1. desember 1945: "Á hinu er enginn vafi, að allir bændur með sjálfstæðri hugsun og viðunandi metnaði, munu verða þakklátir Þorsteini sýslumanni og þeim öðrum, er best hafa fram gengið við það að losa böndin Skottunnar af jarðeignum þeirra.
1. desember 1945: "Á hinu er enginn vafi, að allir bændur með sjálfstæðri hugsun og viðunandi metnaði, munu verða þakklátir Þorsteini sýslumanni og þeim öðrum, er best hafa fram gengið við það að losa böndin Skottunnar af jarðeignum þeirra. Þess vegna fagna þeir lokadauða hennar og jarðarför.

Hitt er flestum ljóst að margar aðrar ógeðslegar Framsóknar-Skottur ganga enn ljósum logum í löggjöf þessa lands til tálmunar heilbrigðu atvinnu- og viðskiftalífi. Verður það eitt af þýðingarmestu þjóðnytjaverkum sem að kalla á næstu tímum, að fá þær sem flestar jarðsettar."

1. desember 1965: "Þeir, sem stjórna skrifum þessa málgagns annars stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar, ættu að hafa það hugfast, að þeir vaxa ekki af slíkum skrifum. Það hefur aldrei þótt sæmdarauki að því á Íslandi að opinbera sig sem ósannindamenn, en það er einmitt það, sem ritstjórar Tímans gera nú daglega í blaði sínu og verða minni menn fyrir."

1. desember 1985: "Heimastjórn 1904, fullveldi 1918, lýðveldi 1944, 200 mílna fiskveiðilandhelgi 1975. Þetta eru söguleg ártöl, sem varða veg þjóðarinnar til pólitísks og efnalegs sjálfstæðis. Fullveldi þjóðar er hinsvegar hvorki sjálfgefið né viðvarandi ástand, að minnsta kosti ekki án fyrirhafnar. Það er samsett úr réttindum, sem verja verður af trúmennsku. Og réttindi verða ekki varin nema með skyldum. Það þjónar ekki Íslendingum, eins og vonir stóðu og standa til, ef þjóðin varðveitir ekki rætur sínar, tungu sína, menningararfleifð og lífsviðhorf."