Íslandsmeistararnir í parasveitakeppni. Talið frá vinstri: Björk Jónsdóttir og systkinin Jón, Ásgrímur og Stefanía Sigurbjörnsdóttir.
Íslandsmeistararnir í parasveitakeppni. Talið frá vinstri: Björk Jónsdóttir og systkinin Jón, Ásgrímur og Stefanía Sigurbjörnsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Siglfirðingar unnu eftir hörkukeppni Ísak Örn Sigurðsson sendi þættinum umsögn um parasveitakeppnina sem fram fór um síðustu helgi. Hún fer hér á eftir nokkuð stytt: Hið árlega og vinsæla Íslandsmót í parasveitakeppni var haldið helgina 23.-24.

Siglfirðingar unnu eftir hörkukeppni

Ísak Örn Sigurðsson sendi þættinum umsögn um parasveitakeppnina sem fram fór um síðustu helgi. Hún fer hér á eftir nokkuð stytt:

Hið árlega og vinsæla Íslandsmót í parasveitakeppni var haldið helgina 23.-24. nóvember síðastliðinn. Þetta skemmtilega mót verður sterkara með hverju árinu sem líður og langflestar af sterkustu spilakonum landsins meðal keppenda. Að þessu sinni skráðu 20 sveitir sig til leiks og eins og flestum er kunnugt, er gengið út frá því að kona og karl spili saman í pörum. Fjölmargar sveitir voru taldar líklegar til afreka í mótinu en gengi þeirra líklegustu var misjafnt. Að loknum fyrri spiladegi munaði aðeins 5 stigum á fimm efstu sveitunum. Sveit Kristjönu Steingrímsdóttur var með nauma forystu og 75 stig, sveit Estherar Jakobsdóttur var með 74, Önnu Ívarsdóttur 73, Bjarkar Jónsdóttur 72 og Hörpu 70 stig. Firnasterk sveit Ljósbrár Baldursdóttur vermdi þá áttunda sætið með 66 stig.

Sveitir Kristjönu og Hörpu gáfu nokkuð eftir síðari keppnisdaginn en sveitir Ljósbrár og Maríu Haraldsdóttur blönduðu sér í toppbaráttuna. Fyrir lokaumferðina var sveit Estherar með 118 stig, sveit Bjarkar með 113 stig og Anna Ívarsdóttir með 111 stig. Sveit Önnu spilaði gegn sveit Ljósbrár í síðustu umferðinni og Esther gegn Björk. Björk hafði 18-12 sigur í lokaleiknum og vann þar með sigur í mótinu með minnsta mun, aðeins einu stigi. 13-17 tap hefði dugað sveit Esthers til sigurs í mótinu. Sveit Ljósbrár vann góðan sigur 20-10 gegn Önnu í síðustu umferðinni og fyrir vikið náði sveit Maríu Haraldsdóttur að skjótast upp í þriðja sætið með 25-4 sigri. Gaman er að segja frá því að meðal keppenda á mótinu var Soffía Guðmundsdóttir frá Akureyri, en hún gefur ekkert eftir í spilamennskunni og fagnaði 84 ára afmælisdegi sínum á mótinu. Sveit hennar (Kristjana Steingrímsdóttir) hafnaði í 7. sætinu á mótinu.

Að lokum er hér úr úrslitaleiknum milli sveita Bjarkar og Estherar í síðustu umferðinni. Vestur gjafari og AV á hættu:

Norður
ÁG1082
G964
K105
3

Vestur Austur
94 K73
5 108732
D63 Á984
KDG8742 10

Suður
D65
ÁKD
G72
Á965

Segja má að þetta hafi verið spilið sem ákvarðaði hvor sveitin, Esther eða Björk, hafnaði í fyrsta sætinu. Á báðum borðum opnaði vestur á hindrunarsögninni þremur laufum. Spilarinn í sveit Bjarkar í sæti suðurs valdi að segja þrjú grönd og fékk 9 slagi í þeim samningi. Spilarinn í sveit Estherar í suðursætinu valdi að dobla og norður sagði 4 lauf til að biðja suður um að velja á milli hálitanna. Suður valdi 4 hjörtu sem fóru einn niður en hefði næsta örugglega staðið 4 spaða ef hann hefði valið þá sem lokasamning.