Vestmannaeyjar: Knattspyrnufélagið Týr 70 ára Nýr íþróttasalur við félagsheimili Týs vígður Vestmannaeyjum. Knattspyrnufélagið Týr varð 70 ára 1. maí sl.

Vestmannaeyjar: Knattspyrnufélagið Týr 70 ára Nýr íþróttasalur við félagsheimili Týs vígður Vestmannaeyjum. Knattspyrnufélagið Týr varð

70 ára 1. maí sl. Í tilefni afmælisins var vígður nýr íþróttasalur og tengibygging sem byggð hafa verið við félagsheimili Týs við Hástein. Afmælishátíð var síðan haldin í nýja íþróttasalnum, þar sem fjöldi félaga var heiðraður fyrir mikil störf í þágu félagsins og íþróttahreyfingarinnar.

Nýi íþróttasalurinn er 15x30 metrar á stærð, en auk þess er í húsinu þreksalur og leiktækjasalur. Jarðvegsvinna við bygginguna hófst í maí á sl. ári en í júlí hófst uppsláttur og hefur verið unnið við húsið sleitulaust síðan. Mikil sjálfboðavinna var unnin af félögum í Tý við bygginguna en nokkrir verktakar sáu um hina ýmsu verkþætti.

Við vígsluna rakti Ævar Þórisson, framkvæmdastjóri Týs, byggingarsögu hússins. Birgir Sveinsson, formaður Týs, flutti ávarp og þakkaði öllum þeim sem lagt höfðu hönd á plóginn auk þess sem hann þakkaði fjölda gjafa sem bárust félaginu. Séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson, sóknarprestur, vígði síðan íþróttahúsið. Bragi I. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar, Ómar Garðarsson, formaður ÍBV, og Guðmundur Þ.B. Ólafsson, tómstundaog íþróttafulltrúi, fluttu stutt ávörp og óskuðu félaginu allra heilla á þessum tímamótum.

Aðstaða á félagssvæði Týs við Hástein er nú orðin mjög góð. Öll aðstaða til íþróttaiðkunar er nú til staðar þar sem félagið hefur bæði grasvöll og íþróttahús. Auk þess er góð aðstaða fyrir fundi og annað félagsstarf.

Í tilefni vígslu íþróttahússins var bæjarbúum boðið í kaffi í Týsheimilinu. Fjölmenntu Eyjamenn í kaffið um leið og þeir skoðuðu nýja íþróttahúsið.

Týrarar héldu síðan veglega afmælisveislu í félagsheimilinu. Þar var snæddur hátíðarkvöldverður, félagar voru heiðraðir, slegið var á létta strengi og síðan stiginn dans fram eftir nóttu. Á afmælishófinu voru 75 Týrarar sæmdir gullmerki félagsins, 51 hlaut gullmerki og tíu voru gerðir að heiðursfélögum fyrir vel unnin störf.

Fulltrúar ÍSÍ, HSÍ og KSÍ komu í afmælishófið og sæmdu nokkra Týrara viðurkenningum fyrir góð störf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Stefán Örn Jónsson hlaut gullmerki HSÍ, Marteinn Guðjónsson og Jóhann Ólafsson fengu gullmerki KSÍ og Guðjón Magnússon og Adolf Óskarsson voru sæmdir gullmerki ÍSÍ.

Félaginu barst fjöldi gjafa og kveðja á afmælishátíðinni. Að lokinni dagskrá afmælishófsins var flugeldasýning utan við Týsheimilið en síðan stigu Týrarar og gestir þeirra dans fram eftir nóttu.

Grímur

Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson

Félagsheimili og íþróttahús Týs við Hástein.

Birgir Sveinsson, formaður Týs, með einn 70 bolta sem félaginu voru færðir að gjöf frá Mitreumboðinu.