Fyrir rúmum tveim árum kom út eftir hann um það bil þrjú hundruð síðna bók sem nefnist Hávamál í ljósi íslenskrar menningar. Þar segir að Hávamál séu "eitt þeirra fornkvæða sem allir hugsandi Íslendingar ættu að kynnast sem best". Svo einföld eru þau orð. Í sérstökum kafla ræðir Hermann um "andstæðuna milli dauða og orðstírs" og enn má vísa til þáttar hans um "vináttu". Allt þetta og miklu fleira leitar nú á huga vina hans og vandamanna. Minningar um hann varðveita þeir en taka þær þó að lokum smám saman með sér við hinstu brottför. Verk Hermanns munu hins vegar njóta lengri lífdaga og þar með orðstír höfundarins.

Bók Hermanns um Suðureyjar, sem vitnað var til í byrjun þessarar greinar, ber með sér að reynslu af sorg og trega við dauða ættmenna og vina hafa eyjaskeggjar löngum deilt með Íslendingum. "Tregróf" heitir gömul kveðskapargrein. Sæmundar-Edda og dróttkvæði geyma um hana fögur dæmi. "Söngvum frá Suðureyjum" lauk Hermann Pálsson með þýðingu sinni á írsku (gelísku) tregrófi. Upphafslínur þess hljóða svo:

Við brottför þína brugðu fjöllin lit,

og blámi himins varð að mistri gráu,...

Ekki get ég gert manninum Hermanni Pálssyn viðhlítandi skil í stuttri minningargrein. Það bíður betri tíma. Við Margrét og börnin okkar öll kveðjum með söknuði mikinn höfðingja og gagnmerkan samtíðarmann. Við þökkum honum órofa tryggð og vináttu og sendum Stellu, Steinvöru, Helenu og öðrum ættmennum innilegar samúðarkveðjur.

Haraldur Bessason.

Allt hefur sinn tíma, segir Prédikarinn, og þá líka að lifa og að deyja. Það virðist samt ótímabært að Hermann Pálsson farist í slysi í Búlgaríu, á ferð með ástvinum sínum, eiginkonu, dóttur og dótturdóttur. Að feigðin ráðist svona að honum: með klofinn hjálm og rofinn skjöld / brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld, eins og Bólu-Hjálmar komst að orði við mannslát.

Hermann var hreint ekki búinn að ljúka lífsstarfi sínu. Hann var með tvær bækur í smíðum og engan bilbug á honum að finna. Fyrr í sumar heyrði ég útvarpsviðtal við hann frá Ísafirði. Hann var þá eldhress á ferð umhverfis landið með lystiskipi og fræddi farþega um Íslendinga, menningu þeirra og sögu.

Fékkst hann ekki einmitt við það alla tíð með einum eða öðrum hætti? Hermann var hámenntaður og fjölmenntaður maður. Hann lauk háskólaprófum á Íslandi og Írlandi, var doktor frá þriðja háskólanum í Edinborg þar sem hann gegndi síðan prófessorsembætti. Hann var gistiprófessor í Kanada og Bandaríkjunum, flutti fyrirlestra vítt og breitt um heiminn, kenndi, fræddi, gladdi. Hann var hamhleypa við skriftir, ekki hef ég tölu á bókum hans, útgáfum, þýðingum, ritgerðum, greinum. Fræðafólk í nútíð og framtíð mun meta lífsstarf hans og aðrir bara njóta þess. Tvívegis sótti Hermann um stöðu við Háskóla Íslands en var hafnað. Hann var ekki maður hentiskoðana. Hann studdist við eigin verðleika, ekki hinar og þessar hækjur. Háskólinn gerði hann að heiðursdoktor 1987. Það var gaman.

