Atvinnumöguleikar fólks sem útskrifast úr starfsmenntaskólunum eru góðir í flestum greinum og afkoma þeirra síst lakari en annarra í þjóðfélaginu. Hlutfall nemenda í verknámi hefur verið að dragast saman.
Atvinnumöguleikar fólks sem útskrifast úr starfsmenntaskólunum eru góðir í flestum greinum og afkoma þeirra síst lakari en annarra í þjóðfélaginu. Hlutfall nemenda í verknámi hefur verið að dragast saman.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölbreytt nám fer fram innan veggja verkmenntaskólanna sem gefur ýmsa áhugaverða möguleika. Þróunin hefur verið sú að nemum í hinum hefðbundnu iðngreinum er að fækka en fjölga í öðrum greinum sem kenndar eru innan skólanna. Hildur Einarsdóttir kannaði hvað er að gerast í iðnfræðslumálum en ýmislegt bendir til þess að í framtíðinni muni verða aukin ásókn í hagnýtara og styttra nám.

Nú er komið að því að ég þarf að velja framhaldsskóla. Ég er búin að ákveða að verða hárgreiðslukona en er ekki viss um hvort ég ætti frekar að taka stúdentspróf. Það er þannig að fjölskyldu minni finnst ég geta gert betur en að fara bara í hárgreiðslu. Þess vegna er ég að pæla í að taka stúdentsprófið á undan til að valda þeim ekki vonbrigðum. Hvað get ég gert?" Þannig hljóðaði spurning sem send var á gagnvirkan upplýsingavef Samtaka iðnaðarins, www.idnadur.is þar sem fólk getur fengið upplýsingar um nám og störf í iðnaði.

Flestir kannast við þann vanda að vita ekki hvað maður vill. Það er svo helmingi erfiðara að vita hvað maður vill en telja sig verða að gera eitthvað annað til þess að þóknast öðrum. En ætli flestir séu ekki sammála þeim sem svaraði stúlkunni og talaði um að allt nám væri mikilvægt og eitt nám þyrfti ekki að útiloka annað. Hvað hentaði hverjum og einum færi eftir áhugasviði getu og dugnaði. "Iðnnám er ekki andstæða langskólanáms. Það er í raun sorglegt hvernig skorið er á milli verknáms og bóknáms í huga fólks. Flest störf fela nefnilega í sér blöndu af verklegri og bóklegri kunnáttu. Í fjölbreytilegu þjóðfélagi nútímans er eftirspurn eftir fólki með fjölbreytilega samsetningu náms," segir Ingi Bogi Bogason, menntafulltrúi Samtaka iðnaðarins.

Fjölbreytt og hagnýtt nám

Í iðnskólum landsins sem eru tveir, Iðnskólinn í Reykjavík og Iðnskólinn í Hafnarfirði og í fjölbrautarskólum, sem margir bjóða upp á iðnnám, fer fram fjölbreytt og áhugavert nám fyrir þá sem vilja fara í styttra og hagnýtara starfsnám. Atvinnumöguleikar fólks sem útskrifast úr skólunum eru góðir í flestum greinum og afkoma þeirra síst lakari en annarra í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir þetta hefur sveinsprófum verið að fækka frá fyrri hluta tíunda áratugarins eða um 14%. Á þetta einkum við um fjölmennu iðngreinarnar eins og byggingar- og málmiðngreinar og svo bílgreinarnar. Skýringa á þessu er meðal annars að leita í breyttum atvinnuháttum sem hafa leitt til þess að nemendur sækja í annað nám auk breytinga á iðnfræðslukerfinu sem fólust í auknum, almennum bóknámskröfum. Efnahagsþróun á tíunda áratugnum virðist líka hafa haft sitt að segja. Á þessu tímabili var töluverð þensla í þjóðfélaginu og virðist hún hafa haft þau áhrif að draga úr fjölda þeirra sem luku sveinsprófi eins og Ingibjörg Björnsdóttir bendir á í rannsókn sinni á iðnfræðslukerfinu á 20. öld.

Þróunin hefur líka verið sú að hlutfall nemenda í verknámi hefur verið að dragast saman jafnt og þétt undanfarna áratugi og er nú svo komið að framhaldsskólarnir útskrifa að mestu stúdenta.

