Vigdís Másdóttir, nemi á listnámsbraut.
Vigdís Másdóttir, nemi á listnámsbraut.
Mér finnst námið það skemmtilegt að ég hlakka til að koma í skólann á mánudögum," segir Vigdís Másdóttir listnámsnemi í Iðnskólanum í Hafnarfirði. "Andrúmsloftið er jákvætt og afslappað og við höfum mjög frjálsar hendur.

Mér finnst námið það skemmtilegt að ég hlakka til að koma í skólann á mánudögum," segir Vigdís Másdóttir listnámsnemi í Iðnskólanum í Hafnarfirði. "Andrúmsloftið er jákvætt og afslappað og við höfum mjög frjálsar hendur. Við erum líka ótrúlega heppin með kennara í náminu."

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að fara á listnámsbraut?

"Ég hef hug á að komast í leiklistardeild Listaháskóla Íslands og ákvað að fara í listnám fyrst. Það nám hefur reynst mér vel. Það er staðreynd að ef maður er með grunn í fleiri en einni listgrein á maður auðveldara með að tjá sig."

Er leiklistarklúbbur innan skólans?

"Ég stóð að því í haust að stofna leiklistarfélag í skólanum. Þannig var að ég vann í Götuleikhúsinu síðastliðið sumar og kynntist þar krökkum sem eru í námi í Iðnskólanum í Reykjavík og við ákváðum að stofna sameiginlegan leiklistarhóp. Nú er verið að vinna í því að finna verk fyrir hópinn til að flytja og fá leikstjóra til að starfa með okkur. Hópurinn tók þátt í "Leiktu betur", spunakeppni framhaldsskólanna sem var haldin í haust og þar urðum við í fjórða sæti."

Því miður er margt fólk með fordóma gagnvart því að það ríki ekki mikill listrænn metnaður innan iðnskólanna en það er mikill misskilningur. Það sést best á vorsýningunum okkar hér í Iðnskólanum í Hafnarfirði en þá er sýnt úrval af því besta sem nemendur hafa verið að hanna og smíða yfir árið.

Ég tel að það þyrfti að vera meira samstarf á milli Listaháskóla Íslands og skóla sem eru með fornám í listum. Það má líka benda á að það er ekki til neitt fornám fyrir þá sem hafa áhuga á að sækja um í Leiklistarskóla Íslands."

Hver finnst þér helsti kosturinn við það nám sem þú stundar?

"Í staðinn fyrir að lesa um hlutina í bókum þá fáum við að reyna þá hér og finnst mér slíkt nám miklu meira lifandi og það höfðar betur til mín. Þegar ég svo finn að ég er að ná árangri þá eykst sjálfsálitið og ég fer að upplifa að ég geti gert hluti sem mig hefur alltaf langað til að gera."