Þegar við Hermann vorum í Menntaskólanum á Akureyri undir miðbik síðustu aldar urðu margir nemendur víðsvegar af landinu að leggja hart að sér til þess að geta sótt skólann. Ef síldin brást til dæmis komu ekki allir að hausti. Einu sinni kom Hermann ekki fyrr en eftir jól. Nemendur voru upp til hópa auralitlir og gerðu sér enga rellu út af því. Færi einhver að slá um sig og splæsa út og suður var horft á hann með vorkunnsemi, hann þótti dálítið hallærislegur. Nemendur þjáðust ekki af gullgirnd. Þeir sem skrifuðu bestu ritgerðirnar nutu virðingar. Þessi andi úr skólanum hefur sjálfsagt haft áhrif á verðmætamat nemenda, það viðhorf að þekking og menntun sé eini fjársjóðurinn sem maður eigi ævinlega og enginn geti tekið frá manni. Og sýna peningum hæfilega virðingu, eða hæfilegt virðingarleysi eftir atvikum.

Hermann var afburða námsmaður, þroskaðri en mörg okkar hinna. Hann var logandi klár, rökfastur og hugmyndaríkur. Í minningunni lifir hann ekki síst sem sögumaður, húmoristi með fágæta frásagnargáfu, einsog þjappast hefðu saman í honum þessir írsku og íslensku sagnaeiginleikar. Á góðum stundum hallaði hann sér fram í sætinu, hallaði undir flatt og spann og spann og augun glóðu af gáska og prakkaraskap.

Hermann var einn af þessum mönnum sem er bara svo gott að vita að séu til, séu þarna einhvers staðar, og maður geti hlakkað til að hitta aftur einhverntíma.

Hermanni Pálssyni varð mikið úr lífinu. Hlutskipti hans varð að starfa erlendis, kannski hefur enginn setið á vængjum hans þar.

Margrét Indriðadóttir.

Þau sviplegu tíðindi bárust nýlega, að Hermann Pálsson prófessor hefði farizt af slysförum suðrí Búlgaríu.

Við Hermann urðum stúdentar vorið 1943, hann að norðan og ég að sunnan, og settumst um haustið að námi í íslenzkum fræðum við Háskóla Íslands.

Ég minnist þess, að við vorum um hríð eitt sumar saman í vegavinnu norður á Vatnsskarði, en hann hvarf þaðan fljótlega til annarrar vinnu syðra, er var betur launuð en vegavinnan fyrir norðan.

Hermann var mikill námsmaður, lauk cand. mag.-prófi frá Háskóla Íslands 1947 á mun skemmri tíma en við hinir, og hóf þá um haustið nám í keltneskum fræðum við University College í Dyflinni. Hann lauk þar B.A.-prófi 1950, sama ár og hann var settur lektor í íslenzku við Edinborgarháskóla í Skotlandi.

Þegar það réðst, að ég yrði nokkra mánuði í London fyrri hluta árs 1951, lagði ég leið mína þangað um Edinborg og heimsótti vin minn Hermann, fékk inni í sama húsi og hann og stanzaði þar seinustu vikuna í janúar.

Hermann var að heiman kvöldið sem ég kom, en í dagbók sem ég á frá þessum tíma segi ég svo: ,,kl. 12 kom Hermann og lentum við þá á heillangri kjaftatörn og urðum svo hálfandvaka á eftir. Lá mjög vel á Hermanni, alls staðar sjáandi ný og girnileg verkefni, en jafnframt feginn að fá fréttir að heiman." Þarna var Hermann Pálsson lifandi kominn í brennandi áhuga sínum, er hann hélt til hinztu stundar, enda þau verk er hann samdi um dagana orðin mörg og fjölbreytileg. Fornsögurnar íslenzku urðu honum kærasta viðfangsefnið, enda helgaði hann mörgum þeirra einstök rit, svo sem Hrafnkels sögu, Laxdælu, Njálu o.fl., og glímdi við tilurð verkanna, og þann jarðveg, er þau væru vaxin úr. Margt í orðalagi, ekki sízt í málsháttum og spakmælum ýmsum, taldi hann tilkomið við þýðingar úr latneskum ritum, er menn hefðu þekkt og stuðzt við. Gekk hann þar stundum, að því er mér fannst, nokkuð langt. Lífsreynsla og lífsspeki þjóða speglast og kristallast í tungum þeirra og því eðlilegt, að þar megi sjá ýmis líkindi, þótt ekki sé um beint lán að ræða.