Í samanburðarlöndum okkar er það einnig áhyggjuefni að ekki nógu margt ungt fólk kýs iðn- og tækninám. Samt er hlutfall tæknimenntaðra hærra þar en hér.

Á málþingi Samtaka iðnaðarins um stöðu iðnmenntunar á Íslandi í apríl síðastliðnum lýstu forsvarsmenn iðnfyrirtækja yfir áhyggjum sínum á minnkandi aðsókn ungs fólks í iðnnám. Magnús Þór Ásmundsson, framkvæmdastjóri framleiðsluferils Marels, sagði meðal annars í erindi á þinginu að fyrirtækið gerði ráð fyrir 10-15% vexti á komandi árum. Væri erfitt að sjá hvernig það færi saman við þá öfugu fylgni sem virtist vera við nýliðun í röðum iðnlærðra, enda ylli það þeim hjá Marel verulegum áhyggjum. En fyrirtæki eins og Marel væru mjög háð málm- og rafiðnaði.

Magnús sagði jafnframt að ef ekkert yrði að gert væri augljóst að verkefni myndu tapast til útlanda með þeim verðmætum sem annars hefðu skapast hér heima. Hægt væri að flytja inn erlent vinnuafl eins og gert hefði verið undanfarin misseri í ýmsum iðngreinum. Slíkt fæli aðeins í sér tímabundna lausn og skapaði ekki metnað eða hefð í íslenskum iðnaði. "Það þarf að byggja upp iðnmenntakerfi til samræmis við það sem gert er í samkeppnislöndunum og taka mið af þörfum atvinnulífsins og koma þarf á víðtæku samstarfi til að laða unga fólkið að," sagði hann.

Leiðin greið inn í háskóla

Í Iðnskólanum í Reykjavík, sem er stærsti framhaldsskóli landsins með rúmlega 2.000 nemendur, hefur orðið fjölgun í skólanum á umliðnum árum en hlutfall iðnnema hefur lækkað. "Það hefur einkum orðið fækkun hjá okkur í hinum hefðbundnu iðngreinum eins og húsasmíði, húsgagnasmíði, veggfóðrun og bólstrun og þá ekki síst í múrsmíði. Einnig er lítil aðsókn í málmiðnað. Undantekning frá þessu er málaradeildin. Þar hefur öfugt við hinar deildirnar orðið fjölgun nemenda. Það eru alltaf nokkrar greinar sem halda alltaf hlut sínum og það á við um rafiðnaðargreinarnar í heild sinni," segir Baldur.

Í Iðnskólanum í Hafnarfirði hefur hins vegar orðið töluverð fjölgun í hefðbundnum iðngreinum á síðustu árum.

Þegar skoðaðar eru tölur yfir fjölda nemenda í einstökum deildum bæði í Iðnskólanum í Reykjavík og í Hafnarfirði kemur í ljós að fjölgun nemenda hefur mest orðið í greinum sem ekki teljast til hefðbundinna iðngreina eins og á tölvufræðibraut Iðnskólans í Reykjavík. En segja má að í Iðnskólanum í Reykjavík sé rekinn stærsti tölvuskóli landsins og á listnámsbraut Iðnskólans í Hafnarfirði þar sem eru kennd undirstöðuatriðin í list- og iðnhönnun.

Í Iðnskólanum í Hafnarfirði þar sem eru rúmlega 500 nemendur gat skólinn ekki tekið við 200 nemendum sem sóttu um skólavist en flestir af þeim vildu komast á listnámsbrautina. Þykir hönnunarnámið hvort sem það er kennt í Iðnskólanum í Hafnarfirði eða Iðnskólanum í Reykjavík góður undirbúningur fyrir Listaháskóla Íslands og samsvarandi skóla erlendis. Frá listnámsbrautum iðnskólanna hafa nemendur til dæmis farið í nám í arkitektúr bæði hér á landi og erlendis. Þá er leiðin greið inn í háskóla og tækniháskóla - fyrir þá iðnnema sem það kjósa. Það á ekki síst við núna því samkvæmt nýjum reglum sem menntamálaráðuneytið setti á síðasta ári um viðbótarnám við starfsnám, þá geta iðn- og starfsnámsnemar bætt við sig einingum í almennum greinum, íslensku, stærðfræði, raungreinum og tungumálum til að öðlast stúdentspróf.

