Árni Þórsson yfirlæknir og Auður Ragnarsdóttir hjúkrunardeildarstjóri. Litla stúlkan í rúminu er Þóra Sigurjónsdóttir.
Árni Þórsson yfirlæknir og Auður Ragnarsdóttir hjúkrunardeildarstjóri. Litla stúlkan í rúminu er Þóra Sigurjónsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Senn verður barnadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi sameinuð hinum nýja Barnaspítala Hringsins. Árni V. Þórsson, yfirlæknir barnadeildarinnar fyrrnefndu, rekur stuttlega í samtali við Guðrúnu Guðlaugsdóttur sögu barnadeildarinnar sem starfrækt var fyrst á Landakotsspítala og löngum studd ötullega af Thorvaldsensfélaginu í Reykjavík.

Landakotsspítalinn var búinn að vera starfandi í marga áratugi þegar barnadeildin þar var formlega stofnuð," segir Árni Þórsson yfirlæknir er hann var spurður um forsögu barnadeildar Landakots, síðar á Borgarspítala/Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Fossvogi, sem nú fer senn að sameinast Barnaspítala Hringsins á Landspítalanum við Hringbraut.

"Barnalækningar voru stundaðar í einhverri mynd frá stofnun spítalans 1902. Björn Guðbrandsson var fyrsti og eini barnalæknirinn á Landakoti í allmörg ár," segir Árni ennfremur.

"Eftir að Björn kom til starfa voru tvær stofur hafðar börnum til reiðu á spítalanum. Barnadeildin var svo formlega stofnuð á 3. hæðinni á Landakoti 12. janúar 1961. Björn var eini barnalæknirinn við deildina þar til þeir komu til starfa Sævar Halldórsson og Þröstur Laxdal 1968. Ég hóf störf í desember 1979.

Skömmu áður en barnadeildin var stofnuð á Landakoti var stofnuð barnadeild við Landspítalann, það var árið 1957.

Göngudeild fyrir sykursjúk börn stofnuð 1994

Barnadeildin fékk er frá leið til afnota húsnæði St. Jósepssystranna á 3. hæðinni Landakoti. Hjúkrunin á barnadeildinni var alveg á vegum systranna fyrstu árin en það breyttist og það var enginn systir við hjúkrun þar þegar ég kom til starfa.

Margskonar sjúkdómar voru meðhöndlaðir á barnadeild Landakots en þar gætti nokkurrar sérhæfingar er fram í sótti. Sævar hafði starfað við Greiningarstöðina og í framhaldi af því voru mörg börn til meðhöndlunar á barnadeild Landakots með ýmiss konar þroskavandamál, fatlanir, krampa og fleira. Ég sérhæfði mig í innkirtlasjúkdómum sem undirgrein og meðhöndlaði börn með þá sjúkdóma sem og sykursýki á barnadeildinni. Árið 1994 fengum við formlegt leyfi til að stofna göngudeild fyrir sykursjúk börn og hefur sú þjónusta verið starfrækt síðan.

Barnadeild Landakots tók auk annarrar starfsemi bráðavaktir á móti barnadeild Landspítalans að einum þriðja.

Thorvaldsensfélagið í Reykjavík tók að styðja myndarlega við starfsemi barnadeildar Landakots. Árið 1972 gjörbreyttist yfirbragð deildarinnar þegar félagið gaf deildinni 30 sjúkrarúm og það var upphaf að röð stórgjafa Thorvaldsfélagsins til barnadeildarinnar á Landakoti.

Thorvaldsensfélagið hefur gefið mikið

Deildin hefur átt ýmsa velunnara og styrktarmenn aðra, en Thorvaldsensfélagið hefur gefið langmest. Má þar nefna auk sjúkrarúma, gjörgæslutæki, myndskreytingar, útbúnað í leikstofu auk peningagjafa í styrktarsjóð barnadeildarinnar.

Þessar gjafir héldu áfram að berast líka eftir að deildin fluttist í Borgarspítalann, þá gáfu þeir ný rúm sem kostuðu milljónir, ýmiss konar lækningatæki, stóla og sófa og innréttuðu foreldraherbergi, svo eitthvað sé nefnt. Nú síðast gaf Thorvaldsensfélagið barnadeildinni mjög fullkomin tæki til þjálfunar fyrir fötluð og slösuð börn. Við þurftum aldrei að biðja um neitt, konurnar hjá Thorvaldsensfélaginu voru alltaf fyrri til; þær hringdu og spurðu: "Hvað þurfið þið núna?"

Það hefur verið árviss viðburður að frá þeim hafi komið gjafir í formi peninga eða tækja.

Mikil breyting þegar deildin flutti á Borgarspítalann

Hafa barnalækningar ekki breyst mikið á því tímabili frá því stofurnar tvær voru starfræktar á Landakoti og fram á þennan dag?

