Hinn upprunalegi James Bond og í margra augum sá eini sanni: Sean Connery.
Hinn upprunalegi James Bond og í margra augum sá eini sanni: Sean Connery.
BÁLKURINN um James Bond byggist enn á grunninum sem Ian Fleming byrjaði að leggja með sögunni Casino Royale, þeirri fyrstu af fjórtán skáldsögum og smásagnasöfnum um ævintýri 007, og út kom árið 1953.

BÁLKURINN um James Bond byggist enn á grunninum sem Ian Fleming byrjaði að leggja með sögunni Casino Royale, þeirri fyrstu af fjórtán skáldsögum og smásagnasöfnum um ævintýri 007, og út kom árið 1953. Í sögunum má fræðast um þann bakgrunn Bonds að hann fæddist í Skotlandi árið 1924 og missti foreldra sína í fjallgönguslysi þegar hann var átta ára. Hann gekk í Eton-skóla árið 1938 en var rekinn fyrir kynlífsævintýri tveimur árum seinna, ekki orðinn 16 ára gamall. Hann laug til um aldur sinn til að fá inngöngu í herflota hennar hátignar árið 1941 og eftir að heimstyrjöldinni lauk gerðist hann liðsmaður MI6, leyniþjónustunnar. James Bond var orðinn alskapaður njósnari með "leyfi til að drepa" árið 1954 og hefur haft það síðan. Fyrsta og eina hjónaband hans fór út um þúfur á brúðkaupsnóttinni 1. janúar 1962 þegar brúður hans var myrt.

Arfur ófínna pappíra

Strax árið 1954 hafði bandaríska sjónvarpsstöðin CBS áttað sig á möguleikum Bondsagnanna til myndgerðar. Þannig var fyrsta Bondmyndin í raun klukkustundar langt sjónvarpsleikrit eftir Casino Royale með Barry Nelson í hlutverki 007, sem reyndar var gerður að Ameríkananum Jimmy Bond, og Peter Lorre var sovéskur andstæðingur hans.

En þótt Fleming héldi áfram að skrifa sögur um njósnara hennar hátignar fór því fjarri að tilboð í kvikmyndaréttinn streymdu inn. Þegar Fleming missti heilsuna við hjartaáfall neyddist hann til að selja þennan rétt árið 1961 fyrir lága upphæð til tveggja sjálfstæðra framleiðenda sem þá höfðu nýverið byrjað samstarf. Þeir hétu Harry Saltzman og Albert Broccoli, sem kallaður var Cubby. Saltzman hafði, í félagi við rithöfundinn John Osborne og leikstjórann Tony Richardson, staðið að gerð virtra mynda í anda bresks eldhúsvasksraunsæis eins og Look Back in Anger, Saturday Night and Sunday Morning, A Taste of Honey og The Entertainer. Broccoli hafði m.a. framleitt The Trials Of Oscar Wilde. Þótt þessar afurðir þættu menningarlegar og metnaðarfullar voru bæði Saltzman og Broccoli taldir frekar ófínir pappírar og sá fyrrnefndi einna líkastur mafíuforingja að mati ýmissa breskra kvikmyndagerðarmanna sem unnið höfðu með honum. Saltzman seldi síðar Broccoli sinn hlut í Bond og eftir að sá síðarnefndi lést fyrir nokkrum árum hafa dóttir hans og tengdasonur staðið vaktina um þetta verðmæta erfðagóss.

Þeir kumpánar, Saltzman og Broccoli, höfðu árið 1961 skrapað saman upphæð sem nam einni milljón dollara til að nýta kvikmyndaréttinn sem þeir höfðu keypt af Fleming. Fyrir þá skiptimynd gerðu þeir Dr. No og litu aldrei fátækir um öxl eftir það. Þeir höfðu ekki efni á að ráða í aðalhlutverkið reynda og vinsæla leikara á borð við David Niven, Richard Burton og James Mason, eins og þá langaði til, og hófu því að leikprufa óþekkta leikara, eins og fyrrum farmann, líkamsræktarmann, mjólkurpóst og fatafyrirsætu frá Edinborg. Sá varð fyrir valinu og hét Sean Connery.

