Lítið yrði úr flutningi á íslenskri tónlist, ef ekki væri til safn sem stundaði útlán á nótum.
Lítið yrði úr flutningi á íslenskri tónlist, ef ekki væri til safn sem stundaði útlán á nótum.
Á ÞRIÐJUDAG í síðustu viku birtist frétt í breska dagblaðinu Guardian þess efnis að nótnasafni Konunglegu Fílharmóníunnar í London hefði verið bjargað fyrir þjóðina.

Á ÞRIÐJUDAG í síðustu viku birtist frétt í breska dagblaðinu Guardian þess efnis að nótnasafni Konunglegu Fílharmóníunnar í London hefði verið bjargað fyrir þjóðina. Í fréttinni kom fram að safnið væri talið eitt mikilvægasta nótnasafn veraldar, og að í því væru dýrgripir eins og handrit Beethovens að níundu sinfóníu hans og handrit Mendelssohns að hans fyrstu sinfóníu, en bæði þessi verk voru pöntuð af Fílharmóníunni og samin fyrir hana. Auk þessara verka eru í safni Fílharmóníunnar mörg merkustu tónverk breskrar tónlistarsögu, verk eftir Elgar, Vaughan-Williams og fleiri slíka, en auk þess eru þar alls kyns gögn og heimildir, svo sem sendibréf frá Tsjaíkovskíj, Stravinskíj, Wagner, Mendelssoh, Berlioz og Liszt. Þar á meðal er bréf Beethovens, þar sem fram kemur vilji hans til að semja tíundu sinfóníu sína til að heiðra Fílharmóníuna fyrir velvilja í sinn garð. Beethoven lést átta dögum eftir að hann skrifaði þetta bréf. Á síðustu árum hefur Fílharmónían í London átt í miklum fjárhagserfiðleikum og til stóð að bjóða safnið upp. Þegar ljóst var að þetta merka safn yrði selt í frumeindum sínum og hyrfi hugsanlega úr landi tók breskur almenningur við sér og gerði kröfu um að þessum menningarverðmætum yrði forðað frá slíkum örlögum. Krafan um þetta varð æ háværari, þar til stjórnvöld tóku í taumana á elleftu stundu og ákváðu að Breska þjóðarbókasafnið keypti Fílharmóníusafnið í heilu lagi fyrir eina milljón punda.

Í dag er komið í ljós að íslensk tónlistarsaga er lengri og að líkindum merkari en áður hefur verið talið. Nýjar rannsóknir á handritum hafa leitt í ljós að sagnaþjóðin hefur líka verið talsverð tónlistarþjóð, og tónlist af ýmsu tagi hefur verið iðkuð hér alla tíð. Íslensk tónskáld og fræðimenn eru þegar farin að rannsaka þennan arf og nýta hann til nýsköpunar. Mikilvægt er að heimildir um tónlist í handritum verði skráðar og gerðar aðgengilegar jafnt fræðimönnum sem almenningi.

Íslensk tónskáld reka eigin sjálfseignarstofnun, Íslenska tónverkamiðstöð. Þar leggja tónskáld inn verk sín, svo að koma megi þeim á framfæri og að tónlistarmenn hafi aðgang að þeim. Meginmarkmið Tónverkamiðstöðvarinnar er að halda til haga öllum tegundum íslenskrar samtímatónlistar, og í safni hennar eru bæði handrit og útgefin verk nær allra íslenskra tónskálda í svokölluðum kassískum geira, og fjöldi verka íslenskra dægurlagatónskálda. Ekkert safn á Íslandi er sambærilegt þessu, og fyrir íslensku þjóðina er það að minnsta kosti jafnverðmætt safni Fílharmóníunnar í London fyrir Breta. Þar í landi eru þó fleiri söfn sem varðveita nótnahandrit. Safn Íslenskrar tónverkamiðstöðvar er því einstakt, og ef það hyrfi væri heil listgrein í íslenskri menningarsögu síðustu aldar þurrkuð út í einu lagi. Það væri hreinlega ekki hægt að flytja íslenska tónlist lengur. Safn Tónverkamiðstöðvarinnar gegnir mikilvægu þjónustuhlutverki fyrir íslenska tónlistarmenn; - þangað leitar líka Sinfóníuhljómsveitin eftir íslenskum verkum, og erlendir tónlistarmenn sem áhuga hafa á að flytja íslenska tónlist leita þangað. Eftir því sem fræðimönnum í tónlist fjölgar hér á landi verður safnið enn frekar mikilvægur vettvangur fyrir hvers konar rannsóknarvinnu og fræðistörf í tónlist.

Við Ríkisútvarpið er starfrækt safnadeild, sem hefur að geyma bróðurpart þess sem hljóðritað hefur verið af íslenskri tónlist frá upphafi. Verðmæti þessa hljóðritasafns eru óumdeild fyrir þjóðina. Þar eru til upptökur af mörgum mestu verkum íslenskra tónskálda; íslensk dægurlög frá fyrri tíð eru ómetanlegur sjóður og leikur og söngur íslenskra tónlistarmanna er þar skráður í ýmsu formi; á lakkplötum, á böndum og á diskum í seinni tíð. Stór hluti þess íslenska safns sem þar er hefur aldrei verið gefinn út opinberlega. Því er þetta safn einstakt og á sér - eins og safn Tónverkamiðstöðvarinnar - enga hliðstæðu hér á landi.