Hermann vann merkilegt starf sem þýðandi fornsagnanna á enska tungu, oft með öðrum mönnum, svo sem Magnúsi Magnússyni, Paul Edwards o.fl., og eru þar kunnastar þýðingarnar er út komu í flokknum Penguin Classics. Hann dvaldist og stundum við erlenda háskóla sem gistiprófessor og beitti sér fyrir fornsagnaþingum svo nefndum, er urðu mjög til eflingar fræðunum.

Ég á margar góðar minningar um Hermann, var löngum í bréfasambandi við hann og kom oft til hans í Edinborg á hið fagra heimili hans og konu hans, Guðrúnar Þorvarðardóttur.

Að henni og dóttur þeirra Steinvöru og dóttur hennar er nú þungur harmur kveðinn við hið sorglega fráfall Hermanns.

Ég votta þeim hér með innilega samúð mína og Helgu Laufeyjar dóttur minnar.

Finnbogi Guðmundsson.

"Snúðu Grótta sólarsinnis, sólarsinnis, mundu það".

Með þessum orðum kvaddi Hermann mig í síðasta bréfi. Tímans kvörn malar án afláts. Við vorum þrjátíu og átta sem útskrifuðumst stúdentar úr Menntaskólanum á Akureyri árið 1943, tuttugu eru dánir, þar af fimm af slysförum, nú síðast Hermann Pálsson prófessor í Edinborg. Ég var nýbúinn að fá kort frá Búlgaríu þar sem hann dvaldi í besta yfirlæti með fjölskyldu sinni þegar fréttin um slysið kom eins og reiðarslag og við bekkjarsystkini hans erum harmi slegin.

Ekki hvarflaði að mér að húnvetnski sveitastrákurinn sem hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri fyrir hálfum sjöunda áratug ætti eftir að verða mikill heimsborgari. Við bjuggum í heimavistinni flestir utan af landi og þar var oft glatt á hjalla. Hermann var hraustur, sterkur og fylginn sér í áflogum en hlífinn við minnimáttar og óáreitinn, hjálpsamur, prúður og kurteis og varð því brátt hvers manns hugljúfi. Hann gaf sig annars ekki að íþróttum en var þeim mun harðari við námið. Hann var fluggáfaður, afburða námsmaður, dúxinn okkar í máladeild á stúdentsprófi 1943 og hlaut verðlaun fyrir "ágæti í framkomu og öllu námi, einkum kunnáttu í íslenskri málfræði". Eins og vænta mátti lagði hann stund á málvísindi, nam íslensk fræði við Háskóla Íslands og keltnesk við Háskóla Írlands í Dyflinni. Það átti svo fyrir honum að liggja að starfa erlendis í meira en hálfa öld og vinna þar sín afreksverk eins og hirðskáldin forðum. Að námi loknu árið 1950 var hann ráðinn kennari í íslenskum fræðum við Háskólann í Edinborg og kom þar upp fyrirmyndar kennslu- og rannsóknarstofnun sem nýtur mikils álits. Hann var mjög hugmyndaríkur og lét ekki hefðbundnar skoðanir aftra sér. Frumkvöðull rannsókna á tengslum íslendingasagna við evrópska bókmenntahefð og stofnaði "Alþjóða Fornsagnafélagið", sem er öflugur vettvangur vísindamanna hvaðanæva úr heiminum allt austur til Ástralíu og Japan. Hann var eftirsóttur fyrirlesari, kjarnyrtur, hnittinn, skýr og skemmtilegur. Auk þess var hann mikilvirkur þýðandi Íslendingasagna og írskra og geliskra sagna og ljóða. Hann hlaut að vonum margvíslegar viðurkenningar, prófessor við Edinborgarháskóla og doktor í bókmenntum, heiðursdoktor við Háskóla Íslands og sérstök rit voru gefin út honum til heiðurs á hátíðastundum. Hermann var skáld gott þótt hann flíkaði því lítt, lét þó gjarnan stöku fljóta með bréfum og kveðjum. Í fyrra fékk ég þessa kveðju frá Búlgaríu:

Suður við hafið svarta

sötra ég góðan bjór

en hugsa um það í húmi

hve heimurinn er stór.

