[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Menningarumhverfi er tiltölulega nýtt hugtak sem hefur beina vísun í þær síbreytilegu aðstæður er allir sem koma að stefnumótun á sviði menningar þurfa að kljást við í nútímasamfélagi.

Menningarumhverfi er tiltölulega nýtt hugtak sem hefur beina vísun í þær síbreytilegu aðstæður er allir sem koma að stefnumótun á sviði menningar þurfa að kljást við í nútímasamfélagi. Menningarstofnanir, bæði á sviði lista og mennta, er fyrir hálfri öld bjuggu við tiltölulega stöðugt umhverfi byggt á hefð sem lítið hafði raskast í aldanna rás, þurfa nú til dags að endurskoða starfsvettvang sinn reglulega til þess að standast þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Erlendis standa t.d. söfn í opinberri eigu, ríkisreknir ljósvakamiðlar, þjóðarleikhús og -óperur frammi fyrir því að keppa um athygli og hylli almennings við hinn einkarekna afþreyingariðnað og það sama á í auknum mæli við hér á landi.

Þótt íslenskar menningarstofnanir séu enn mjög ungar í sögulegu tilliti standa þær að ýmsu leyti á gömlum merg, bæði erlendra fyrirmynda og þjóðlegrar arfleifðar. Í hraðri þróun samtímans þurfa þær því ekki síður en erlendar stofnanir að taka mið af hræringum í menningarumhverfinu til þess að standast þær kröfur sem gerðar eru í samfélögum þar sem sveigjanleiki og aðlögun eru lykilhugtök. Í Reykjavíkurbréfi hinn 9. febrúar síðastliðinn var vikið að sögu og þróun nokkurra íslenskra menningarstofnana og stöðu þeirra í samfélaginu; Íslenska dansflokksins, Sinfóníuhljómsveitarinnar, Íslensku óperunnar, Borgarleikhúss og Þjóðleikhúss. Þar var m.a. spurt hvort því leikhúsi sem öll þjóðin hefur sameinast um að reka, "beri ekki öðrum fremur skylda til að skapa vettvang fyrir tilraunir á sviði leiklistar, [þar sem] Þjóðleikhúsið er í raun það leikhús í landinu sem best getur leyft sér að hlúa að þeirri leiklist sem ekki er fyrst og fremst miðuð við að höfða til sem flestra áhorfenda...". Kröfurnar til Þjóðleikhússins hljóta með öðrum orðum að vera aðrar í dag en þær voru fyrir hálfri öld, þegar því var ætlað að vera þjóðarleikhús í breiðum skilningi, með óperurekstri og ballettsýningum auk leiksýninga. Í dag veitir fjöldi atvinnuleikhópa Þjóðleikhúsinu verðuga samkeppni á þeim sviðum sem þeir finna rekstrargrundvöll fyrir og því er tími kominn til að Þjóðleikhúsið endurmeti starfsvettvang sinn og hlutverk. Ætla mætti að sem ríkisrekið leikhús ætti það fyrst og fremst að marka sérstöðu sína sem það hreyfiafl á sviði íslensks leikhúslífs er gefur starfi þess menningarlegt vægi til framtíðar.

Breytt staða ljósvakamiðla

En það eru ekki einungis menningarstofnanir er keppa við afþreyingariðnað af ýmsu tagi um frítíma fólks, sem þurfa að leita nýrra leiða, heldur hafa einnig rótgrónar stofnanir sem veita almenningi ómetanlega grunnþjónustu í íslensku samfélagi, svo sem Ríkisútvarpið og Háskóli Íslands, einnig þurft að takast á við aukinn þrýsting um að endurmeta stöðu sína og hlutverk í samræmi við þá breyttu þjóðfélagsmynd sem nú blasir við þegar aðrir ljósvakamiðlar og háskólar hafa komið fram á sjónarsviðið.

Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir áþekkum vanda og Þjóðleikhúsið, sem ríkisrekin stofnun er á í sívaxandi samkeppni við einkaframtakið. Hlutverk þess sem eina ljósvakamiðilsins áratugum saman var afar mikilvægt, bæði hvað varðar öryggissjónarmið og menningarlegt hlutverk. Í vaxandi samkeppni við einkarekna ljósvakamiðla hefur RÚV þó seilst mjög langt inn á þann afþreyingarmarkað er aðrir geta sinnt jafnvel eða betur. Í gegnum tíðina hafa orðið til ómetanleg menningarverðmæti í gegnum starfsemi RÚV, svo sem á safnadeildinni, og enginn vafi leikur á að flestir landsmenn álíta eitt meginhlutverk þess vera að standa vörð um íslenska menningu, bæði sígilda og á dægursviði. En rekstur sjónvarps á vegum ríkisins, er byggist að jafnmiklu leyti og raun ber vitni á kaupum á erlendu afþreyingarefni, er vissulega umhugsunarefni og spurning hvort ekki sé löngu tímabært að endurskilgreina hlutverk þess í ljósi breyttra tíma. Með þeim hætti væri t.d. hægt að skapa íslenskri framleiðslu á menningarefni öruggari farveg og auka nýbreytni í atvinnusköpun kvikmynda- og dagskrárgerðarfólks á hinum frjálsa markaði.

Það er sem sagt löngu ljóst að allir máttarstólpar menningarinnar standa frammi fyrir breyttum tímum og verða að marka sér sérstöðu með tilliti til þess sem samkeppnisaðilar úr einkageiranum hafa upp á að bjóða, að öðrum kosti tekst þeim ekki að vera leiðandi afl við mótun og varðveislu menningararfleifðarinnar til framtíðar.

Staða Háskóla Íslands

Að undanförnu hefur umræðu um málefni Háskóla Íslands borið hátt, ekki síst í kjölfar bréfs sem Páll Skúlason háskólarektor skrifaði menntamálaráðherra fyrr í þessum mánuði. Þar lagði hann til að breytingar yrðu gerðar á lögum um skóla á háskólastigi, þannig að kröfur til háskóla yrðu auknar og háskólanám hér á landi metið með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar væru erlendis, að greinarmunur yrði gerður á rannsóknarháskólum og öðrum háskólum og að rekstrarskilyrði háskóla yrðu sambærileg án tillits til eignarhalds. Viðbrögð rektora annarra háskóla við tveimur síðarnefndu tillögunum voru hörð svo ljóst er að þær njóta ekki stuðnings í háskólasamfélaginu sem heild. Um þennan ágreining var fjallað á fundi háskólarektora á Bifröst sl. fimmtudag, án þess að niðurstaða fengist, en þeir hafa bent á að allir háskólar sem standa undir nafni leggi áherslu á rannsóknir enda eru þær helsta undirstaða metnaðarfulls háskólastarfs. Það má því gera ráð fyrir að þótt rannsóknarstarf sé enn ekki rótgróið hjá þessum ungu stofnunum muni það eflast eftir því sem þeim vex fiskur um hrygg.

Viðbrögð Tómasar Inga Olrich menntamálaráðherra voru á sömu lund og rektoranna en hann sagði í viðtali við Morgunblaðið hinn 15. nóvember síðastliðinn að tillögur rektors Háskóla Íslands virtust vera settar til höfuðs þeim háskólastofnunum sem afla sér sértekna, "þar sem í tillögunum felist að sértekjurnar ættu að koma til frádráttar ríkisframlaginu. Þessi sjónarmið ganga alveg þvert á þá stefnu sem fylgt hefur verið af hálfu stjórnvalda, enda hafa sértekjurnar meðal annars nýst til uppbyggingar þeirra og til að standa straum af rannsóknastarfsemi".