Þau íslensku tónlistarsöfn sem hér hafa verið nefnd hafa hvorugt haft fjárhagslega burði til þess að standa undir þeim kröfum sem almenningur mætti og ætti að gera til þeirra. Í safni Ríkisútvarpsins er enn margt óunnið í því að gera hljóðritanir með íslenskri tónlist og íslenskum tónlistarmönnum það aðgengilegar að notkun þeirra í miðlinum sé auðveld. Það má færa rök fyrir því, að verðmæti þess hluta safnsins sé ekki augljóst vegna þess hve óaðgengilegt það er. Margt er enn geymt á böndum og á þaðan af fornfálegri miðlum, sem eru ekki handhægir, og það torveldar dagskrárgerðarmönnum að nota þá. Safnadeild Útvarpsins þarf að verða gert kleift að koma öllu sínu íslenska safni í aðgengilegt form. Skráning þess þarf að vera nákvæm og í tölvutæku formi, og fyrirtækjum, stofnunum og almenningi þarf að vera mögulegt að leita þar upplýsinga og heimilda.

Safn Íslenskrar tónverkamiðstöðvar hefur liðið fyrir áralangan fjárskort miðstöðvarinnar. Þar er líka mikið verk óunnið við að koma gögnum í aðgengilegt form. Til að svo geti orðið þarf að tölvusetja og skrá öll þau tónverk sem þar eru, gömul og ný. Það er tómt mál að tala um markaðssetningu íslenskrar tónlistar erlendis meðan þetta verk er óunnið. Á meðan við svo búið situr er verið að vinna með handrit tónskálda, og hver og einn getur ímyndað sér hvort handritadeild Landsbókasafns myndi taka í mál að lána handrit Snorra Sturlusonar í almennu útláni, því öðrum eintökum væri ekki til að dreifa.

Í vikunni varð ljóst að Íslensk tónverkamiðstöð fær nú tveggja milljóna króna aukafjárveitingu til að koma gögnum úr safni sínu í tölvutækt form. Sú upphæð er ekki annað en fimmaurahark upp í raunkostnað við svo viðamikið verkefni. Það var athyglisvert að lesa Fréttaljós DV um þessa úthlutun, þar sem ýjað er að því að fjárveitingin sé til "gæluverkefnis" og myndi ekki valda þjóðinni "tilfinnanlegu tjóni" þótt henni væri sleppt. Með sama móti má segja að ekkert okkar yrði fyrir tilfinnanlegu tjóni þótt við hentum Kjarval á haugana eða rifum Flateyjarbók niður og gerðum úr henni skutlur.

Í ljósi fréttarinnar í Guardian vakna spurningar um opinbera stefnu íslenska ríkisins í málefnum tónlistarsafna. Er hún til? Allt bendir til þess að svo sé ekki.

Í tiltölulega nýjum safnalögum, nr. 106 frá 31. maí 2001, er kveðið á um skipulag lista- og minjasafna í þeim tilgangi að varðveita og kynna menningarsögu íslensku þjóðarinnar og náttúrusögu Íslands. Í lögunum er skilgreining á svokölluðum höfuðsöfnum, en það eru söfn í eigu ríkisins, miðstöðvar safnastarfs, hvert á sínum vettvangi. Þjóðminjasafnið er höfuðsafn á sviði þjóðminjavörslu, Listasafn Íslands er höfuðsafn á sviði myndlistar og Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Ekkert er í lögunum að finna um starfrækslu tónlistarsafns, né nokkuð annað um stefnu í safnamálum tónlistarinnar. Safn Íslenskrar tónverkamiðstöðvar ætti þó að hafa alla burði til að uppfylla skilyrði til þess að verða höfuðsafn tónlistarinnar á Íslandi.

En hvernig viljum við haga þessum málum? Við getum sem hægast beðið í tvö hundruð ár, og vaknað þá upp við vondan draum eins og Bretar nú, við þá tilhugsun að við gætum þurft að leita til erlendra safna með nótur að Kvæðinu um fuglana, Brúðarskónum, Sögusinfóníunni, Heiðlóarkvæðinu, Himnasmiðnum, Við Reykjavíkurtjörn, Tjarnarmarsinum, Leyndarmáli, Silkitrommunni, Stemmu og Stýrimannavalsinum.

Ráðlegra væri þó að kalla eftir stefnu hins opinbera í þessum málum strax, til að auðvelda þeim stofnunum sem þegar vinna að safnamálum í tónlist að uppfylla kröfur nútímans og vinna markvisst að brýnum úrbótum. Opinber stefna myndi líka veita þeim stofnunum nauðsynlegt aðhald, og vera þeim þarft leiðarljós. Þetta kostar peninga, - þetta með skutlurnar og Flateyjarbók kostar hins vegar ekkert.

Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is