26. október 2002 | Innlendar fréttir | 327 orð

Banaði sambýlismanni sínum með hnífi á heimili þeirra

Dæmd í átta ára fangelsi fyrir manndráp

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær Sigurhönnu Vilhjálmsdóttur, 39 ára, í 8 ára fangelsi fyrir manndráp að kvöldi 6. mars sl.
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær Sigurhönnu Vilhjálmsdóttur, 39 ára, í 8 ára fangelsi fyrir manndráp að kvöldi 6. mars sl.

Ákærðu var gefið að sök að hafa ráðist á sambýlismann sinn, Steindór Kristinsson, sem nýorðinn var 50 ára, á heimili þeirra á Grettisgötu, og stungið hann þrisvar sinnum með hnífi í brjóstkassa og kvið, þar af tveimur djúpum stungum, með þeim afleiðingum að hann lést hinn 24. mars af lungnabilun vegna bráðrar lungnabreytingar og lungnabólgu sem var afleiðing atlögu ákærðu.

Í niðurstöðum dómsins segir að ákærða muni ekki eftir því vegna ölvunar þegar Steindór fékk áverkana af hnífnum og taldi dómurinn ljóst að hún hefði verið mjög ölvuð þegar atburðurinn varð. Fyrir dómi sagði hún sambýlismann sinn hafa barið sig í andlit fyrr um kvöldið og studdist það við annað í málinu.

Talin hafa reiðst sambýlis- manni sínum heiftarlega

Dómurinn taldi ljóst að ákærða hefði reiðst sambýlismanni sínum heiftarlega þegar henni var sagt að hann hefði slegið dóttur hennar. Samkvæmt frásögn vitna taldi dómurinn sannað að ákærða hefði í mikilli reiði tekið morðvopnið í eldhúsinu og síðan veist að Steindóri með því þar sem hann sat í sófa í stofunni og stungið hann þrisvar á hol. Af því sem tveir lögreglumenn höfðu eftir ákærðu eftir verknaðinn taldi dómurinn ljóst að fyrir henni hefði vakað beinlínis, meðan á árásinni stóð, að bana Steindóri. Dómurinn taldi þó að þessi ásetningur hefði ekki vaknað með henni fyrr en rétt áður en hún framdi verknaðinn. Við ákvörðun refsingar taldi dómurinn að ekki yrði litið framhjá því að verkið var unnið í snöggu heiftarkasti og að ákærða hefði mátt þola viðvarandi kúgun og ofbeldi af hendi hins látna. Dómurinn taldi ennfremur að byggja yrði á þeirri frásögn ákærðu að í eitt skipti, hálfum mánuði fyrir atburðinn, hefði hinn látni gert hrottalega á hlut hennar.

Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari og dómsformaður fjölskipaðs dóms héraðsdóms, kvað upp dóminn. Meðdómendur voru héraðsdómararnir Benedikt Bogason og Þorgerður Erlendsdóttir. Verjandi ákærðu var Hilmar Baldursson hdl. Málið sótti Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.