Guðný Guðmundsdóttir á námsárunum í Bandaríkjunum.
Guðný Guðmundsdóttir á námsárunum í Bandaríkjunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BÓKARKAFLI Guðný Guðmundsdóttir konsertmeistari hélt ung til Bandaríkjanna að nema hljóðfæraleik við Rochester-háskólann í New York. Hér segir hún frá stefnumóti, sem tók óvænta stefnu og stóð talsvert lengur en ætlunin var í upphafi.

Vissirðu að Jeff og Vincent búa hérna í Buffalo?"

Ég leit á Terry vinkonu mína sem horfði á mig dreymandi á svip þar sem hún flatmagaði á mjúkum sófanum í stofu foreldra sinna. Þetta var haustið 1967 og við vorum fyrsta árs nemar við tónlistardeild háskólans í Rochester í New York, öðru nafni Eastman School of Music. Terry, sem var píanóleikari, hafði boðið mér heim með sér í nokkurra daga frí. Þetta var síðasta vikan í nóvember þegar Bandaríkjamenn halda þakkargjörðarhátíðina. Hún er að vissu leyti enn mikilvægari fjölskylduhátíð en sjálf jólin. Allar fjölskyldur hittast á þessum tíma án tillits til uppruna eða trúarbragða. Ég hafði komið til Rochester rúmlega tveimur mánuðum fyrr til þess að hefja fjögurra ára háskólanám í tónlist. Fyrstu vikuna komst ég að raun um ótrúlega gestrisni Bandaríkjamanna sem var einnig blönduð forvitni. Þessa fyrstu daga mína í Vesturheimi gat ég ekki haft tölu á þeim heimboðum sem mér féllu í skaut bæði varðandi þakkargjörðarhátíðina og jólin. Það gat enginn hugsað sér að útlendingur væri einn að þvælast á heimavistinni þegar aðrir væru í faðmi fjölskyldunnar. Terry varð fyrst til þess að bjóða mér heim, en hún átti heima í Buffalo. Að sjálfsögðu þáði ég boð hennar með þökkum, enda gast mér sérlega vel að henni. Mér fannst hún líta út eins og fræg kvikmyndastjarna og svo var hún líka afskaplega hlý og góð manneskja. Allt var nýtt fyrir mér 19 ára unglingi frá Íslandi. Ég var alsæl að fá heimboð frá slíkri manneskju og fá að vera þátttakandi í þessari miklu hátíð með fjölskyldu hennar.

"Nei, ég vissi það ekki," svaraði ég.

Jeff og Vincent. Eftir smá umhugsun mundi ég að þetta voru bekkjarbræður okkar sem báðir léku á trompet. Ég hafði ekki tekið neitt sérstaklega eftir þeim, en mundi þó að Jeff var langur sláni, en Vincent var lítill og þybbinn og af ítölskum ættum.

"Þeir hringdu áðan og vildu bjóða okkur út á laugardagskvöldið." Terry gat ekki leynt hvað henni fannst þetta spennandi. Þetta verður svona "double date" (tvöfalt stefnumót).

Mér fannst þetta alveg ótrúlega fyndið, en sagði að þetta væri í lagi mín vegna.

Þessi formlegheit voru nokkuð sem ég hafði ekki vanist á Íslandi, en hafði þó lúmskt gaman af.

"Vincent fær lánaðan bíl pabba síns og þeir stungu upp á að við rúntuðum fyrst eitthvað, færum síðan í bíó og svo eitthvað út að borða."

Þetta var óneitanlega tilbreyting frá síðustu vikum, sem höfðu farið í mjög stífar æfingar á hljóðfæri mitt hjá nýjum kennara með nýjar áherslur, tungumálaörðugleika og síðan allt hið gríðarlega námsefni sem ég þurfti að henda reiður á og standa mig í til þess að halda styrknum sem mér hafði boðist. Það hafði því gefist lítill tími til skemmtana.

