Hera Hjartardóttir er ungur og efnilegur tónlistarmaður. Hér er hún skreytt stríðsmálningu maóra, "Moku".
Hera Hjartardóttir er ungur og efnilegur tónlistarmaður. Hér er hún skreytt stríðsmálningu maóra, "Moku".
Hera Hjartardóttir hefur gefið út þrjár breiðskífur þrátt fyrir að vera enn á táningsaldri. Arnar Eggert Thoroddsen ræddi við hana um nýjasta afkvæmið.

HERA Hjartardóttir hefur búið á Nýja-Sjálandi frá 12 ára aldri. Þegar hún var aðeins 15 ára gaf hún út plötuna Homemade 99, heimagerða plötu með frumsömdum lög og textum. Í fyrra gerði hún svo plötuna Not So Sweet sem vakti athygli Frónbúa á þessum söngelska farfugli "Þetta er fyrsta platan sem kemur út almennilega á Íslandi," segir Hera en fyrsta platan kom einvörðungu út á Nýja-Sjálandi og Not so Sweet skolaði á strendur Íslands í smáum skömmtum. Það mætti því segja að alger umskipti séu orðin með Not Your Type! Hera jánkar því hlæjandi og samsinnir því að mögulega verði þessi plata flutt út í smáskömmtum til Nýja-Sjálands.

Plötuna nýju vinnur hún með íslenskum hljóðfæraleikurum, þá helst þeim Guðmundi Péturssyni, Jakobi Smára Magnússyni og Arnari Geir Ómarssyni.

"Ég er rosalega ánægð með þessa plötu og finnst samstarfsmennirnir algerir snillingar," segir Hera. "Fyrstu plötuna gerði ég alveg sjálf en nú er ég að vinna með fólki sem kann sitt fag."

Tónlistin hefur alla tíð legið nálægt Heru.

"Hún hefur alltaf verið lausn alla minna vandamála," segir hún ákveðin.

Nýja platan er athyglisverð blanda af grófleika og næmi. Fyrsta lína hennar er t.d.: "No, I'm not a nice girl" og lögin rokka og róa á víxl.

"Sum lögin eru frá því ég var fimmtán ára," útskýrir Hera. "Önnur eru af annarri plötunni og svo eru ný lög. Þannig að þetta spannar ferilinn að vissu leyti."

Hera ætti nú að vera orðin landsmönnum öllum að góðu kunn en hún hefur ferðast um allt land og spilað með Bubba Morthens að undanförnu. Hróður Heru hefur því borist á milli sjávar og sveita í bókstaflegri merkingu þess orðs. Ótal margt fleira er þá á borðinu, hún á lag í Hafi Baltasars Kormáks ("Itchy Palms"), hún mun hita upp á tónleikum Nicks Caves hér á landi, sem fara fram 9. og 10. desember, og meistari Megas ritar stutta hugvekju á nýju plötunni.

"Maður hefur lært mikið af þessum túr með Bubba," segir Hera.

"Þetta hefur hert mig. En þetta er líka búið að vera alveg rosalega skemmtilegt."

Og hún neitar því að hafa nokkurn tímann verið lúin.

"Ég verð aldrei þreytt á því að spila. Ég hlakka alltaf til. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri."

Íslendingar hafa tekið Heru stórkostlega að hennar sögn og hún tiltekur um leið ákveðinn mun á því að spila hér og úti. "Félagsheimili. Það er ekkert slíkt úti á Nýja-Sjálandi. Félagsheimili eru alveg stórkostleg fyrirbæri."

Hera segist að lokum ekki vera með neina spotta neins staðar og segist ekki vita hvort hún sest hér að eða fer aftur til Nýja-Sjálands. Næstu vikur eru og í lausu lofti.

"Ég veit ekki hvað maður gerir eftir jólin," segir Hera og brosir. "Kannski skellir maður sér í frí eftir áramót og heimsækir mömmu og pabba."

www.herasings.com

arnart@mbl.is