"Þegar Íslandi sleppir má vitanlega leita langt aftur í söguna að þeim sem eigi "höfundarrétt" að hugsjónum velferðarríkis og félagshyggju."

GUÐBERGUR Bergsson komst einhverju sinni svo að orði að það væri hlutverk vinstri manna að bera fram hugmyndir en það kæmi svo í hlut hægri manna að framkvæma þær.

Þessi orð skjótast upp í hugann þegar skoðuð er deila sem risin er á milli Morgunblaðsins og Steingríms J. Sigfússonar, fomanns Vinstri grænna, um velferðarsamfélag og höfundarrétt að því.

Í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins segir að Alþýðuflokkurinn hafi haft frumkvæði um að koma á almannatryggingakerfi á Íslandi. En Sjálfstæðisflokkurinn hafi undir forystu Ólafs Thors tekið þá afstöðu að taka virkan þátt í uppbyggingu velferðarkerfisins og kannski tekið að sér forystuhlutverk í henni. Hinsvegar hafi sósíalistarnir, eða þeir sem róttækastir töldust á hverjum tíma, lítið komið þar við sögu, þar eð þeir voru svo uppteknir af sínum útópísku draumum um allt annað þjóðfélag.

Steingrímur J. Sigfússon andmælti þessu með ýmsum ágætum dæmum af verkum ráðherra Sósíalistaflokks og Alþýðubandalags, umsvifum liðsmanna þessara flokka í bæjarstjórnum og verklýðshreyfingu og með því að minna á að hinn hugmyndafræðilegi grundvöllur að kröfugerð um félagslegt jafnrétti kemur af vinstri væng stjórnmálanna.

Íslenskir vinstrimenn

Í þessari höfundaréttardeilu eru allir sammála um að Alþýðuflokkurinn komi fyrstur að velferðardæminu - og er þó réttmæt kurteisi hjá Steingrími að minna á samvinnuhreyfingarmenn sem á undan fóru. Enda var Alþýðuflokkurinn fyrsta pólitíska hreyfingin sem reis af verklýðshreyfingu og sameinaði í fyrstu alls konar sósíalista, jafnt norðurlandakrata sem bolsevíka. Að því er varðar þá sem síðar skipuðu sér til vinstri við Alþýðuflokkinn, þá er það rétt að ýmsir þeirra (ekki síst kommúnistar kreppuáranna og seinna róttæklingar af 68-kynslóð) voru svo alteknir af byltingardraumnum, að þeim fannst varla taka því að hugsa um barnabætur eða verkamannabústaði. En á hitt er að líta að Sósíalistaflokkurinn varð öflugri hreyfing en Alþýðuflokkurinn einmitt vegna þess að flestum sósíalistum tókst furðuvel að sameina útópíska drauma um öðruvísi samfélag og hvunndagsraunsæi sem fékkst af kappi og þolinmæði við hin praktísku viðfangsefni sem sneru að kjörum alþýðu hér og nú: barnaheimili, kjör aldraðra, atvinnuleysistryggingar, almenna menntunarbyltingu og fleira. Ef sósíalistar hefðu ekki staðið sig dável í þessum málum hefðu þeir aldrei orðið sú stærð sem þeir urðu, þeir hefðu líkst hinum smáu kommúnistaflokkum Danmerkur og Noregs og verið, eins og þeir, í miklu ríkara mæli verið bundnir áhuga manna á frammistöðu Sovétríkjanna eða ótta við þau.