Tómas Ingi sagði ennfremur í sama viðtali að honum fyndist "það skjóta skökku við að Háskóli Íslands skuli kvarta undan ójafnri samkeppnisaðstöðu í ljósi þeirrar uppbyggingar sem þar hefur verið kostuð af ríkisvaldinu og svo þeirra fjárveitinga til rannsókna sem skólinn hefur í raun umfram aðrar háskólastofnanir. Mér finnst þess vegna ekki rétt leið að Háskóli Íslands skuli vilja takmarka svigrúm annarra háskólastofnana til tekjuöflunar og það sjónarmið er ekki af minni hálfu mjög skiljanlegt".

Þótt þessar breytingatillögur rektors HÍ hafi ekki fengið meðbyr er ekki nema eðlilegt að skólinn leiti nýrra leiða til að styrkja stöðu sína í samfélaginu, enda sérstaða hans í íslensku háskólasamfélagi töluverð. Þegar staða HÍ í samtímanum er metin er nauðsynlegt að líta til þess að saga hans er löng og merkileg og þær skyldur sem honum hafa verið lagðar á herðar eru um margt meiri en annarra skóla. Skólinn gegnir að auki virðingarstöðu í huga landsmanna, enda hefur hann verið framvörðurinn í menntastefnu landsins um áratuga skeið, auk þess sem þar hefur verið unnið ómetanlegt frumkvöðulsstarf á ýmsum sviðum.

Söguleg arfleifð og skyldur

Eins og kom fram í orðum Páls Skúlasonar þegar Háskóli Íslands átti 90 ára afmæli á síðasta ári "renndi skólinn styrkum stoðum undir uppbyggingu hins íslenska samfélags sem hlaut fullveldi 1918 og stofnaði eigið ríki, hið íslenska lýðveldi 1944". Ekki þarf að draga sannleiksgildi þessara orða í efa því háskólinn hefur haft mikil áhrif á samfélagsþróun í landinu sem æðsta menntastofnun landsins. Upphaflega var skólinn embættismannaskóli með fjórar deildir; læknadeild, guðfræðideild, lagadeild og heimspekideild, og miðaðist starfsemi hans við að Íslendingar gætu sjálfir menntað þá embættismenn er störfuðu á vegum ríkis og sveitarfélaga. Síðan þá hefur deildum skólans fjölgað í ellefu og nú er námsúrvalið orðið það mikið að það getur fullnægt þörfum mikils meirihluta þeirra sem ætla að leggja háskólanám fyrir sig hér á landi.

Vegna þessa fjölbreytta námsframboðs er staða HÍ nokkuð ólík stöðu annarra háskóla á Íslandi, enda kostnaður í fámennum deildum umtalsvert meiri en í þeim fjölmennu. Þrátt fyrir það er ljóst að fæstir myndu vilja leggja þessar námsbrautir niður; þær eru mikilvægur þáttur í þeim sígilda grunni sem er kjölfestan í starfi góðra alhliða háskóla um heim allan. Af því leiðir að ef HÍ byði einungis upp á nám í þeim greinum þar sem tilkostnaður er minnstur eða mest von á utanaðkomandi fjármagni, yrði starfsemi hans ekki nema svipur hjá sjón. Til þessara staðreynda verður að taka tillit en fram að þessu hefur þjóðin sýnt samstöðu um að að halda uppi mjög fjölbreyttu starfi í HÍ sem hefur um leið burði til að vera grunnur alls atvinnulífs, fræðastarfs og rannsókna í landinu. Litið hefur verið á fjölbreytnina sem lið í að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar og þar af leiðandi hafa fæstir séð hagsmunum okkar í þessum efnum betur borgið með því að íslenskir námsmenn hverfi annað til að leggja stund á nám í fjölda greina sem telja mætti að svaraði ekki fjárhagslegum kostnaði að kenna hér.