Hann gaf út eina litla ljúfa ljóðabók og eina skáldsögu í Heljarslóðarorrustustíl: "Finnugaldur og Hriflunga, ævintýri um norræna menningu" og var að vinna við framhaldið "Gestabók Hriflunga" þegar hann lést. Ég hefi lesið uppkastið og veltist um af hlátri. Vinnandi var hann fram á síðustu stundu. Náði að ljúka útgáfu Sólarljóða en síðasta bók hans "Grettissaga og íslensk siðmenning" kom ekki út fyrr en hann var allur. Í fyrrahaust vann hann að bókinni í Blönduvirkjun, mitt í átthögum Grettis sterka og hafði á orði er ég heimsótti hann þar, hve aðstæður væru þarna góðar fyrir fræðimann. Hann gerði það svo að tillögu sinni að Landsvirkjun legði fram þessa aðstöðu í fyrirhugaða rannsóknarstofu húnvetnskra fræða.

Hermann lét ekki deigan síga eftir að hann varð emeritus. Hann var sískrifandi, ferðaðist mikið, hélt fyrirlestra og sótti ráðstefnur. Hann hélt sér ótrúlega vel, kvikur á fæti, minnugur og fullur af fjöri kominn á þennan aldur. Á sólríkum sumardegi fór ég með honum í vettvangskönnun á söguslóðir Hrafnkelssögu frá Hrafnkelsstöðum yfir Fljótsdalsheiði í Aðalból. Leiðsögumaður um Hrafnkelsdal var ekki af verri endanum, Aðalsteinn yngri á Vaðbrekku, og naut Hermann staðfræðiþekkingar hans ríkulega. Seinna fór hann aftur austur á Hérað á Hrafnkötluþing. Hann hafði mikið dálæti á Hrafnkelssögu sem hann sagði vera "eitt af meginverkum evrópskra bókmennta fyrr á öldum".

Hermann og Stella áttu fallegt heimili í "Royal Terrace Mews" í Edinborg. Við Lovísa gistum hjá þeim á ferðalagi um Skotland fyrir nokkrum árum og nutum einstakrar gestrisni. Þau voru samhent um að láta gestum sínum líða vel. Ég setti mig aldrei úr færi að heimsækja þau þegar ég átti leið um. Það gerðu fleiri, því var gestkvæmt á heimili þeirra hjóna.

Stúdentar M.A. '43 höfðu vænst þess að hitta Hermann í haust og ræða þá sextíu ára stúdentsafmælið næsta vor. En enginn má sköpum renna. Við Lovísa og börnin okkar vottum aðstandendum innilega samúð og sérstaklega Stellu, Steinvöru og Helenu litlu, sem var augasteinn afa síns.

Ég kveð svo vin minn Hermann með síðasta versi Sólarljóða:

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fira;

drottinn minn

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa.

Jón Þorsteinsson.

Með Hermanni Pálssyni er genginn einn af stærstu sagnfræðirithöfundum okkar, og einn af allra frægustu Íslendingunum erlendis.

Hermanni kynntist ég persónulega fyrir nokkrum árum, á heimili aldavinar hans, og venslamanns míns, Bergs Vigfússonar. Var þá gaman að bera undir hann mannfræðikenningar mínar um efni sem hann hafði komið inn á í bókum sínum. Síðan hitti ég hann nokkrum sinnum á förnum vegi í Reykjavík, og töluðum við þá alúðlega um Berg og fjölskyldu.

