Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir með jólamerki Thorvaldsensfélagsins í ár.
Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir með jólamerki Thorvaldsensfélagsins í ár.
Thorvaldsensfélagið hefur verið æði duglegt að styðjað við bakið á barnadeild Landakotsspítala sem síðar var svo flutt á Borgarspítala, en er nú að sameinast Barnaspítala Hringsins í nýju húsi.

Thorvaldsensfélagið hefur verið æði duglegt að styðjað við bakið á barnadeild Landakotsspítala sem síðar var svo flutt á Borgarspítala, en er nú að sameinast Barnaspítala Hringsins í nýju húsi.

Þær Thorvaldsenskonur hafa af mikilli útsjónarsemi safnað peningum til þessa verkefnis - en hvernig?

"Fyrst og fremst höfum við safnað fé með sölu jólamerkja og jólakorta," sagði Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir, formaður Thorvaldsensfélagsins.

"Einnig höfum við gefið út minningarkort og síðast en ekki síst hefur rekstur Thorvaldsensbasars gefið okkur talsvert í aðra hönd."

Hafið þið einskorðað ykkar fjárhagsaðstoð við barnadeild Landakotsspítala lengi?

"Í 30 ár hefur okkar stærsti fjárhagsstyrkur runnið til þessarar deildar, en við höfum styrkt önnur verkefni líka, má segja allt mögulegt en þó fyrst og fremst það sem lýtur að börnum."

Hvaða gjöf, sem þið hafið gefið barnadeildinni, er ykkur eftirminnilegust?

"Líklega er mér minnisstæðast þegar barnadeildin flutti í Borgarspítala - þá voru gefin sjúkrarúm og fleira tilheyrandi fyrir um 5 milljónir króna."

Hvað kaupir fólk hjá ykkur sem gefur svo miklar tekjur?

"Fjárhagslega höfum við mest út úr því að selja jólakort og jólamerki, líklega gefur það tvær til þrjár milljónir króna á ári. Allt er þetta unnið í sjálfboðastarfi þannig að kostnaður er lítill nema hvað prentunin kostar eitthvað.

Thorvaldsensbasar er hins vegar rekinn eins og venjuleg verslun, með einum launuðum starfsmanni og við kaupum inn í verslunina rétt eins og gerist annars staðar, en eigi að síður gefur verslunin okkur talsvert. Tvær félagskonur starfa í sjálfboðavinnu dag hvern í versluninni með starfmanninum. Verslunin er félaginu auk þess mikils virði sem eins konar félagsmiðstöð."

Ætlið þið að styrkja barnadeildina frá Landakoti nú þegar hún verður sameinuð Barnaspítala Hringsins?

"Já, við hættum ekkert að styrkja veik börn þó að þau færist til í húsnæði eða milli deilda. Þetta starf er okkur mikið hjartans mál og við viljum ekki hætta að styrkja það heldur ætlum að leggja okkar af mörkum. Einnig viljum við halda áfram samstarfi við hið ágæta starfsfólk barnadeildarinnar sem við höfum skipt við öll þessi ár. Við höfum einnig að auki undanfarin ár styrkt barna- og unglingageðdeildina og ætlum líka að halda því áfram."

Hvað er á jólamerkinu ykkar í ár?

"Nú er á merkinu myndin Jólasveinar eftir Þröst Magnússon. Hann hefur gefið félaginu sína vinnu við gerð myndarinnar. Jólakortið okkar í ár heitir Jólaævintýri og er eftir Sigríði Bragadóttur, grafískan hönnuð. Hún hefur einnig gefið sína vinnu.