Þegar litið er þrjú ár aftur í tímann þá hefur einnig orðið veruleg fækkun nemenda í bakaraiðn, kjötiðn og framreiðslu en jöfn og vaxandi ásókn hefur verið í nám í matreiðslu. En þessar greinar eru kenndar innan Hótel- og matvælaskólans í Kópavogi.

Ólafur Jónsson, framkvæmdastjóri Fræðsluráðs hótel- og matvælagreina, segir skýringuna á fækkun í ofantöldum greinum meðal annars stafa af því að aukin sérhæfing hafi orðið í kjötvinnslugreinunum og í bakaríum sem þýðir að vinnslustaðirnir eiga ekki eins gott með að taka nema á samning. Og þar eð sérhæfingin er að aukast hefur þróunin verið sú að ófaglært starfsfólk er ráðið til að sinna þessum störfum.

Óþols gætir hjá iðnfyrirtækjum

Þegar skoðuð er námsskrá Iðnskólanna í Reykjavík og Hafnarfirði er athyglisvert að sjá hvað fjölbreytnin í náminu er mikil. Fyrir utan þær iðngreinar sem við höfum þegar nefnt er hægt að læra í dagskóla Iðnskólans í Reykjavík, jafnólíkar greinar eins og tækniteiknun, gull- og silfursmíði, rafveituvirkjun, forritun og kjólasaum. Auk þess sem skólinn býður upp á meistaranám fyrir þá sem hafa lokið sveinsprófi í iðngreinum.

Í Iðnskólanum í Hafnarfirði er fyrir utan grunn- og framhaldsdeildir í hár- málm-, raf-, og tréiðnaði hægt að leggja stund á bóklegt nám fyrir samningsbundna nemendur í mörgum iðngreinum og eru þar pípulagninga-, húsasmiða-, og vélvirkjanemar fjölmennastir. Einnig er kennd gluggaútstilling, tækniteiknun og á listnámsbrautinni er að finna greinar sem ekki eru kenndar annars staðar eins og hönnun hluta úr margskonar plastefnum þar með talið trefjaplasti. Þá hafa verið haldin ýmis námskeið til dæmis í eldsmíði, tölvuteikningu og smíði úr trefjaplasti.

Samkvæmt lögum eru það fjórtán starfsgreinaráð, sem skilgreina eiga þarfir atvinnulífsins fyrir menntun og móta þannig námskrár iðnskólanna. Í ráðunum sitja fulltrúar atvinnulífsins í meirihluta. Þar hefur gætt mikils óþols vegna þess hve hægt hefur gengið að koma á nýjum námsskrám og nýjum kennsluháttum í iðnskólunum. "Stafar óþolinmæðin af því að á meðan iðntækninni fleygir fram er viðbragðshraði menntamálaráðuneytisins of hægur til þess að unnt sé að uppfylla þarfir atvinnulífsins fyrir menntun við hæfi," segir Ingólfur Sverrisson, deildarstjóri hjá Samtökum iðnaðarins. "Íslenskur iðnaður er í brýnni þörf fyrir þjónustu menntakerfisins en þess sjást lítil merki að raunhæft sé tekið á því verkefni að efla iðnmenntunina. Þau iðnfyrirtæki sem hér starfa eru flest í samkeppni á alþjóðavettvangi og þurfa að geta staðist þá samkeppni bæði hvað varðar tækni og gæði.

Til þess að bæta úr þessu þarf að vera mögulegt fyrir fyrirtækin á hverjum tíma að koma hæfniskröfum sínum til skila inn í námsskrárnar. Í öðru lagi þurfa verkmenntaskólarnir að hafa aðstöðu, tæki og hæfni til að geta kennt samkvæmt þessum námsskrám. Og í þriðja lagi þarf að vera aðgengilegt námsefni fyrir skólana til að kenna eftir."