Við eitt þessara tækifæra bauðst ég til að gefa honum ljóðabók eftir mig. Hann vildi ekki þiggja, og bar við að hann væri kominn á þann aldur að hann hefði ekki tíma til að lesa bækur úr nýjum áttum, heldur þyrfti hann að nota tímann alfarið til að koma frá sér þeim bókum sem hann enn ætti eftir óskrifaðar. Hins vegar vildi hann senda með hraði fyrir mig eintak til pikta nokkurs sem ég mundi eftir frá því sá hafði myndskreytt tímaritið hennar mömmu á sjöunda áratugnum, enda væri sá maður nú góður nágranni hans í Edinborg (en það er Calum Campbell menntaskólakennari, kvæntur íslenskri konu).

Nú er Hermann allur, nokkrum vikum eftir að við skrifuðum minningargreinar eftir Berg. Var það víst nánast tilviljun hvor þeirra náði að skrifa eftir hinn.

Ég vil nú minnast Hermanns með því að vitna í glefsu úr þýðingu minni á sagnfræðiverki eftir annan nýbúa í Bretlandi, en það var bandaríska stórskáldið T. S. Eliot. En hann skrifaði helgileikinn Morð í dómkirkjunni, sem fjallaði um víg Tómasar Becket, erkibiskups í Kantaraborg á 12. öld. Er ekki að efa að Hermann hefur þekkt þá sögu gjörla.

Ég gríp þar niður sem verið er að ræða atriði úr breskri þjóðtrú, í sambandi við endurkomu erkibiskupsins til Kantaraborgar:

"Þið eru réttilega nokkuð efins.

Hann kemur stoltur og sorgmæddur,

staðfastur í öllum sínum kröfum,

án nokkurs efa um fylgispekt fólksins

sem tekur á móti honum með áköfum fagnaðarlátum,

raðast meðfram veginum

og hendir niður skikkjum sínum,

og stráir í götu hans laufi og haustblómum.

Götur borgarinnar munu verða svo troðnar

að fólki liggur við köfnun,

og ég held að hestur hans muni

verða að sjá á bak tagli sínu,

því hvert hár þess verður að helgidómi.

Hann nýtur órofa samstöðu páfa,

og kóngsins í Frans,

sem hefði vissulega viljað

halda honum lengur í ríki sínu:

en hvað varðar okkar konung,

það er nú önnur saga."

Kveð ég svo vin minn Hermann Pálsson að sinni, þess fullviss að við munum aftur hittast við lestur minn á fleiri af hans fjöldamörgu bókum.

Tryggvi V. Líndal.

Hermann Pálsson var óvenjulegur maður. Hann var kominn á efri ár þegar leiðir okkar lágu saman, en atorkusamari og hraustari manni hef ég varla kynnst. Hann lét sér fátt fyrir brjósti brenna, var hamhleypa til allra verka og hvert ritið rak annað síðustu árin. Stundum hvarflaði að manni að skynsamlegt væri fyrir áttræðan manninn að taka lífinu með meiri ró, að hyggilegt væri að njóta eftirlaunaáranna án þess að hafa sífellt áhyggjur af próförkum og skriftum. En hann skildi ekki slíkar vangaveltur, vinnusemin og áhugi var honum í blóð borin, og hann var áfjáður að ljúka við ýmsar rannsóknir sem höfðu átt hug hans um langan tíma.

Einkennileg kaldhæðni örlaganna réð því að Hermann bjó erlendis öll sín fullorðinsár, því íslenskari manni hef ég varla kynnst. Hvorki fannst á mæli hans, eða fasi, að hin austur-húnvetnska sveit hyrfi nokkurn tíma úr persónu hans. Og röddin verður mér ógleymanleg. Rétt eins og Vestur-Íslendingar skynja Ísland eins og þeir skildu við það í lok nítjándu aldar, hvarflaði hugur Hermanns norður þegar hann hugsaði heim. Líklega hefði honum hvergi liðið betur en þar, samt var hann heima þegar hann var kominn til Edinborgar. Enda var fólkið hans þar. Heimsmaður og heimamaður í þeirri fallegu og sögufrægu borg. Þar bjuggu þau Stella sér yndislegt heimili, samhent og gestrisin, og nutu samvista við dóttur og dótturdóttur.

