Foreldrar, prísið ykkur sæl með að geta farið með börnin á Harry Potter í stað Power Rangers, Teenage Mutant Ninja Turtles eða viðlíka ófagnaðar.
Foreldrar, prísið ykkur sæl með að geta farið með börnin á Harry Potter í stað Power Rangers, Teenage Mutant Ninja Turtles eða viðlíka ófagnaðar.
VIÐ lifum á tímum sem þegar fram líða stundir verða álitnir gullöld afþreyingarbíósins. Á þessu leikur ekki vafi í huga mínum.

VIÐ lifum á tímum sem þegar fram líða stundir verða álitnir gullöld afþreyingarbíósins. Á þessu leikur ekki vafi í huga mínum. Auðvitað telur hver kynslóð sig hafa lifað slíka tíma og vísa til "gömlu góðu" þöglu skrítlnanna, vestranna, B-myndanna, dans- og söngvamyndanna, stjörnustríða og súpermanna. En enginn þeirra hefur upplifað með réttu móti það Potter - og Hringadróttinsæði sem nú er í algleymingi - 22.363 á einni helgi geta varla haft rangt fyrir sér.

MIKILL var hann léttirinn að sjá annað bindi Pottersins ganga svona glimrandi vel upp - og óvænt ánægja að auki. Satt best að segja batt maður aldrei miklar vonir við að leikstjóri Bicentennial Man og Nine Months ætti eftir að leysa þetta vandasama verk svo vel af hendi. Fyrsta myndin slapp fyrir horn, var skemmtilegt stundargaman, skotheld afþreying fyrir alla fjölskylduna, og kom Potter á bíókortið, en ekkert meira en það. Tilhugsunin um að halla tæki undan fæti strax í öðru af sjö binda bálki var síður en svo girnileg. Það hefði nefnilega þýtt margra ára ógæfu og vansæld í hvert sinn sem ný mynd yrði frumsýnd með tilheyrandi markaðsbombu. En blessunarlega þá reyndist önnur myndin fremri þeirri fyrstu í nær alla staði og mun frekar í anda bókarinnar en sú fyrsta. Chris Columbus , náttúrlega með góðum stuðningi handritshöfundarins Steve Kloves , hefur klárlega skilið efnið og gerir í raun miklu meira en hægt var að búast við af honum því í reynd bætir hann slökustu Potter-bókina, skerpir söguþráðinn og leggur áherslu á þá þætti sem mest spennandi voru. Það bætir og að færri málamiðlanir voru gerðar, minna reynt að draga úr dulmögnuninni og skelfingunni sem í textanum felst til þess að þóknast breiðari áhorfendahópi, og þá sér í lagi yngstu áhorfendunum, sem sagan á náttúrlega fyrir það fyrsta ekkert erindi við.

Þannig er Leyniklefinn sönn ævintýramynd á meðan Viskusteinninn reyndist alltof mikil barna- og fjölskyldumynd til að geta talist vel heppnuð.

Sama gildir um Hringadróttinssögu sem er sérdeilis vel úr garði gerð, í það minnsta fyrsti hluti hennar, sem gengur nærri því að vera einhver allra besta ævintýramynd sem gerð hefur verið.

Auðvitað er það algjör munaður fyrir æskuna í dag að fá notið slíkra mynda á "réttum aldri". Í það minnsta öfunda ég þau - þótt vissulega geti maður vel haft gaman af þessum myndum, sama á hvaða aldri maður er því sögurnar eru og verða sígildar.

Og ekki nóg með að þessir mögnuðu myndabálkar séu rétt að hefjast heldur eru þeir þegar farnir að smita út frá sér og stuðla að gerð fleiri sams konar mynda sem gerðar verða eftir safaríkum og sígildum sögum. Þannig hefur þegar verið hafist handa við kvikmyndun The Lion, the Witch and The Wardrobe eftir C.S. Lewis í leikstjórn Andrew Adamson sem síðast gerði Shrek. Á næsta ári hefjast tökur á Artemis Fowl, sem byggist á nokkurs konar skilgetnu afkvæmi Potter -bókanna, sögu eftir írska rithöfundinn Eoin Colfer. Líkt og Potter , fjallar hún um 12 ára dreng, Artemis, sem býr yfir töframætti. Eini munurinn er sá að Artemis er glæpasnillingur. New Line-fyrirtækið, sem nú baðar sig í velgengni Hringadróttinssögu, hefur tryggt sér réttinn á öðrum ævintýralegum þríleik sem það bindur miklar vonir við, en sá heitir Northern Lights og er eftir Philip Pullmann . Um er að ræða fantasíu sem segir frá ævintýralegu ferðalagi tveggja krakka yfir nokkrar víddir. Tom Stoppart hefur verið fenginn til að skrifa kvikmyndahandritin. Að endingu má svo ekki gleyma þeim áhrifum sem Hringadróttinssaga er talin kunna að hafa, og er kannski þegar farið að gæta, en það er áhugi stórra aðila á kvikmyndun Íslendingasagnanna. Nú þegar eru íslenskir kvikmyndagerðarmenn með nokkrar slíkar í burðarliðnum, myndir sem byggjast munu á Njálu, Fóstbræðrasögu og Grettissögu t.a.m. og Sturla Gunnarsson er að gera Bjólfskviðu. Allt sögur sem burði hafa til að ná til milljóna Hringadróttins-þyrstra um heim allan, sé rétt haldið á spöðunum.

Já, við lifum á gullaldartíma ævintýramynda, þar sem potturinn og pannan eru Harry Potter , Fróði Baggi og allt þeirra föruneyti. Njótið þeirra og hugsið um leið til þeirra hörmungartíma þegar þið neyddust til að fara með börnin á Mighty Morphin Power Rangers og Teenage Mutant Ninja Turtles.