Í lok sjötta áratugarins voru samskipti kynjanna á heimavistinni undir ströngu eftirliti þótt að nokkru hefði verið slakað á reglum síðustu árin. Áður fyrr máttu strákar og stelpur ekki einu sinni matast saman. Þarna voru þrír matsalir, tveir fyrir stráka og einn fyrir stelpur. Núna máttum við þó sitja saman í öllum sölunum að eigin vild. Það var þó ekki enn búið að aflétta buxnabanninu. Stúlkur máttu ekki vera í síðbuxum í skólanum. Það var fimmtán mínútna gangur milli heimavistar og skóla og frostið oft 20-30 gráður á Celcíus þegar kaldast var. Vegna rakans í loftinu virtist margfalt kaldara en heima á Íslandi. Ullarsokkabuxur seldust vel í þessari borg. Nemendur urðu að vera komnir heim á vistina fyrir kl. 11 á virkum dögum og fyrir miðnætti um helgar. Ef reglur voru brotnar var mönnum umsvifalaust refsað, t.d. með farbanni á kvöldin einhvern tiltekinn tíma eða heimsóknartíminn var felldur niður í eina eða tvær vikur. Það sem bætti allt þetta upp var hversu heimilislegt og fallegt var í híbýlum okkar. Góðar og bjartar setustofur, mjög þokkaleg herbergi og síðast en ekki síst starfsfólk sem allt upp til hópa var elskulegt og bar hag okkar nemanna mjög fyrir brjósti. Það lá við að þeir tækju það nær sér en nemarnir þegar nauðsynlegt var að beita einhvern ofangreindum viðurlögum.

Þetta var undarlegur heimur að koma í fyrir stúlku frá Íslandi þar sem frjálsræðið var mun meira.

Hátíðisdagurinn sjálfur, sem alltaf er síðasti fimmtudagur í nóvember, rann upp í allri sinni dýrð og í fyrsta sinn lagði ég mér til munns kalkún með öllu tilheyrandi að amerískum sið. Yfir borðhaldinu ríkti mikill hátíðleiki og minnti mig á stórhátíðir heima á Fróni.

Tvöfalt stefnumót

Stundvíslega klukkan sex á laugardagskvöldið stóðu tveir ungir herramenn úti fyrir dyrum að sækja dömurnar sínar. Þeir voru báðir í köflóttum jökkum, Vincent þó með stórgerðara mynstri, með flott bindi við hvítar nælonskyrtur og í dökkleitum buxum. Bítlatískan hafði ekki enn náð tökum á hári þeirra sem var ofhlaðið brilljantíni og rakspírinn fyllti vit okkar. Við Terry höfðum heldur ekki látið okkar eftir liggja í undirbúningnum. Allar tiltækar snyrtivörur á heimilinu höfðu verið teknar fram.

Augnlínurnar voru málaðar út á gagnaugu, hárið var fagurlega túb-erað og lakkað og síðast en ekki síst, varaliturinn hvítur sem nár. Pilsin notuðum við nú af frjálsum vilja og voru þau í styttra lagi, en faldurinn var á hraðferð upp á við. Strákarnir höguðu sér herralega og opnuðu fyrir okkur bíldyrnar með tilþrifum. Við ókum af stað í gljáfægðum Chevrolet árgerð '60 í eigu DiMartinos föður Vincents. Við vorum dálítið feimin í fyrstu. Strákarnir voru ekki alveg vissir um hvernig ætti að umgangast útlending úr Norður-Íshafi sem talaði auk þess með svo miklum hreim að nær óskiljanlegt var. Við ókum stefnulaust um stund.

Terry lék á als oddi og dró það strax úr vandræðaganginum. Við urðum ásátt um að sjá bíómynd sem verið var að sýna í kvikmyndahúsi í öðrum enda bæjarins og tókum stefnuna þangað.

"Hvert ertu að fara, maður? Þú áttir að beygja til vinstri," kallaði Jeff allt í einu.

