Stella Guðjónsdóttir, nemi í húsasmíði.
Stella Guðjónsdóttir, nemi í húsasmíði.
Stella Guðjónsdóttir nemi í Iðnskólanum Í Reykjavík lýkur námi í húsasmíði á næstu önn. Hún hefur verið í verkmenntanámi síðan í tíunda bekk en hún er að verða tvítug.

Stella Guðjónsdóttir nemi í Iðnskólanum Í Reykjavík lýkur námi í húsasmíði á næstu önn. Hún hefur verið í verkmenntanámi síðan í tíunda bekk en hún er að verða tvítug. Stella hefur verið að nema húsgagnasmíði, myndlist, og nú síðast húsasmíði en hún segir teikningu og smíðar heilla sig. Stella segist þó ekki sjá það fyrir sér að hún eigi eftir að vinna við húsgagnasmíði heldur lítur hún fremur á hana sem tómstundagaman. "Meðan ég var í húsgagnasmíði smíðaði ég alls konar hluti í skólanum eins og sjónvarpsskáp, stofuglerskáp, náttborð, baðskáp, taflborð á fótum og borðstofuborð. Ætli ég haldi ekki áfram að smíða til heimabrúks og handa vinum og kunningjum."

Hvað ætlar þú að gera eftir sveinsprófið? "Ég hef verið að spá í hvort ég ætti að að fara í nám í arkitektúr þá annaðhvort hér heima eða í Danmörku. Húsasmíðin er góður grunnur fyrir það nám. Við lærum meðal annars um burðarþol og kynnumst helstu verkþáttum við húsagerð. Í náminu smíðum við sumarbústað sem er hérna á bak við skólann."

Hvernig hefur þú kunnað við þig í húsasmíðanáminu?

"Mjög vel. Í fyrstu ætlaði ég ekki að taka sveinsprófið en er nú staðráðin í því vegna þess að mig langar til að vinna við húsasmíðar. Mér finnst gaman að smíða og kann vel við útiveruna og þá líkamlegu áreynslu sem fylgir starfinu. Ég er þegar búin að fá vinnutilboð sem ég get gengið að þegar náminu lýkur."