Tækjakostur mætti vera betri

Þegar rætt er um það við skólameistarana tvo hvar skórinn kreppi einkum þá kemur fram í máli þeirra að brýnt sé að iðnskólarnir fylgist vel með tækninýjungum. Þeir segja skólana ekki búa við slæman tækjakost en hann mætti vera betri. "Iðnskólarnir þurfa gríðarlega mikið fjármagn til endurnýjunar á tækjabúnaði. Ef við fengjum tvöföldun á þeim lið sem ætlaður er til tækjakaupa værum við í góðum málum," segir Baldur Gíslason, skólameistari Iðnskólans í Reykjavík. "Það er ljóst að eins og fé hefur verið veitt til skólanna þá hafa verknámsskólar ekki fengið það sem þeir þurfa."

Jóhannes Einarsson, skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði, segir iðnmenntun hafa verið að þróast frá handverki í átt að tæknifræði. Þetta gerist vegna aukinnar tækniuppbyggingar og hafi Iðnskólinn í Hafnarfirði leitast við að fylgja þeirri þróun eftir. "Við vorum til dæmis að taka í gagnið fullkomna tólf manna kennslustofu fyrir málmiðnaðinn þar sem verður hægt að kenna nemendum á mismunandi gerðir tölvustýrðra véla, svokallaðar CNC-vélar. Þetta er sama tækni og er notuð í framsæknum fyrirtækjum svo sem Marel, Össuri og Baader, Héðni og mörgum fleiri. Er nú nýhafið fyrsta námskeiðið í þessari stofu og eru nemendur starfsmenn ofannefndra fyrirtækja."

Námsgagnagerð situr á hakanum

Það kemur fram í máli skólameistaranna að bókakostur fyrir starfsmenntagreinarnar þar sem eru tiltölulega fáir nemendur sé lélegur. "Það er langt frá því að lagðir séu nógu miklir fjármunir í þá útgáfu. Þyrfti að styrkja hana mun meira. Iðnú gefur út stærsta hlutann af bókum í starfsmenntun og gerir það í raun af miklum vanefnum. Að gefa út bók fyrir 50 manna hóp er ekki mjög gróðavænlegt," segir Baldur.

"Menntamálaráðuneytið veitir styrki til námsefnisgerðar en sú upphæð er allt of lág. Á þessu ári á að veita 18,2 milljónum til námsgagnagerðar fyrir alla framhaldsskólana í landinu sem er ótrúlega lág upphæð. Fær Iðnú ekki nema lítinn hluta af þeirri fjárhæð.

Til viðbótar má nefna að í sumum greinum iðnaðar breytist umhverfið svo hratt að bækur úreldast á einum til tveimur árum."

Húsnæðið sprungið

Segja má um báða iðnskólana að húsnæði þeirra sé of þröngt.

Hvað varðar húsnæði Iðnskólans í Reykjavík þá var byggt myndarlega yfir hann í Reykjavík fyrir 50 árum. Húsnæðið tók þá mið af bóknámskennslu þegar það var byggt en þá var verknám ekki í skólanum heldur úti á markaðnum. Nú er verknámið komið meira og minna inn í skólann og því þarf meiri verknámsaðstöðu," segir Baldur.

"Við eigum draum um fleiri byggingar. Því við erum að vona að við fáum að byggja nýtt anddyri fyrir skólann, skemmtilegt glerhýsi til að skapa miðju í skólanum eins og skólar þurfa að hafa, þar sem allir geta komið saman. Þar myndum við vera með bóksölu og bókasafnið sem er á hrakhólum hjá okkur."

Iðnskólinn í Hafnarfirði er nú í 4.350 fermetra nýju húsi við Flatahraun sem var tekið í notkun árið 2000. Nú í haust tók skólinn í gagnið 600 fermetra viðbótarverknámsrými. "Við búum ekki rúmt ef miðað er við rými sem sambærilegir skólar erlendis hafa," segir Jóhannes.

"Þetta er fyrsta skólahúsið sem er byggt sérstaklega fyrir skóla í einkaframkvæmd, þ.e. einkafyrirtæki á og rekur skólahúsið. Í raun er húsið aftur sprungið utan af okkur þar eð við gátum ekki tekið við öllum þeim nemendum sem sóttu um skólavist í haust."