"Ég veit; ég fékk bara svo miklu betri hugmynd," sagði Vincent.

"Ef við höldum aðeins áfram þá komum við að afleggjaranum að þjóðveginum til norðurs. Þá er ekki nema eins og hálfs tíma akstur til Niagara-fossa. Ég legg til að við sleppum bíóinu og fáum okkur bita í veitingahúsinu sem snýst yfir upplýstum fossunum."

"Ertu frá þér maður, við eigum ekki fyrir því," sagði Jeff.

"Hver sagðist vera með kortið hans pabba síns að láni? Iss, hafðu engar áhyggjur. Við jöfnum þetta seinna. Aðalatriðið er að gera eitthvað skemmtilegt og óvenjulegt. Það er ekkert spennandi að bjóða stelpunum í venjulegt bíó og svo í pitsu á eftir. GG verður að fá að reyna eitthvað sérstakt. Hún er útlendingur. Við verðum að sýna henni hvað við höfum upp á að bjóða og það nærtækasta er fossarnir. Við getum ekki sleppt þessu tækifæri; það kemur ekki aftur."

Á leið til Kanada

Jeff lét að lokum sannfærast. Við Terry vorum ekki einu sinni spurðar álits. Nú var stefnan tekin á Kanada. Smám saman fór að losna um málbeinið hjá okkur öllum og þegar um hálftíma akstur var eftir að fossunum var orðið verulega glatt á hjalla.

Ég hafði reyndar komið í stutta heimsókn til Niagara-fossa tveimur árum áður þegar ég var á ferðalagi um Bandaríkin. Ég lét þó ekkert uppskátt um það að svo stöddu.

Skyndilega þyrmdi yfir mig. Þegar mér varð hugsað til baka mundi ég eftir því að ég hafði þurft að sýna vegabréfið mitt til þess að komast inn í Kanada. Það var nú á þessari stundu einhvers staðar í herberginu mínu í Rochester fjarri góðu gamni. Mér varð órótt innanbrjósts. Nú var ég eflaust búin að eyðileggja allt fyrir þessum góðu félögum mínum.

Ég sagði þeim eins og var og bjóst við hinu versta.

"Þetta getur ekki verið neitt mál," sagði Terry. "Ekki þurfum við að sýna passa."

"Hvað þurfið þið þá að gera?" spurði ég.

"Við bara segjum hvaðan við erum og svo er okkur hleypt í gegn," svaraði hún.

"Þú mátt bara alls ekki segja þeim að þú sért frá Íslandi.

Strákar, við verðum að finna einhvern stað fyrir hana."

"Þetta er vonlaust," sagði Jeff. "Heyrið þið ekki hvað hún er með sterkan hreim? Þetta gengur aldrei."

"Ég get æft mig, við höfum hálftíma," sagði ég. "Æfingin skapar meistarann."

Ekkert okkar gat hugsað sér að hætta við ævintýrið svo afráðið var að finna mér einhvern samastað í Bandaríkjunum. Stað með nafni sem mögulegt væri að kenna mér að bera fullkomlega fram á næstu mínútum.

"Mér dettur í hug Middletown, Connecticut," sagði Vincent. "Ég á frænku þar." Þetta var samþykkt athugasemdalaust.

Svo hófst kennslan. Eftir nokkrar mínútur var ég búin ná allgóðum tökum á þessum orðum og enn í dag er þetta vafalaust það eina sem ég get mælt á enska tungu með fullkomlega amerískum hreim.

Nú komum við að landamærunum. Ég var með örlítinn hjartslátt.

Vörðurinn stöðvaði okkur.

