Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa, og Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, yfirgefa fundarstað eftir undirskriftina.
Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa, og Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, yfirgefa fundarstað eftir undirskriftina.
SAMKOMULAG um sölu á stærstum hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands var undirritað í gær. Það voru Egla ehf.

SAMKOMULAG um sölu á stærstum hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands var undirritað í gær. Það voru Egla ehf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, Samvinnulífeyrissjóðurinn og Vátryggingafélag Íslands sem undirrituðu samkomulagið annars vegar og hins vegar framkvæmdanefnd um einkavæðingu.

Alls verður 45,8 prósenta hlutur í bankanum seldur fjárfestahópnum en söluverð er rúmlega 11,9 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að afhending hlutabréfanna og greiðsla verði tvískipt en annars vegar verða 27,48 prósent hlutafjár afhent í kjölfar undirritunar kaupsamnings og hins vegar 18,32 prósent eigi síðar en 20. desember á næsta ári. Eignarhlutur ríkisins í bankanum að sölu lokinni verður um 9 prósent.

Meðalgengi viðskiptanna er 4,81 og er stefnt að undirritun kaupsamnings fyrir næstu áramót en samkomulagið er gert með fyrirvara um áreiðanleikakönnun beggja aðila.

Að Eglu ehf. standa Ker hf., Samvinnutryggingar ehf. og síðar fjölþjóðleg fjármálastofnun sem mun eiga verulegan hlut þess sem keypt verður. Gert er ráð fyrir að greint verði frá því hver hinn erlendi fjárfestir er innan skamms.

Eftir auglýsingu einkavæðingarnefndar hinn 10. júlí síðastliðinn sýndu fimm hópar fjárfesta áhuga á kaupum á hlutabréfum í Landsbanka og Búnaðarbanka.

Tæpur mánuður er síðan gengið var frá samkomulagi um sölu á 45,8 prósenta hlut í Landsbankanum til Samsonar ehf. en söluverðið var 12,3 milljarðar króna. Samhliða þeirri undirritun var ákveðið að ganga til viðræðna við tvo hópa fjárfesta um sölu á stærstum hlut ríkisins í Búnaðarbankanum og varð S-hópurinn svonefndi fyrir valinu.

Nokkrar breytingar urðu á samsetningu S-hópsins í viðræðuferlinu, sem fól aðallega í sér að VÍS gerðist aðili að hópnum, en Samskip, Fiskiðjan Skagfirðingur o.fl. féllu út.