Góð tengsl við atvinnulífið nauðsynleg

Skólameistararnir telja það grundvallaratriði að skólarnir séu í góðum tengslum við atvinnulífið en töluverð vöntun hafi verið á því. "Ekki er hægt að horfa upp á það að skólinn sé eins og eyland og sé að mennta fólk sem ekki fullnægir þörfum atvinnulífsins," segir Baldur. "Við erum að vinna að því að byggja upp starfshópa sem eru samansettir af fólki úr skólanum og fólki úr atvinnulífinu í hverri starfsgrein sem talar saman á reglubundnum grunni. Þessi hópur á að vinna að því að það nýjasta sem er að gerast í atvinnulífinu komist inn í skólann."

Baldur segir kynningu á iðnnáminu heldur ekki eins og hún ætti að vera og þyrfti að gera meira af því að upplýsa ungt fólk um möguleika iðnmenntunar.

"Unga fólkið veit ekki hvað bíður þess úti á vinnumarkaðnum. Kynningarstarfið fyrir 9. og 10. bekk þarf að vera markvissara og nauðsynlegt er að hugsa það upp á nýtt."

Baldur segir að sú breyting að hægt sé að útskrifa nemendur með stúdentspróf af starfsmenntabrautum muni eflaust ýta á það að menn velji þá leið að fara í gegnum iðnskóla þótt þeir ætli að fara í háskólanám. "Við getum hugsað okkur að nemandi sem hyggst fara í byggingaverkfræði fari í gegnum tréiðnaðardeild Iðnskólans áður en hann fer áfram í Háskóla. Ég held að sú leið muni verða algengari."

Hvað með sérhæfingu skólanna, yrði til bóta að hún væri meiri en nú er? "Það finnst mér ekki," segir Baldur. "Ef við fækkum stöðunum sem bjóða upp á viðkomandi iðngrein þá fækkar líka í heild í iðngreininni. Við erum búin að sjá það gerast til dæmis í málmiðnaði þar sem lagðar voru niður málmiðnaðardeilir hér í Iðnskólanum og við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og námið flutt upp í Borgarholtsskóla í Grafarvogi. Ástæðan fyrir fækkuninni er sú að krakkarnir vilja vera í skóla í sínu hverfi.

Þar sem nemendafjöldi í ákveðnum greinum er nógu mikill ætti að kenna þær greinar í fleiri en einum skóla eins og málmiðnaðargreinarnar, raf- og byggingagreinarnar. Það sparast ekki mikið á því að hafa kennsluna á færri stöðum ef við ætlum að halda sama nemendafjölda. Auk þess sem samkeppni er af hinu góða," segir Baldur.

Hvernig sjá þeir fyrir sér þróun iðnnáms og hvað geta skólarnir gert til að laða að fleiri nemendur?

"Ég tel að iðnmenntun muni vaxa fiskur um hrygg," segir Baldur. Hefðbundnar iðngreinar eru ef til vill að verða of stífar í formi og gamaldags en ég býst við að það muni breytast á næstu 10-15 árum. Starfsgreinaráðin munu taka á því vandamáli en nýjar námskrár eru á leiðinni í nánast öllum iðngreinum.

Ég finn fyrir því í auknum mæli í samtölum við nemendur að það er ekki eins neikvætt og áður fyrr að fara í iðnskóla. Það er almenn þróun í skólamálum hérlendis og erlendis að menn eru að leita að hagnýtara og styttra námi vegna þess að nú er fólk ekki lengur að mennta sig fyrir ævina. Fyrir 30-50 árum lærðu menn eitthvað ákveðið og unnu svo við það sem eftir var. Fólk hefur nú tækifæri til að brjóta upp líf sitt og fara í eitthvað annað oftar en einu sinni á ævinni. Ég held að iðngreinar og aðrar styttri námsbrautir muni njóta góðs af þessu."

Ingólfur telur að í framtíðinni eigum við eftir að finna innan verknámsins hreinar handverksgreinar sem muni verða í svipuðu horfi og þær eru nú og svo tæknitengdar iðngreinar sem þurfa að fylgja tækni hvers tíma en gefa á móti mjög mikla möguleika á erlendum mörkuðum. "Útflutningur á hug- og verkviti rætist ekki nema að verkmenntaskólunum sé gert kleift að sinna sínu hlutverki."