"Hvaðan eruð þið að koma?" spurði hann fyrst. "Hvert eruð þið að fara?" var næsta spurning. "Hvað ætlið þið að vera lengi?" Hjartað var farið að slá örar. Ætlaði maðurinn aldrei að koma sér að því að spyrja hvaðan við værum. Á meðan missti ég dýrmætan æfingatíma og var e.t.v. farin að ryðga í framburðinum. Þá loksins kom að því. Hann spurði félaga mína hvert fyrir sig og horfði beint á þau meðan þau svöruðu. Svo spurði hann mig. Ég horfði í augun á honum og svaraði: "Middletown, Connecticut!"

Vörðurinn veifaði okkur í burtu. Fagnaðarlætin í bílnum voru yfirþyrmandi. Við hlógum okkur máttlaus. Það sem eftir lifði kvölds var eitt allsherjar ævintýri. Við fórum á dýrlegan veitingastað, sem snerist eins og Perlan, yfir fossunum sem voru upplýstir í öllum regnbogans litum. Maturinn var frábær, félagsskapurinn sömuleiðis og við nutum hvers augnabliks.

Nú var kominn tími til að halda heim á leið. Eftir stutta stund vorum við aftur komin að landamærunum. Sömu spurninga var spurt aftur. Það var eins og vörðurinn tæki varla eftir mér og mér virtist hann ætla að sleppa því að spyrja mig. Þá kom hann auga á mig og spurði. Í þetta sinn hafði ég engan hjartslátt. Mér fannst hættan löngu liðin hjá. Aðalatriðið hafði verið að komast á veitingahúsið yfir fossunum. Það hvarflaði ekki að mér að ég þyrfti líka að sýna vegabréf til þess að komast aftur yfir landamærin til Bandaríkjanna. Ég bjó þar löglega og var með alla pappíra í lagi. Ég var bara ekki með þá á mér þessa stundina. Mér fannst þess vegna alveg óþarfi að segja ósatt tvisvar sama kvöldið svo ég horfði beint framan í manninn og sagði "Iceland".

Það var eins og ég hefði varpað sprengju. Krakkarnir störðu á mig og stirðnuðu upp. Okkur var bent á að leggja bílnum og stíga út. Síðan vorum við leidd inn í varðstöð og tekin til yfirheyrslu. Við áttum engra annarra kosta völ en segja sannleikann. Það var ekki tekið á þessari yfirsjón okkar með silkihönskum. Málið var einfalt af þeirra hálfu. Inn í landið færi ekki útlendingur án vegabréfs.

Vinir mínir hringdu allir í foreldra sína sem urðu að vonum þrumu lostnir. Þeir héldu að við hefðum brotið eitthvað hræðilega af okkur og værum jafnvel á leið í fangelsi. Ég heyrði móðursýkisleg hrópin í mæðrunum á hinum enda línunnar. Og allt var þetta mín sök. Bandaríkjamönnunum í varðstöðinni varð ekki haggað. Inn í landið skyldi ég ekki undir neinum kringumstæðum án vegabréfs. Það var hálfs annars tíma akstur til Buffalo og þaðan jafnlangt til Rochester þar sem passinn minn lá, Guð mátti vita hvar, í herbergi sem skilið hafði verið eftir í mikilli óreiðu.

Það voru lúpuleg ungmenni sem sneru aftur út í bílinn. Það var ekki um annað að ræða en að freista inngöngu aftur til Kanada.Við ókum yfir brúna að varðstöð Kanadamanna. Þar vorum við enn og aftur spurð um erindi og búsetu. Við útskýrðum í öngum okkar alla málavöxtu. Okkur var sagt að leggja bílnum og vorum nú aftur tekin til yfirheyrslu af Kanadamönnum. Þar fór allt á sömu leið. Án vegabréfs fengi ég ekki inngöngu inn í landið. Við litum hvert á annað. Þetta gat ekki verið satt. Í þessari stöðu var ekki um nema eitt að ræða. Einhver yrði að keyra til Rochester og ná í passann minn. Á meðan yrði ég að dúsa á brúnni í a.m.k. sex klukkustundir. Það var nóvember og orðið kalt í veðri og ég spariklædd. Ef best léti fengi ég að sitja á bekk inni í annarri hvorri varðstöðinni. Terry bauðst strax til þess að bíða með mér.