"Jú, það hefur orðið gífurlega mikil þróun. Það varð mikil breyting þegar til starfa komu sérfræðingar með nýjar undirgreinar. Einnig varð mikil breyting þegar deildin flutti á Borgarspítalann, þá komu hingað slösuð börn, sum mikið slösuð, sem flutt höfðu verið á slysadeild spítalans. Á Sjúkrahúsi Landspítala í Fossvogi er háls-, nef- og eyrnadeild og heilaskurðdeild. Einnig hefur verið mjög öflugt samstarf við Greiningardeild ríksins, ekki síður eftir að deildin flutti í Fossvoginn. Þetta hefur mótað starfið töluvert."

Hvað með ný lyf og nýjar lækningaaðferðir?

"Það hefur margt breyst í þeim efnum. Þegar ég kom til starfa voru mjög mörg börn lögð inn með slæman astma. Það er að verða fátítt að þessi börn séu lögð inn vegna tilkomu miklu öflugri astmalyfja sem gerir meðhöndlun utan sjúkrahúss mögulega. Annað hefur ekki síður breyst. Nú er bólusett gegn bakteríu sem heitir hemophilus influensae sem er mjög skæð og ein orsök fyrir heilahimnubólgu og sýkingum í lungum og víðar, þessi baktería er nánast horfin úr umhverfinu sem hefur létt á bráðavöktum. Nú er verið að bólusetja fyrir vissri tegund heilahimnubólgubakteríu, sem og lungnabólgu og fleiri sýkingum.

Fyrirbyggjandi starf er farið að skila verulegum árangri og hefur gjörbreytt starfsvettvangi barnadeildanna á síðustu 20 árum. Umhverfið er orðið gerólíkt. Að sjálfsögðu koma inn fárveik börn með heilahimnubólgur, sýkingar og heilabólgur en ekki svipað því eins oft og áður var.

Eitt er þó af því gamla sem skýtur alltaf af og til upp kollinum og það er kíghósti. Orsökin er kannski sú að til er að fólk hafni því að láta sprauta börn sín við þessum sjúkdómi af ótta við mögulegar aukaverkanir. Þetta hefur á köflum verið nokkuð algengt t.d. í Svíþjóð og í Skotlandi. En það sýnir sig að ef fólk hættir að láta bólusetja börn þá verða mörg dauðsföll af völdum þeirra sjúkdóma sem bólusett er fyrir. Kíghósti er mjög hættulegur sjúkdómur fyrir ungbörn."

Stöðugar framfarir eiga sér stað í barnalækningum

Verður hin nýja sameinaða barnadeild á Landspítalanum við Hringbraut mjög öflug?

"Já, ég tel svo vera. Við eigum öflugan mannskap sem vinnur við barnalækningar. Við eigum sérfræðinga í næstum öllum undirgreinum barnalækninga. Enn fara íslenskir læknar víða og tileinka sér nýjungar. Læknar sem starfa hér hafa starfað á góðum háskólasjúkrahúsum erlendis, bæði í Bandaríkjunum, á Norðurlöndum og víða í Evrópu. Barnalækningar eru í mikilli þróun í öllum greinum. Stöðugar framfarir eiga sér stað, bæði með fyrirbyggjandi aðgerðum og nýjum lyfjum og lækningaaðferðum.

Við erum hins vegar að sjá ýmislegt nýtt á barnadeildum sem bregðast þarf við. Eftir að sjálfræðisaldur var færður upp koma í auknum mæli inn unglingar með vímuefnavandamál og ýmislegt annað sem ekki kom til kasta barnadeilda áður. Við vitum ekki enn hvort hin nýja deild verður í stakk búin til að mæta slíkum vanda. Annað vandamál er sívaxandi, það er sykursýki, hún verður æ algengari í börnum en ekki er vitað hvers vegna. Norðurlönd eru með hátt nýgengi af sykursýki, þetta er langvinnur og erfiður sjúkdómur. Það er því af nógu að taka þótt tekist hafi að fyrirbyggja eða minnka nýgengi hvað suma sjúdóma snertir."

Leggst af öll starfsemi varðandi börn á Landsspítala - háskólasjúkrahúsi í Fossvogi þegar barnadeildin flytur á brott héðan?

"Nei, eins og málin standa núna er gert ráð fyrir að halda opinni aðstöðu fyrir börn. Tveir barnalæknar verða starfandi hér og séð verður fyrir vaktþjónustu fyrir börn. Börn sem fara í aðgerð á bæklunarskurðdeild, heilaskurðdeild eða á háls-, nef- og eyrndadeild fá inni á þessum stofum. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir langlegum. Þau börn sem þurfa að liggja inni í lengri tíma verða flutt þangað sem betri þjónusta er, t.d. kennsla og fleira."

Veldur fyrirhuguð sameining blendnum tilfinningum hjá starfsfólki deildarinnar hér?

"Það hefur ríkt hér mjög góður starfsandi og samheldni og því er ekki að neita að blendnar tilfinningar láta á sér kræla vegna þessara breytinga.Yfirgnæfandi er þó sú tilfinning spennu að fá að taka þátt í skipulagningu starfsins á nýjum stað með góðu fólki við góðar aðstæður. Deildin verður starfrækt í glæsilegu og nýju húsnæði."