Í leiðurum Morgunblaðsins um þessi efni segir, að íslenskir sósíalistar hafi helst komið að þessum málum sem áhrifamenn í verklýðshreyfingu. Þetta er að því leyti rétt að þar voru áhrifin augljósust og samfelldust. Verklýðshreyfingin var raunverulegt afl og stöðugt að verki, hún gaf jafnt og þétt færi á að knýja á um ýmisleg brýn réttindamál í tengslum við kjarasamninga. Steingrímur Sigfússon nefnir ýmisleg dæmi um framlag ráðherra úr liði hinna róttæku til velferðarkerfis. En stjórnarsetur voru ekki margar (ekki síst vegna kalda stríðsins) og á þingi og t.d. í borgarstjórn Reykjavíkur voru hinir róttæku í þeirri minnihlutastöðu að hverri þeirra hugmynd var hafnað umsvifalaust sem lýðskrumi og yfirboði á félagslega sviðinu. En urðu þó að gagni: Adda Bára Sigfúsdóttir, sem mjög lengi sat í borgarstjórn fyrir Sósíalistaflokkinn og Alþýðubandalagið, sagði mér frá afar þreytandi reynslu í borgarstjórn: hún og félagar hennar koma fram með tillögur, meirihluti sjálfstæðismanna hafnar þeim snarlega, en tekur þær upp síðar í nokkuð breyttri mynd og gerir að sínum. Þetta er guðbergska mynstrið sem fyrr var nefnt: hugmyndirnar koma frá vinstri en það fer eftir því hvort hægrimenn óttast um sína stöðu hvort þær verða framkvæmdar eða ekki.

Kröfur tímans

Það er svo rétt hjá Guðbergi og Morgunblaðinu, að hreyfing eins og Sjálfstæðisflokkurinn stekkur ekki upp í velferðarstrætó fyrr en hann er kominn á nokkra ferð. Sá flokkur var vissulega tortrygginn í garð félagshyggju sem var talin skerða frelsi einstaklinga og taka frá þeim ábyrgð á sjálfum sér. En það er líka rétt að Ólafur Thors sá það fyrr en til að mynda íhaldsforingjar á Norðurlöndum, að velferðarkerfið var krafa tímans og að flokkur hans gæti ekki stór verið áfram ef hann setti sig gegn þeirri þróun. Gleymum því heldur ekki að þetta gerðist á stríðsárunum - og Sjálfstæðisflokkurinn var þá í samstarfi bæði við sósíalista og Alþýðuflokk sem gátu bent á þá pólitísku samstöðu sem þá hafði myndast á Vesturlöndum um að samfélagið sem tæki við eftir stríð yrði að bjóða upp á félagslegt öryggi og varnir gegn skelfingum atvinnuleysis. M.ö.o. - velferðarkerfið átti að vera eitt af því sem kæmi í veg fyrir endurvakningu fasisma í Evrópu. Auk þess voru vissulega kristilega þenkjandi menn til í hinum stóra borgaralega flokki sem fundu tengsl á milli síns siðaboðskapar og velferðarhugmyndanna.

En andóf gegn velferð, viðleitni til að takmarka það kerfi, skera það svo niður - hún kemur, eins og eðlilegt er, helst fram í Sjálfstæðisflokknum. Hún þarf ekki að vera ríkjandi: til þessa hafa þeir verið raunsæismenn sem réðu mestu í flokknum og þeir hætta ekki á að hrista of mikið upp í því sem er orðinn fastur þáttur í tilveru manna. En ég man sjálfur svo langt að þegar almannatryggingakerfi var að fæðast voru ýmisr Sumarhúsabjartar Sjálfstæðisflokksins, kotkarlar jafnt sem smáborgarar, hundfúlir yfir því að það ætti að pína þá inn í samtryggingu með allskyns lýð. Og svo núna - á dögum nývakinnar markaðshyggju - þá eflist þessi afstaða aftur og er mest hjá yngri sjálfstæðismönnum. Þaðan koma mestu breiðsíðurnar gegn velferðarkerfi sem taki frá mönnum persónulega ábyrgð, svipti þá efnahagslegu frelsi, ali fólk upp í sníkjulífshugsunarhætti, og trufli heilög markaðslögmál. Eitt dæmi af mörgum: grein eftir pistlahöfund í Morgunblaðinu á dögunum. Hann vildi leyfa "óheftan flutning fólks til landsins " - en fyrst yrði að skera niður velferðarkerfið. Því hann vildi "duglegt" (og undanskilið er ódýrt og ekki kröfuhart) vinnuafl en ekki þá "sem hafa áhuga á að lifa á kostnað annarra í áhyggjuleysi velferðarkerfisins" eins og hann kemst að orði.