Hin góða drápsvél

Connery var orðinn 31 árs þegar hann fékk þetta tímamótahlutverk; þar með varð til sú viðmiðun sem allir Bondleikarar síðan hafa setið uppi með. Connery ljáði 007 reisn og fágun hins sjóaða heimsmanns í bland við hrjúfara, ef ekki hreinlega dýrslegt, aðdráttarafl. Í Connery varð James Bond hnyttin og heillandi drápsvél.

Kalda stríðið vann með syrpunni lengi vel; þótt Bond væri ekki hefðbundin hetja heldur samviskulaus morðingi, glaumgosi og karlpungur taldist hann samt til góðu gæjanna, sem fulltrúi vesturveldanna í viðureigninni við ógnir kommúnismans. Þegar kalda stríðið féll í skuggann af hörmungum Víetnamstríðsins á ofanverðum 7. áratugnum urðu andstæðingar Bonds æ galnari og fáránlegri. Í raun má segja að helsti vandi handritasmiða James Bond-myndanna allar götur síðan sé að finna honum verðuga fjendur, sem eru hæfilega trúverðugir og ógnvænlegir í ljósi heimsviðburða, en ekki aðeins fáránlegur tilbúningur.

Seinni hluta 7. áratugarins fór Bond hins vegar að eignast keppinauta eins og Harry Palmer í líki Michaels Caine, Matt Helm í líki Deans Martin og Derek Flint í líki James Coburn. Ekki þurfti að hafa miklar áhyggjur af þessum náungum, heldur miklu frekar því að Connery ákvað að kveðja kappann í upphafi 8. áratugarins. Millilendingin George Lazenby í On Her Majesty's Secret Service naut aldrei sannmælis vegna samanburðar við brautryðjandann, og það var ekki fyrr en sjónvarpsleikarinn Roger Moore (Dýrlingurinn) tók við smókingnum 1973 með Live And Let Die að syrpan náði sér aftur á strik. Reyndar er athyglisvert að Moore er eini Bondleikarinn sem er enskur að uppruna; Connery er Skoti, Lazenby Ástrali, Timothy Dalton frá Wales og Pierce Brosnan er Íri.

Í skugga brautryðjandans

Bondmyndirnar með Roger Moore eru almennt þær vinsælustu í syrpunni, þótt strangtrúarmönnum í fræðunum þyki þær bera meiri keim af tæknibrellugríni en alvörunjósnahasar. Moore jók að sönnu gamansemina í persónu Bonds, ljáði henni glottandi kæruleysi, ef ekki áhugaleysi, sjálfumgleði blandaða sjálfshæðni. Hann var orðinn sextugur þegar hann loksins afsalaði sér smókingnum.

Shakespeareleikarinn Timothy Dalton sneri blaðinu við og gerði Bond alvörugefnari og vissulega húmorslausari og færði hann nær upprunalegri persónusköpun Connerys, án þess að hafa sama segulmagn og hann. Pierce Brosnan, arftaki Daltons, hefur í þremur atrennum náð að sameina ýmsa kosti fyrirrennara sinna, reisn, húmor, innlifun og kaldlynda túlkun. Hann hefur leitast við að veita persónu Bonds aukna dýpt en ekki fundið hana. Og er einhvern veginn of snoppufríður og daufgerður til að öðlast dýrslegt aðdráttarafl Connerys.

Ekki sanngjarn sá eilífi samanburður, en lífið er ekki sanngjarnt, er það? Því mun arftaki Brosnans kynnast, hvort sem hann heitir Clive Owen, Rupert Everett, Russell Crowe, Christian Bale, Jeremy Northam, Hugh Jackman eða Hugh Grant, svo einhverjir vongóðir séu nefndir.

Leitin að hinum eina sanna James Bond mun ævinlega litast af því að hann fannst strax í upphafi.