RISASTÓR olíubrák - um 9.

RISASTÓR olíubrák - um 9.000 tonn af hráolíu sem lekið hefur úr tankskipinu Prestige sem liðaðist í sundur og sökk um 150 sjómílur undan spænsku Atlantshafsströndinni fyrir tíu dögum - stefndi í gær hraðbyri í átt að ströndum Galisíuhéraðs á Norðvestur-Spáni. Íbúarnir, sem margir byggja lífsafkomu sína á sjávarfangi, búa sig undir hið versta.

Samkvæmt þeim fregnum sem bárust af vettvangi í gærmorgun var brákin, sem er sú stærsta sem lekið hefur úr flaki Prestige frá því það sökk, aðeins í um 22 km fjarlægð frá ströndinni. Sterkur vindur úr vestri með tilheyrandi ölduhæð skapaði aðstæður sem skilvirkar mengunarvarnir ráða ekki við, og sögðust talsmenn stjórnvalda á svæðinu mjög vonlitlir um að takast mætti að afstýra enn meiri spjöllum en fyrri leki úr skipinu hafði þegar valdið.

Þúsundir tonna af olíu úr Prestige bárust á land fljótlega eftir að það byrjaði að brotna fyrir tæpum hálfum mánuði og spilltu öllu lífríkinu og að minnsta kosti 100 baðströndum. Mengunin hefur valdið því að fiskveiðar hafa verið bannaðar á miðunum undan 400 km kafla Galisíustrandar.

La Coruna. AFP.