Leikstjórinn Lee Tamahori: Reynt að blása lífi í Bond-hefðina.
Leikstjórinn Lee Tamahori: Reynt að blása lífi í Bond-hefðina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í fjörutíu ár hefur heimsbyggðin verið á valdi njósnara hennar hátignar. Járntjöld hafa fallið, múrar hrunið, jafnrétti kynja vaxið, karlpungar lýstir útlægir, ofbeldisverkum verið úthúðað og áfengismeðferð orðið almenn.

Í fjörutíu ár hefur heimsbyggðin verið á valdi njósnara hennar hátignar. Járntjöld hafa fallið, múrar hrunið, jafnrétti kynja vaxið, karlpungar lýstir útlægir, ofbeldisverkum verið úthúðað og áfengismeðferð orðið almenn. En ekki drukknar James Bond í tímans elfi; hann rétt haggast og hagræðir sér í straumnum. 007 stendur keikur í smókingnum með martíníglas í annarri hendi, byssu í hinni og glæsikvendi á hnjánum, skrifar Árni Þórarinsson í tilefni af frumsýningu 20. eiginlegu Bond-myndarinnar, Die Another Day, og bætir við: James Bond deyr ekki í dag.

ÉG þekki þína manngerð 007. Þú vilt fá kynlíf í kvöldmat og manndráp í morgunmat." Þetta segir Miranda Frost, starfssystir James Bond í Die Another Day. Þeir eru orðnir svo brakandi, ískrandi lúnir, þessir "svölu" orðaleikir í handritum Bond-myndanna, að hallærið er, þegar best lætur, fyndið og partur af aðdráttarafli þeirra; þegar verst lætur eru þeir bara lamaðir.

Margir hafa reynt að spá og spekúlera í þessu aðdráttarafli. Og flestum ber saman um eitt: Lykillinn að velgengni myndanna um James Bond er sú þversögn að þær hafa aðlagað sig breyttum tímum án þess að breytast sjálfar svo nokkru nemur; þær eru einhvern veginn tímabundnar um leið og þær eru tímalausar. Njósnari hennar hátignar er óbreyttur þótt hennar hátign sé það ekki; hann lifir umhverfi sitt og andstæðinga og bjargar heiminum brosandi, mynd eftir mynd. Síungur, sléttur og strokinn rís hann upp úr mannraunum og lífsháska með lömuð spaugsyrði á vör og biður um martíní, hrærðan en ekki hristan. Bond, að eilífu James Bond.

Þannig minnir þessi makalausi myndabálkur eldri áhorfendur á liðna æsku og horfinn tíma sem innan hans lifir enn góðu, eða eigum við að segja bærilegu, lífi. Og yngri áhorfendum færir hann söguheim sem lofar því að æska þeirra verði eilíf. James Bond er tímavél fyrir alla aldurshópa.

Stjörnur gera ekki Bond - Bond gerir stjörnur

Einn þáttur í þessu aðdráttarafli er að hugmyndin um James Bond er stærri en hver mynd fyrir sig, mikilvægari en leikarinn sem ljær honum andlit, rödd og líkama hverju sinni og mikilvægari en leikstjórinn sem stýrir honum upp á tjaldið mynd fyrir mynd. Á þessu hafa framleiðendur gætt sín.

Enginn þeirra leikara sem farið hafa með hlutverk Bonds var raunveruleg stjarna þegar viðkomandi hreppti það. Sean Connery varð stjarna eftir að hann byrjaði að leika Bond og alvöruleikari að auki. George Lazenby var hvorki stjarna fyrir, á meðan, né eftir sína einu Bondmynd. Roger Moore varð stjarna á meðan hann lék Bond en um leið og hann hætti því var ferillinn fyrir bí. Timothy Dalton var leikari en ekki stjarna og hefur haldið því áfram. Og Pierce Brosnan er að reyna að fylgja í fótspor Connerys, þ.e. að vera bæði stjarna og leikari en ekki er útséð um hvort það tekst.

Enginn þeirra leikstjóra sem gert hafa Bond-myndirnar hefur talist til stórleikstjóra. Skoðið helstu nöfnin: Terence Young, Guy Hamilton, Peter R. Hunt, Lewis Gilbert, John Glen, Roger Spottiswoode, Martin Campbell, Michael Apted og nú Lee Tamahori. Þessir leikstjórar hafa aldrei talist til meistara listformsins þótt nokkrir þeirra hafi gert athyglisverð verk á ferlinum. En enginn þeirra hefur haft persónulegan stíl. Einmitt þess vegna völdu framleiðendurnir þá til verksins; þeir voru valdir á grundvelli hasarkunnáttu og tæknilegrar fagmennsku. Þeim var treystandi til að standa vörð um vörumerkið og fara ekki út í einhverja vitleysu og flipp.

Uppskriftir og hráefni

Segja má að Bond-myndirnar séu dæmigerðar framleiðendamyndir, ekki leikaramyndir eða leikstjóramyndir. Það eru framleiðendurnir sem í raun ráða ferðinni og halda utan um fjöregg sitt, fast og þétt. Þeir ráða handritshöfunda, leikstjóra og leikara til að bæta tilbrigðum við stefið sem í gegnum tuttugu myndir og fjörutíu ár hefur haldist óbreytt: Bond, Martini, glæsileg farartæki, glæsilegar konur, yfirmaðurinn M, sem sendir Bond í ný og ný ævintýri og breyttist í konu fyrir þremur myndum svo allir sæju hvað framleiðendurnir fylgjast rosalega vel með tímanum, Q uppfyndingameistari sem dælir í okkar mann nýjum og nýjum tæknilegum galdratækjum svo hann bjargist nú örugglega úr næstu háskaför og geti mætt galvaskur í aðra mynd, nokkrir verðugir andstæðingar að kljást við, þar á meðal a.m.k. einn stórhættulegur alheimsbófi svo Bond geti bjargað mannkyninu rétt eina ferðina, snörp inngangssena og enn snarpari lokasena og í bláendann ein voða hnyttin sena með okkar manni í góðum og glæsilegum félagsskap.

Einhvern veginn svona er uppskriftin og hráefnunum er svo reynt að hræra saman með lágmarksblæbrigðamun.

Í Die Another Day hafa aðstandendur Bonds ákveðið að láta hetjuna byrja leikinn í eymd og volæði þar sem hann er pyntaður í prísund hjá Norður-Kóreumönnum, sem nú gegna hefðbundnu hlutverki austur-evrópsku illskunnar. En Bond er ekki lengi að ná sér á strik á ný og herjar á þá sem hann á harma að hefna gegn og þær sem hann fýsir að leggjast með. Ekki þarf að hafa fleiri orð um þá sögu en að hún berst m.a. til einhvers konar mörgæsaútgáfu af Íslandi og er gjörsamlega óskiljanleg. Kraftur hennar fer mestanpart í að breiða yfir þá staðreynd og reyna að koma í veg fyrir að áhorfandi spyrji: Bíðiði aðeins við. Um hvað snýst þessi saga? Hvers vegna eru allar þessar sprengingar, hríðskot og djöfulgangur? Hver er að berjast við hvern og hvers vegna? Af því bara?

Skortur á svörum breytir ekki því að James Bond deyr ekki í dag þótt hann sé orðinn býsna lotlegur, hvernig sem á hann er litið, og að honum sæki skopgervingar eins og Austin Powers og XXX. Hann hefur fært eigendum sínum 3,5 milljarða dollara, meira en nokkur önnur kvikmyndasyrpa hefur gert. Bond deyr tæplega fyrr en síðasti dollarinn hefur verið kreistur úr kallinum.