Bræðurnir Ágúst og Sveinn Valfells afhenda Snævari Guðmundssyni stjörnukíkinn í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi.
Bræðurnir Ágúst og Sveinn Valfells afhenda Snævari Guðmundssyni stjörnukíkinn í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi.
BRÆÐURNIR og verkfræðingarnir Sveinn og Ágúst Valfells afhentu á föstudag Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness stærsta stjörnusjónauka landsins. Sjónaukann gáfu þeir Valfells-bræður til minningar um systur sína, dr.

BRÆÐURNIR og verkfræðingarnir Sveinn og Ágúst Valfells afhentu á föstudag Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness stærsta stjörnusjónauka landsins. Sjónaukann gáfu þeir Valfells-bræður til minningar um systur sína, dr. Sigríði Valfells málfræðing, sem lést hausið 1998, sextug að aldri, en tilgangurinn er einnig að efla áhuga almennings á raunvísindum.

Ágúst H. Bjarnason, gjaldkeri Stjörnuskoðunarfélagsins, segir að formlega afhending sjónaukans hafi dregist nokkuð þar sem nauðsynlegt hafi verið að gera breytingar á turninum á Valhúsaskóla þar sem aðsetur félagsins er. Þar hefur félagið lítið herbergi til afnota en uppi á þaki skólans er síðan hvolfþak, sem gengur á teinum, þar sem nýi sjónaukinn er. Auk hans á félagið tvo aðra minni sjónauka.

"Þetta er nokkuð góður kíkir og mikil bót fyrir okkur að fá hann. Kíkirinn ræður við nokkuð mikla stækkun, spegillinn er 46 sentmetrar, en það sem menn eru kannski frekar að sækjast eftir er að geta séð dauf fyrirbæri og magnað þau upp. Þessi hefur líka það fram yfir þá sem við áttum fyrir að hann er með tölvu sem hægt er að láta leita uppi tilteknar stjörnur, m.ö.o. þegar búið er að stilla sjónaukann af getur maður svo að segja slegið inn hnitin og þannig fundið stjörnuna sem maður er að leita að. Þannig að það er mikill munur að hafa fengið þennan kíki."

Ágúst segir að Sveinn Valfells eigi sjálfur nokkuð stóran sjónauka og sé mikill áhugamaður um stjörnuskoðun og Ágúst Valfells, kjarnorkuverkfræðingur og fyrrverandi prófessor í Bandaríkjunum, sé væntanlega áhugamaður líka, en báðir séu þeir áhugamenn um að efla áhuga manna á raunvísindum.

Dr. Sigríður Valfells var doktor í málvísindum frá Harvard-háskóla og kenndi m.a. við Washington-háskóla í Seattle og við Columbia-háskólann í New York. Auk fræðilegra greina skrifaði Sigríður m.a. kennslubók í forníslensku sem gefin var út af Oxford University Press.