Fræðistörf Hermanns eru ótrúlega fjölbreytt og gefa til kynna áhuga hans á öllum sviðum íslenskra fornbókmennta. Hann vildi bæði túlka íslenskar bókmenntir í alþjóðlegu samhengi, og kynna þær fyrir heiminum í nútímanum. Og þar lyfti hann grettistaki. Í því sambandi var þýðingarstarf Hermanns gífurlega mikilvægt við kynningu íslenskra fornbókmennta erlendis. Þýðingar hans, sem hann vann jafnan í samvinnu við Paul Edwards eða Magnus Magnusson, voru gefnar út af Penguin-útgáfunni og hlutu þar með mikla útbreiðslu. Nefna má áhrifamiklar þýðingar á Njálu, Eglu, Eyrbyggju, Hrafnkötlu, Laxdælu, sem kynntu Íslendingasögurnar fyrir þúsundum manna. Þýðingarnar vann hann jöfnum höndum og hann sinnti annasamri háskólakennslu og fræðastörfum.

Mér reyndist hann sannur vinur. Hann gaf ávallt mikið af sjálfum sér í fræðilegum rökræðum, velti upp nýjum flötum á viðfangsefninu og setti fram ögrandi tilgátur. Að sama skapi var hann örlátur við ungan og leitandi fræðimann, og hafði lag á því að hvetja mann til dáða. Hermann var maður mikilla skoðana, sem hann fór ekki dult með; var hreinskiptinn, einlægur, en um leið viðkvæmur. Það er gott að þekkja slíkt fólk. Fyrir vináttu hans vil ég þakka, og votta Stellu og Steinvöru innilega samúð mína.

Guðrún Nordal.

Fregnin af hörmulegu slysi sem varð Hermanni Pálssyni að aldurtila kom eins og reiðarslag. Skyndilega var hann dáinn, horfinn, þessi vinur minn í meira en hálfa öld. Ég kynntist Hermanni í Edinborg haustið 1950. Hann var þá að koma, að loknu námi í keltneskum fræðum í Dublin, til að kenna íslensku við háskólann í Edinborg. Við urðum strax góðir kunningjar og höfðum nokkuð reglulegt samband alla tíð upp frá því.

Margs er að minnast frá samskiptum okkar þennan langa tíma. Eru það allt góðar og bjartar minningar. Hermann var ágætur félagi og alltaf skemmtilegur. Hann naut þess að segja sögu. Var frásagnargáfa hans, lærdómur, orðaforði og minni með afbrigðum, sem og skýrleiki í hugsun. Ég sagði oft að Hermann væri fyndnasti og skemmtilegasti maður sem ég hefði kynnst. Málfar hans var rammíslenskt. Hann hafði gaman af að fyrna mál sitt, m.a. með því að gefa gömlum orðum nýja merkingu. Hann lifði og hrærðist í heimi íslenskra fornsagna og hefur líklega kynnt öðrum þjóðum fornrit okkar og fornmenningu betur en nokkur annar. En þrátt fyrir "forneskju" var Hermann nútímamaður í besta skilningi. Hann var afar hugmyndaríkur og frumlegur í túlkun sinni á fornritunum, eins og ljóst er af mörgum ritsmíðum hans.

Samverustundir með Hermanni eru mér ofarlega í huga núna. Ég minnist sérstaklega ferðar með honum á páskum, á námsárum mínum í Edinborg, norður til eyjunnar Skye fyrir vestan Skotland. Einhvern tíma rifjaði hann upp að við hefðum "hlýtt þar á klerk þylja langa tölu um helvíti á gelísku"! Einnig eru mér minnisstæðar höfðinglegar móttökur á heimili hans í Edinborg. Ferð á slóðir Gísla Súrssonar í Haukadal í Dýrafirði, þegar þau Stella heimsóttu okkur í Bolungarvík, er mér í fersku minni. Og í nálægari fortíð bráðskemmtilegar kvöldstundir heima hjá okkur í Reykjavík.

Ég kveð með miklum söknuði ógleymanlegan mann og traustan vin.

Gunnar Ragnarsson.

Baldur Hafstað.