Bráðabirgðaáritun

Þegar við vorum rétt búin að ráða ráðum okkar kom einn vörðurinn til okkar og sagði að við gætum ekki verið þarna og bað okkur að bíða aðeins. Þegar hann kom til baka sagði hann að ég fengi viku bráðabirgðaáritun til Kanada. Þeim leist ekki á að senda okkur út í kuldann. Þarna sýndu Kanadamenn meiri miskunn en Bandaríkjamenn. Við ókum aftur inn í Kanada og námum staðar við fyrsta vegahótel sem varð á vegi okkar. Þar bókuðum við Terry okkur inn á herbergi. Vaktmaðurinn fylgdi okkur að herberginu okkar og sá til þess að fylgdarmenn okkar færu ekki inn með okkur. Þetta var í Ameríku á seinni hluta sjötta áratugarins. Ólíklegasta fólk skipaði sjálft sig sem verði siðgæðisins.

Félagar okkar héldu áleiðis til Rochester með loðnar upplýsingar um hvar áðurnefnt vegabréf væri að finna í heilum hafsjó af skóla- og nótnabókum með fötum í bland. Ég sagðist þó vona að það væri í einhverri skúffu, þá fyndist það eflaust fyrr. Ég var ekki einu sinni með lykil að herberginu á mér. Allt valt nú á því að öryggisvörðurinn í heimavistinni tryði piltunum og hleypti þeim inn í herbergið mitt. Að svo stöddu gátum við ekki verið að gera okkur grillur út af því, ástandið var nógu slæmt.

Þegar við Terry tókum loks á okkur náðir var klukkan langt gengin í þrjú að morgni sunnudags.Við sváfum fast, enda örmagna eftir ævintýri næturinnar. Laust fyrir klukkan níu um morguninn vöknuðum við þegar drepið var laust og vandræðalega á dyr. Úti fyrir stóðu tveir unglingspiltar, fölir af þreytu. Allt brilljantín var löngu rokið úr hárinu og rakspíralyktin var hverfandi lítil. Vincent og Jeff höfðu þurft að standa í töluverðu stappi til þess að fá aðgang að herberginu mínu svo þeir gætu leitað að passanum mínum. Þegar það loksins tókst, var það eins og mig hafði grunað, ekki létt verk að finna passann. Það tók þá um hálftíma. Þegar ég var nú komin með mitt langþráða vegabréf í hendur ákvað ég að í útlandinu skildi ég það aldrei við mig framvegis. Að vera landlaus, þótt ekki hafi verið nema í eina klukkustund eða svo, var svo óskemmtileg reynsla að henni myndi ég aldrei vilja lenda í aftur.

Þegar ég nú horfi til baka eftir þrjá og hálfan áratug finnst mér að þetta laugardagskvöld 26. nóvember árið 1967 hafa verið sambland annars vegar af einhverju því skemmtilegasta sem ég hafði lifað til þess tíma og hins vegar einhverju því ógnvænlegasta. Æskufjör okkar og barnaskapur var keyptur dýru verði. Við lærðum okkar lexíu.

Það þurfti ekki að beita neinum brögðum til þess að komast á milli landa þegar við héldum heim á leið. Við sögðum fátt á leiðinni. Þeir kvöddu okkur á stéttinni fyrir utan hús foreldra Terriar u.þ.b. 17 klukkustundum eftir að þeir höfðu sótt okkur. Á leiðinni niður tröppurnar heyrði ég annan þeirra segja: "Það verður langt þangað til við bjóðum stelpu frá Íslandi aftur út."

Í bókinni Á lífsins leið V segir fjöldi þekktra manna og kvenna frá atvikum og fólki. Útgefandi er góðgerðarfélagið Stoð og styrkur og bókin er 207 síður.