Guðbergur Bergsson
Guðbergur Bergsson
Um hugvitsama riddarann don Kíkóta frá Mancha. Fyrra bindi. Þýðing og formáli: Guðbergur Bergsson. Myndir: Gustave Doré. 493 bls. JPV-útgáfa. Prentun: Oddi hf. Reykjavík, 2002.

DON KÍKÓTI telst til heimsbókmennta. Þar með lítum við á verkið sem skyldulesningu líkt og Hamlet og Njálu. Í skólabókum stendur að þetta sé skopstæling á riddarasögunum, saga af stríðsmanni sem barðist við vindmyllur. Hvort tveggja má til sanns vegar færa en segir þó aðeins hálfan sannleikann - eða brot af honum réttara sagt. Riddarasögurnar töldust í raun til liðna tímans þegar Cervantes færði í letur þessa sögu sína. Hann var því fremur að beina geiri sínum að afkáraskapnum með samtíð sinni. Hugmyndaheimur riddarasagnanna snart ekki lengur samtíð hans. En í landi rannsóknarréttarins var hyggilegra að fela skopið og ádeiluna undir þessu yfirskini. Og meir en svo, því Cervantes lét sem hann hefði frásögur sínar eftir öðrum. Eflaust hafa landar hans áttað sig á hvar fiskur lá undir steini. Spánn stóð á hátindi valda sinna og áhrifa eftir landafundina. Gerbreytt heimsmynd kallaði á endurmat viðtekinna sanninda. Og þjóðlífið var mótsagnakennt. Stjórnarfarið var rotið og spillt. Fjöldi karla og kvenna naut lífsins í iðjuleysi undir handarjaðri kirkjunnar. Þrátt fyrir stöðugan flutning gulls og gersema frá nýja heiminum rambaði ríkið stöðugt á gjaldþrotsbarmi.

Cervantes hafði gengið í harðan skóla lífsins og víða flækst þegar hann tók að færa í letur sögu sína, meðal annars verið þræll í Barbaríinu. Hann hlaut því að þekkja mannlífið í þess fjölbreytilegustu myndum. Í hópi samtímaskálda voru Shakespeare og Lope de Vega. Cervantes og Shakespeare létust reyndar á sama árinu. Camôes og Rabelais voru eldri. Cervantes er talinn hafa tekið nokkurt mið af hinum síðar nefnda, beint eða óbeint.

Hugsjónamaðurinn don Kíkóti, sem er meira en lítið ruglaður í kollinum, hlýðir köllun sinni að gerast farandriddari, »ferðast um heiminn og rétta ranglæti og bæta böl,« eins og hann orðar það sjálfur. Á ferðum sínum hittir hann hann bláfátækan bónda, Sansjó Pansa, sem hann kýs sér að skjaldsveini. Sá fylgir honum dyggilega upp frá því. Riddarinn ríður hestinum Rósinant. Skjaldsveinninn má þar á móti láta sér nægja asna til reiðar. Don Kíkóti er haldinn þvílíkum ofskynjunum að hann sér óvinafjöld í hinu ólíklegasta sem á vegi hans verður, hvort heldur það er kvikt eða dautt. Atlögu hans að vegfarendum, sem eiga sér einskis ills von, er þá svarað af fullri hörku með þeim afleiðingum að kappinn hreppir margan skellinn og harða pústra og situr þá eftir með marga skrámuna. Ásannast þar með spakleg orð hans sjálfs að »engin staða er hættulegri en starf ævintýramannsins« og »ógæfan eltir jafnan hæfileikamanninn.«

Skáldverk þetta getur talist vera tengiliður síðmiðalda við nýöld. Frásagnarefnið með öllum sínum útúrdúrum og allri sinni flækju minnir um margt á riddarasögurnar. Ennfremur sá háttur að láta söguhetjuna fara víða og rata í háska og mannraunir. Í þriðja lagi má telja hlutverk ástmeyjarinnar sem er fjarlæg, undrafögur og alfullkomin að kvenlegri prýði en getur þó reynst hvort heldur sem er, trygg og staðföst eða hverflynd og duttlungafull. Hennar vegna og fyrir hana er auðvitað barist!

Mannlegi þátturinn á bak við allt málskrúðið vísar á hinn bóginn til þess sem koma skyldi. Ennfremur nákvæmar og oftar en ekki dálítið kómískar hversdagslífslýsingar. En skáldsaga í nútímaskilningi er þetta ekki; líkist fremur þjóðsagnasafni eða sagnasyrpu. Staðanöfn og mannanöfn, sem fyrir koma, eru nær óteljandi; sumstaðar heilu nafnarunurnar. Ljóst er að Cervantes höfðar beint til samtíðar sinnar. Ísmeygileg kaldhæðni hans og kátlegar þversagnir hafa vafalaust hitt beint í mark. Landar hans hafa meðtekið vísdóminn á bak við ýkjurnar og skemmt sér við lesturinn líkt og t.d. Reykvíkingar sem hlógu dátt undir revíunum á fyrri hluta liðinnar aldar. Með skaupi sínu hefur Cervantes haft víðtæk áhrif. Sýnt hefur verið fram á, svo dæmi sé tekið, að Holberg hafi sótt til hans augljósar fyrirmyndir. Og sögur af flækingum, sem minna á þá kumpánana, hafa einatt verið að koma fram á sjónarsviðið og notið vinsælda, allt til dagsins í dag.

Fyrsta útgáfa don Kíkóta í íslenskri þýðingu kom út fyrir tuttugu árum. Guðbergur kveðst nú hafa endurskoðað verk sitt og farið þá eftir nýjum og upprunalegri textum. Þýðing Guðbergs er hin vandaðasta með þeirri undantekningu þó að nokkuð skortir á hagmælskuna þegar þýðandi glímir við bundna málið. Vísast er það ekki hans sterka hlið. Hvergi er verið að fyrna mál til að minna á aldur ritsins. Óbeinar staðfærslur koma óvíða fyrir. Til slíks má þó telja »sundvörðu [...] gefa fimmeyring í það fjas« og »höggva í sama knérunn«. Það sem þýðandi segir um höfundinn, verk hans og samtíð, getur maður kallað stílfléttur og frjálslegt hugarflug að hætti Guðbergs fremur en markvissa og efnislega ritskýring.

Nöfn aðalsöguhetjanna hefur þýðandi lagað að íslenskum framburði og stafsetningu. Á titilsíðu bókarinnar, sem kom út año 1605, stendur don Qvixote. Í útgáfu þeirri, sem þýðandi fer eftir, nefnist hetjan don Quijote. Skjaldsveinninn heitir í sögunni Sancho Panza. Þýðandi breytir því í Sansjó Pansa. Don Kíkóti kennir sig við Mancha. Það lætur þýðandinn standa óbreytt. Ósennilegt verður að telja að þetta mikla verk verði íslenskað aftur í bráð. Því má ætla að nafngiftir Guðbergs - sem vissulega orka tvímælis þar sem spænsk tunga er ekki lengur það framandi tungumál sem áður var - muni hér með vinna sér hefð í íslenskri bókmenntafræði.

Útgefandi hefur gert bókina svo veglega úr garði sem prýðilegast má hæfa stórverki af þessu tagi.

Erlendur Jónsson