31. október 2002 | Viðskiptablað | 711 orð

Tálsýnir og bólur

"Ég get reiknað út hreyfingar himingeimsins en ekki brjálæði mannfjöldans. (Sir Isaac Newton, 1720, eftir að hafa tapað offjár í bólu samtíma hans, The South Sea Company.) Efnahagslegar aðstæður móta oftar en ekki tíðarandann.
"Ég get reiknað út hreyfingar himingeimsins en ekki brjálæði mannfjöldans. (Sir Isaac Newton, 1720, eftir að hafa tapað offjár í bólu samtíma hans, The South Sea Company.) Efnahagslegar aðstæður móta oftar en ekki tíðarandann. Þegar þær eru jákvæðar eykst bjartsýni manna stundum að því marki að tálsýn skapast um áhyggjulausa framtíð. Slík tálsýn er oft fyrirboði fjármálabóla. Við lestur bókarinnar Devil Take the Hindmost: A History of Financial Speculation eftir Edward Chancellor kemur glöggt fram hvernig sögunni hættir til að endurtaka sig, en bókin er heimild um markverðustu fjármálabólur sögunnar í helstu ríkjum heimsins. Chancellor lýsir með lifandi hætti hvernig hinar ýmsu bólur hafa þróast, stækkað og að lokum sprungið, oftast með skelfilegum afleiðingum. Oftar en ekki hafa bólurnar tekið á sig hinar ótrúlegustu myndir og gjarnan tengst litríkum einstaklingum eins og Daniel Defoe, Mark Twain og Groucho Marx. Í umræðu sinni leggur Chancellor áherslu á mikilvægi þess að skoða félagslegt og sögulegt umhverfi fjármálabóla. Uppruni þeirra er í flestum tilvikum tengd nýrri tækni, mörkuðum og/eða fjárfestingaleiðum. Burtséð frá vaxtastigi hverju sinni er auðvelt vegna almennrar bjartsýni að fá lán. Ofurtrú myndast um framtíðina og væntingar koma fram um að hagsveiflur séu hluti af fortíðinni sem viska nýrra tíma sópar burtu. Hækkandi gengi hlutabréfa leiðir til bjartsýni sem skortir innstæðu. Með auðfengnum gróða á hlutabréfamörkuðum minnkar þolinmæði fólks á því að safna auði samhliða því sem lítið er gert úr auði, tilkomnum vegna harðrar vinnu og sparnaðar, sem er talin dyggð á flestum öðrum tímum. Nálægt toppi bólunnar eflist sú skoðun að bólan sé orðin of stór til að ríkisstjórnir leyfi henni að springa. Nærtækt dæmi hérlendis um slíkt er íslenska krónan, sem flestir áætluðu að myndi haldast sterk vegna vikmarka Seðlabanka Íslands. Í þeirri "vissu" tóku íslensk fyrirtæki mikið af erlendum lánum Þegar þau vikmörk brustu á síðasta ári veiktist krónan meira en flesta óraði fyrir sem leiddi til töluverðs gengistaps hjá mörgum fyrirtækjum.

Chancellor notar aðvörun sem Paul Warberg ritaði sex mánuðum áður en hrun hlutabréfamarkaðarins hófst árið 1929 sem lýsingu á því sem gerist þegar bólurnar springa: "Sagan, sem hefur með sársaukafullum hætti endurtekið sig, hefur kennt mönnum að þensla í áhættufjárfestingum hefur ávallt endað með of miklum samdrætti og örvæntingu... sem knýr fram almenna kreppu sem hefur áhrif á alla þjóðina."

Chancellor bendir á að á þenslutímum koma undantekningarlaust fram margskonar fyrirtæki með það að markmiði að misnota bjartsýni fólks með alls kyns brellum. Upp komast svik um síðir þegar bjartsýnin rennur af mönnum og farið er að athuga betur staðreyndir. Iðulega eru sett ný lög til að hamla áhættufjárfestingar og spillingu, aðeins til að gleymast í tímans rás.

Í bókinni er einnig að finna skemmtilega fróðleiksmola varðandi fjármál. Til dæmis að enska hugtakið "björn" (bear) kemur frá hinum þekkta málshætti að "selja skinn bjarnarins áður en maður hefur náð honum á meðan "boli" (bull) er upprunið frá þýsku sögninni büllen, sem þýðir að rymja og kemur því líklegast einnig frá samsvarandi hugmynd um birni. Annar skemmtilegur punktur er að flestar þær fjármálalegu afleiður sem margir telja vera nýjar af nálinni í dag eru í raun afar svipaðar þeim afleiðum sem komu fram á sjónarsviðið árin 1690 til 1696, þegar fjársjóðsleitir voru amazon.com þess tíma, og veittu afleiður fjárfestum tækifæri til enn frekari gróða ef heppnin fylgdi þeim, sem var fátítt. Þrátt fyrir að bókin hafi verið gefin út árið 1999, áður en bólan tengd veraldarvefnum náði hámarki, fer Chancellor ekki leynt með þá skoðun sína að augljós bóla væri í myndun, sem kom á daginn, og bendir á að aðstæður séu hliðstæðar því ástandi sem ríkti árin 1840 til 1845 þegar járnbrautir áttu að skapa nýjan heim. Það endaði með því að allt of margar járnbrautir voru lagðar í Bretlandi með ærnum tilkostnaði, svipað og gerðist nýlega með sóun fjármuna í tilraunir með veraldarvefinn. Báðar bólurnar leiddu til fjármálakreppu tveimur árum síðar. Það sem flestar fjármálabólur eiga sameiginlegt er sú hugsun að nýtt tímabil er að hefjast. Hinn þekkti sjóðstjóri, Sir John Templeton, á að hafa sagt að fjögur dýrustu orð enskrar tungu væru; "this time it's different", sem útleggst að í þetta sinn væru hlutir öðruvísi. Hlutirnir virðast á yfirborðinu vera öðruvísi, en við lestur Devil Take the Hindmost kemur glöggt fram að undir niðri er hringrásin sú sama, aðeins í breyttri mynd.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.