Jöfnun aðstöðu og skólagjöld

Í viðtali við Pál Skúlason, sem birtist hér í blaðinu hinn 21. nóvember síðastliðinn, skýrir hann nokkuð ítarlega þær forsendur er lágu til grundvallar tillögum þeim er hann sendi menntamalaráðherra fyrr í mánuðinum og greint var frá hér að ofan. Þar kom m.a. fram að á hinum Norðurlöndunum geti "einkaskólarnir valið á milli þess að vera kostaðir alfarið af einkaaðilum og innheimt þau skólagjöld sem þeir kjósa, eða að fá framlög frá ríkinu með sama hætti og ríkisháskólar en þá mega þeir ekki innheimta hærri gjöld af nemendum sínum en ríkisháskólarnir hafa heimild til", að sögn Páls. Eins og Páll hefur bent á geta einkaskólar hér á landi innheimt skólagjöld af nemendum sínum, umfram það sem ríkisháskólum er heimilt að gera, þótt þeir fái sömu framlög frá ríkinu og HÍ. Hann hefur því nokkuð til síns máls þegar hann segir HÍ og aðra háskóla í eigu ríkisins búa við "svo erfiða stöðu að þeir geti alls ekki sætt sig við það", í það minnsta á meðan þeim er fyrirmunað að innheimta skólagjöld eins og einkaskólarnir.

Ef þær fjárveitingar sem HÍ fær frá ríkinu duga ekki til að skólinn standi undir nafni og sé samkeppnisfær við einkarekna háskóla hér á landi, hvað þá erlenda háskóla, er ljóst að eitthvað verður að taka til bragðs. Þar sem stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um annars konar stefnumótun en Páll vísaði til í nágrannlöndunum er ekki nema eðlilegt að ríkisreknum háskólum sé í framhaldi af því gert kleift að innheimta skólagjöld til að afla sér aukinna tekna eins og áður hefur verið bent á í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins. Þar með yrði þessi aðstöðumunur háskólanna jafnaður. Aðstaða nemenda yrði einnig eins, sama við hvað háskóla þeir stunda nám, þar sem námslán eru veitt fyrir skólagjöldum.

Að auki eru öllum skólum að sjálfsögðu ýmsar aðrar leiðir færar við öflun tekna úr atvinnulífinu eða frá öðrum aðilum, en Reykjavíkurborg afhenti til að mynda HÍ sextíu og tveggja milljóna króna fjárframlag árið 2000, en það var liður í samkomulagi Reykjavíkur, Háskólans og Íslenskrar erfðagreiningar. Ef marka má skoðanakönnun sem sagt var frá hér í blaðinu í byrjun þessa árs og framkvæmd var af Samtökum atvinnulífsins að beiðni Stúdentaráðs HÍ, hefur mikill þorri fyrirtækja, eða um 77% þeirra, áhuga á að auka framlög sín til menntunar og rannsókna að því gefnu að skattafrádráttur vegna slíkra framlaga verði aukinn. Það má því ætla að ýmis sóknarfæri séu í sjónmáli fyrir metnaðarfullar háskólastofnanir þegar að því kemur að afla fjármagns til framtíðaruppbyggingar þeirra, enda eru menntamál ekki hvað síst hagsmunamál atvinnulífsins.

Áhrif nýju

háskólanna

Tilkoma og efling nýrra háskóla á undanförnum árum hefur án efa haft mjög jákvæð áhrif á íslenskt þjóðlíf sem einnig geta komið Háskóla Íslands til góða. Þær góðu undirtektir sem nemendur hafa sýnt Viðskiptaháskólanum á Bifröst og Háskólanum í Reykjavík hafa t.d. komið því til leiðar að samkeppni og aðhald hefur aukist á því sviði menntunar, enda greiða nemendur tæpast skólagjöld fyrir nám nema það standi undir kröfum þeirra.