Sagan og framtíðin

Þegar Íslandi sleppir má vitanlega leita langt aftur í söguna að þeim sem eigi "höfundarrétt" að hugsjónum velferðarríkis og félagshyggju. Það er sjálfsagt að minna á gyðing-kristilega hefð og minna á það, að fyrir 2000 árum voru bæði gyðingasöfnuðir og síðar kristnir vinsælir meðal hinna fátæku í Rómarveldi vegna þess að þar var að finna huggun þessa heims, vísi að skipulagðri samhjálp og samábyrgð. Kirkjur fóru með ýmisleg velferðarmál og vissa samtryggingu öldum saman. Verklýðshreyfing 19. aldar tekur svo dæmið upp með nýjum hætti: Réttleysi og örbirgð þess fólks sem bar iðnbyltinguna á herðum sér knúði á að í orði og á borði væri risið gegn þeim sósíaldarvinisma sem þá ríkti: hin geypilegi munur á ríkum og fátækum var réttlættur sem einskonar náttúrulögmál - þeir sem tapa í lífsbaráttu allra við alla geta sjálfum sér um kennt. Brautryðjendur verklýðshreyfingarinnar gerðu gamlar og nýjar hugmyndir um réttlæti að kröfum um mannréttindi, sem ekki væru lengur háð velvild hinna efnuðu eða duttlungafullu örlæti við góðgerðastarfsemi. Síðan koma allskonar hugmyndastraumar jafnaðarstefnu við sögu þessara mála, hvort sem kenndar væru við Kautsky eða Bernstein, Branting eða Gramsci. Og meira að segja sá skelfilegi sovétkommúnismi líka. Hann kom tiltölulega snemma upp vissu velferðarkerfi, sem var hvergi nærri eins glæsilegt og opinberar tölur og pólitískar hátíðaræður lýstu, en var engu að síður til staðar. Þar var ögrun sem einnig andstæðingar lenínisma tóku mark á: ekki mátti það sannast að þeir hundheiðu og ólýðræðislegu Rússar hefðu eitthvað það í velferðarmálum sem vestræn þjóðfélög hefðu ekki. Þessi ögrun auðveldaði umbótasinnuðum jafnaðarmönnum að koma hugmyndum sinum í framkvæmd og gera þær að sjálfsögðum greinum í óskrifuðum sáttmála um sambýli manna.

Hér er margt að rifja upp og reyndar nauðsynlegt, ekki síst á okkar dögum þegar margt í velferðarkerfi er orðið svo sjálfsagt að mörgu ungu fólki finnst það ekki skipta máli, enda veit það ekki af eigin raun hvað til þurfti til að knýja ýmisleg mannréttindi fram og hvers er í misst þegar velferðarkerfi er skorið niður. Gleymi menn því ekki heldur, að hvað sem um galla velferðarkerfisins má segja, þá er það eina vörnin sem kostur er á nú gegn herfilegustu afleiðingum þeirrar markaðsvæðingar allra hluta, sem hefur svo mjög aukið mun á forríkum og fátækum bæði í vanþróuðum löndum og okkar heimshluta. Sú þróun hlýtur að skerpa á næstunni átök milli hreintrúarmarkaðssinna, sem helst vilja afnema alla pólitík sem skiptir sér af lífskjaramun þegnanna og þá sem vita að breikkandi djúp milli forríkra og þeirra sem standa höllum fæti gerir illa líft í samfélagi. Og þau átök verða ekki leyst innan eins flokks, hve stór sem hann er - því það er vissulega rangt sem stundum hefur verið haldið fram í Morgunblaðinu að Sjálfstæðisflokkurinn sé "eðlilegur vettvangur málamiðlana í þjóðfélaginu".

Eftir Árna Bergmann

Höfundur er rithöfundur.