Stofnun Listaháskóla Íslands hefur einnig haft töluverð áhrif á viðhorf til lista og menningar í samfélaginu og mun án efa geta orðið stefnumótandi afl í menningarlífi landsmanna þegar vægi þessara greina sem frumkrafts í hugmyndavinnu á ýmsum sviðum þjóðlífsins kemur betur í ljós. Möguleikar á samstarfi Listaháskólans við aðrar háskólastofnanir, svo sem Kennaraháskólann, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, blasa við og hafa í sumum tilfellum þegar verið nýttir með afar jákvæðum hætti.

Einnig er ljóst að háskólastarf á landsbyggðinni hefur valdið straumhvörfum í byggðaþróun. Háskólinn á Akureyri hefur verið ómetanleg lyftistöng á Eyjafjarðarsvæðinu, í kringum Landbúnaðarháskólann Hvanneyri hefur skapast blómleg starfsemi sem nú spannar ekki einungis hefðbundið nám í búvísindum heldur einnig nám á sviði náttúruvísinda og umhverfismála. Það sama á við háskólastarf á Bifröst, en í blaðinu í gær, föstudag, var einmitt sagt frá þeirri miklu og hröðu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað að undanförnu. Allir þessir skólar eru atvinnuskapandi á stöðum þar sem atvinnumöguleikar voru áður fábreyttir eða litlir auk þess að skila vitanlega margvíslegum öðrum ávinningi í samfélagslegum skilningi.

Framtíðarsýn

Ef metnaðarfullt starf rannsóknarháskóla á að eiga framtíð fyrir sér á Íslandi verður að leysa þann ágreining sem nú hefur orðið í háskólasamfélaginu. Einn liður í því er endurskoðun á stöðu og hlutverki elsta háskólans, Háskóla Íslands, miðað við það breytta umhverfi sem orðið hefur til á fáeinum árum. Enginn vafi leikur á því að allir háskólar á Íslandi þurfa að vera samkeppnisfærir um hæfustu kennarana og bestu nemendurna, ekki einungis innbyrðis heldur einnig með tilliti til útlanda, og til þess þarf umtalsvert fjármagn. Í heild snýst málið um sveigjanleika og aðlögunarhæfni þessara stofnana, ekki síst nauðsynlega endurnýjun mannafla innan hverrar stofnunar fyrir sig, og aðstöðu nemenda og kennara til að sinna starfi sínu og rannsóknum - því af þeim þáttum ráðast gæði námsins.

Það er t.d. ekki nóg að setja á stofn meistara- og doktorsnám á ýmsum sviðum til að skóli teljist fullburða rannsóknarháskóli. Framhaldsnám á háskólastigi þarf að vera mjög metnaðarfullt ef það á að standast samanburð við það sem boðið er upp á í góðum háskólum erlendis. Því hefur áður verið haldið fram í ritstjórnargrein í Morgunblaðinu að ekki sé viðunandi að samtvinna BA- og MA-námskeið til að hysja nám upp á MA-stig eins og dæmi eru um við HÍ, þar sem nauðsynlegt er að sníða námsefni hvers námsstigs fyrir sig að sértækum þörfum nemenda á ólíkum stigum. Fjölbreytt framboð námskeiða í meistarnámi hverrar greinar er einnig mikilvægt því einungis þannig er tryggt að hver og einn námsmaður geti mótað sitt rannsóknar- eða sérsvið með markvissum hætti eftir að grunnnámi lýkur.

Sú umræða sem nú á sér stað í þjóðfélaginu um hlutverk og skyldur háskóla er löngu tímabær. Háskóli Íslands hefur brugðist við þeim þrengingum sem hann er í með því að gera kröfu um breytingar. Þótt þær breytingatillögur hafi ekki fengið hljómgrunn er ljóst að það er ekki nema æskilegt að sem flestar skoðanir séu viðraðar um þennan mikilvæga málaflokk, þannig að hægt sé að tryggja þeim stofnunum sem reknar eru fyrir almannafé verðugt hlutverk í samfélaginu í takt við þá samfélagsmynd sem þær þjóna.